Frægðin kostar
Nýlega andaðist söngkonan og leikkonan Irene Cara sem átti vinsælasta lag ársins þegar ég var einmitt 13 ára (Flashdance … What a Feeling) og áhugi minn á popptónlist ört vaxandi. Vart leið sú vika að maður missti af „Listapoppi“ í útvarpinu. Níundi áratugurinn var hennar tími, fyrir utan Flashdance hafði hún leikið í bíómyndinni Á framabraut (Fame) sem ég hef reyndar enn ekki séð en hins vegar voru samnefndir þættir sem fylgdu í kjölfarið í sjónvarpinu árið sem ég var í 9. bekk og mikið ræddir í skólanum enda efni ætlað okkar aldri. Mig minnir að mér hafi ekki fundist jafn óþægilegt að vera unglingur þá og næstu tvö ár á undan, það er skrítið ástand sem erfitt er að finna sig í.
Þátturinn Á framabraut var með feiknarlangri kynningu með myndum af öllum leikurunum (það er komið úr tísku á Netflixöld að hefja þætti með myndum af leikurunum og er leitt; þetta var góður siður) og í miðjunni hélt Debbie Allen sem lék danskennarann Lydiu langa ræðu um að frægðin kostaði. Í þættinum voru mörg söng- og dansatriði og yfirleitt fléttuð inn í þáttinn – áhorfendur áttu að halda að nemendur Juilliardskólans í New York væru iðulega syngjandi og dansandi á borðum í matartímum. Ekki man ég til þess að nokkur hafi fallið fyrir þessari listrænu blekkingu.
Irene Cara sjálf sást aldrei í þættinum því að önnur leikkona (Erica Gimpel) hafði tekið við persónu hennar. Stjarna þáttanna var hinn óþægi Leroy sem var dansari og sagt var að leikarinn Gene Anthony Ray væri nánast eins og persónan. Hvað sem því líður fékk hann eyðni og dó ungur eftir að hafa stundað villt næturlíf með eiturlyfjum og öllu tilheyrandi árum saman. Önnur persóna var svarthærður náungi með mikinn makka sem samdi væmin lög á píanó og svo var stúlka sem lék á selló og átti líklega að vera aðalpersónan fyrst en var síðan skrifuð út úr þáttunum fyrir að vera ekki nógu spennandi. Mig minnir þó að ég hafi verið hrifnastur af gráskegg einum sem lék strangan tónlistarkennara. Vegna þess að þátturinn var bandarískur hélt hann áfram endalaust; þarlend sálfræði er að það eigi að fæða fólk til óbóta á því sem það vill. Íslenska sjónvarpið gafst sennilega upp áður löngu fyrr, a.m.k. gerði ég það.