Ingólfur Margeirsson og íslenska ævisagan

Um daginn minntist ég á Lífsjátningu sem var ein af metsölubókum ársins 1981 og síðar tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Hún var keypt á mitt heimili enda fjallaði hún um ekkju Sverris afa míns sem mamma ólst upp hjá. Sverrir lést þegar ég var fimm ára og þann dag rann upp fyrir mér að fólk gæti dáið. Guðmundu hitti ég líklega ekki eftir það en hún sendi mömmu jólakort árlega meðan þær báðar lifðu. Ég hafði kynnst henni sem aldraðri, góðlegri konu (hún var fimmtug þegar ég fæddist en það taldist gamalt hjá mínum hóp á þeim árum) og vissi ekkert um stormasama ævi hennar fyrr en ég las bókina, vissi ekki einu sinni að hún hefði verið fræg söngkona.

Eðlilega las ég kaflann um Sverri áður en ég las alla bókina en að lokum las ég hana og raunar margoft, gæti líklega endursagt yngri ættingjum efni hennar í þaula ef um væri beðið. Skiljanlegur áhugi minn á Guðmundu var enginn undirbúningur undir þessa miklu dramatík í bókinni sem var rækileg, nákvæm og skrifuð þannig að 12-13 ára ég hreifst af þessari sögu konu á sjötugsaldri. Löngu síðar hitti ég höfundinn Ingólf í Árnagarði þar sem hann var við nám eftir að hafa verið sleginn niður af erfiðum veikindum en man ekki hvort ég sagði honum hversu mikil áhrif bókin hafði. Að einhverju leyti bjó hann að nákvæmum dagbókum Guðmundu en hafandi verið viðriðinn bókaútgáfu í 20 ár veit ég vitaskuld að gott efni dugar ekki endilega til að bókin verði góð.

Löngu síðar las ég aðrar endurminningar þar sem annað sjónarhorn kom fram á suma atburði bókarinnar en eitt það besta við Lífsjátningu var að ég skildi jafnvel barnungur að þessi saga væri ekki endilega heilagur sannleikur heldur sagan frá sjónarhorni aðalpersónunnar. Um leið er þó alls ekki dregin upp fegruð mynd af henni. Drjúgur hluti bókarinnar fjallaði þannig um alkóhólisma sem ég hafði nákvæmlega engin kynni af en hlaut auðvitað að efla skilning minn á afa mínum. Eins er þar lýst á eftirminnilegan hátt ástum eldra fólks sem var fremur sjaldgæft efni í bókum á þeim tíma.

Líklega er ég þakklátastur þeim Guðmundu og Ingólfi fyrir að eiga sinn þátt í að ég varð lesandi sem hefur ekki aðeins áhuga á bókum sem eiga sérstaklega að höfða til þess kyns sem ég er fæddur með. Eins var þetta líklega sú ævisaga listamanns sem var áhrifamest á þessum tíma og kannski enn sterkari vegna þess að Guðmunda var um hríð misheppnaður listamaður sem gat ekki beitt sína sterkasta listvopni.

Previous
Previous

Þarf alltaf að vera morð?

Next
Next

Frægðin kostar