Þarf alltaf að vera morð?

Á þriðjudaginn sótti ég glæpakvöld Hins íslenska glæpakvölds og var það í þriðja sinn sem ég tók að mér að vera þar en hinum tveimur fyrri var aflýst vegna skurðaðgerðar og hins þekkta heimsfaraldurs. Heiti míns pallborðs var titill þessa pistula sem gerði það að verkum að spurningin leitaði á mig seinustu daga fyrir pallborðið (sem reyndist vera stórskemmtilegt og raunar viðburðurinn allur). Það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég heyrði spurninguna var að morð væri sannarlega glæpur amatörsins. Fíkniefnaviðskipti eða fjárglæfrar færðu sögur óhjákvæmilega á braut skipulagðrar glæpastarfsemi sem sannarlega getur verið gott söguefni en er bæði utan minnar þekkingar og áhugasviðs. Morð væru eðlilegra söguefni fyrir mig sem er ekki sérfræðingur í glæpum en rannsaka bókmenntir vegna þess að ég hef áhuga á fólki.

Ég hef auðvitað orðið var við það síðan ég gaf fyrst út glæpasögu að litið er á glæpasagnaritun sem sérgrein sem kemur ekkert sérstaklega út fyrir höfunda eins og mig sem rita alls konar bækur og þar á meðal glæpasögur (ég hef ekki tamið mér orðið „krimmi“ sem heyrðist aldrei á mínu bernskuheimili). Núna er ég langt kominn með 6. bók og finnst ég ekki hafa slegið í gegn og velti eðlilega fyrir mér hvort ég hafi tæmt möguleika formsins. Finnst þó eins og mér hafi kannski tekist að ná mínu helsta markmiði sem var að hver bók hefði sinn svip og ég gæti því bundið vonir við að þær renni ekki saman í eitt í huga lesenda.

Eitt þema sem stundum kemur upp þegar glæpasögur eru nefndar er óhugnaður og þar finn ég oft til þess að ég er ekki á sömu blaðsíðu og sumir. Ég hef ekki talið sögum til tekna að þær séu fullar af pyntingum eða öðrum óhugnaði af því tagi. Nákvæmar lýsingar á slíku festast ekki í minni mínu og þar sem ég vil að fólk muni eftir bókunum mínum reyni ég að feta brautir höfunda sem hefur tekist það og leggja áherslu á innri óhugnað og óhamingju – spennuna sem snýst um að vilja vita hvernig fer fyrir persónum sögunnar. Mér finnst þess vegna allar mínar eigin bækur óhugnanlegar vegna þess að einhver er drepinn og fólk hegðar sér grimmdarlega hvort við annað þó að lýsingar á því séu ekki endilega rækilegar. Áhugaverðast finnst mér sjálfum hvað fær fólk til að fara yfir mörkin og hegða sér þannig gagnvart náunganum og ég vona auðvitað að einhverjir lesendur pæli í því og hef reynt að stuðla að því með því að svara ekki alltaf öllum spurningum um það og skilja eitthvað eftir handa áhugasömum lesendum.

Hugarfar mitt einkennist kannski af því að ég rannsaka aldagamlar bókmenntir og hlýt því alltaf að stefna að því að bækur mínar séu lesnar oft, eigi möguleika á að batna við lestur og áhrifin verði varanleg. Engu breytir eiginlega hvaða flokks þær teljast til, allar tegundir bóka hafa þessa möguleika.

Previous
Previous

Elizabeth Taylor, höfundur

Next
Next

Ingólfur Margeirsson og íslenska ævisagan