Elizabeth Taylor, höfundur

Ég verð víst að játa að mér finnst gaman að heyra sögur um næstum gleymda höfunda sem eru seint og síðar meir enduruppgötvaðir sem snillingar. Eftirlætisblöðin mín TLS, LRB og NYRB (ég leysi ekki úr skammstöfunum af því að ég geri ráð fyrir að lesendur mínir lifi og hrærist í þessum blöðum líkt og ég) eru reglulega með greinar um slíka höfunda og ég kaupi stundum verk þeirra í kjölfarið og les. Þannig uppgötvaði ég John Williams, Barböru Pym, Shirley Jackson og marga fleiri höfunda og nú síðast Elizabeth Taylor. Sú á við þann vanda að stríða að sennilega dettur flestum allt önnur kona í hug þegar hún er nefnd. En þetta er sem sagt ekki sú sem lék Kleópötru, Mörtu og Desiree heldur ensk nafna hennar frá Reading sem sendi frá sér ellefu skáldsögur milli 1945 og 1971.

Stundum er sagt að fallega fólkið verði leikarar en það ljóta skrifi skáldsögur. Þetta get ég endurtekið vegna þess að ég skrifa skáldsögur. En nú er ég s.s. búinn að lesa eina eftir Elizabeth Taylor sem heitir Soul of Kindness, gefin út 1964, og skil strax hvað fólk er að tala um. Skáldsagan fjallar um góða konu sem lifir hamingjuríkju lífi en er í raun og veru skrímsli. Hún sér það sem hún vill sjá, heyrir það sem hún vill heyra, hefur sínar eigin hugmyndir um annað fólk og verður ekki talin af þeim. Hún er umkringd af fólki sem er einmana í návist hennar. Öll þessi saga er meistaralega skrifuð, kemur aftan að manni, er full af nettum smáatriðum og aldrei ýkjukennd. Það tekur lesandann góðan tíma að átta sig á aðalpersónunni Flóru sem er einkabarn sem elskar að vera góð við aðra en hefur því miður engan skilning á því hvað gerir þeim gott og fæst ekki til að sjá eigin rökvillur.

Þó að Flóra sé miðdepill sögunnar eru líka í henni átök sem snúast um annað fólk, óraunhæfar væntingar þess, óskynsamlegar ástir og veikburða tilraunir til að reynast öðrum vel. Elizabeth Taylor kann flestum betur að miðla hversdagslegri einsemd og óhamingju sem er varla í frásögur færandi en þó einmitt það sem höfundar þurfa að kunna skil á.

Previous
Previous

Fallískur hattur Kristínar

Next
Next

Þarf alltaf að vera morð?