Fallískur hattur Kristínar
Þegar ég var í ellefu ára bekk hafði ég kennara sem þekkti engar aðrar popphljómsveitir en Fleetwood Mac sem ég hafði aldrei heyrt nefnd. Þau voru sennilega fullorðinspopp og það tók mig góða stund að skilja að þau væru ein af stóru hljómsveitum 7., 8. og 9. áratugarins, næst á eftir Bítlunum, ABBA og Queen en ekki síðri en Rollingarnir, Kinks, ELO, Led Zeppelin og ýmsar fleiri. Eitt af því sem var auðvitað sérstakt við Fleetwood Mac og skýrir kannski hvers vegna sjötugir sýslumenn eltu þau ekki um allan heim til að fara á tónleika er að þar voru konurnar meira áberandi en karlarnir, hin bandaríska Stevie Nicks auðvitað frægust en hin enska Christine McVie ekki síðri við nánari hlustun. Hún andaðist nýlega og þó að ég harmi yfirleitt ekki andlát fólks sem ég þekkti ekki persónulega og náði hærri aldri en foreldrar mínir varð ég dapur smástund en minntist síðan Christine eins og ég minnist allra látinna poppara – með því að hlusta á helstu lög þeirra á Spotify.
Eins og ABBA-fólkið var Christine enginn byrjandi þegar hún byrjaði í Fleetwood Mac og hafði gefið út sólóplötu undir fyrra nafni sínu Christine Perfect. En fullkomin var hún ekki lengi því að hún gekk að eiga John McVie úr Fleetwood Mac og hljómsveitin átti síðar eftir að lifa af stormasamt einkalíf hljómsveitarmanna sem stundum gekk svo langt að fólkið ræddist ekki við þegar bestu lögin voru samin og tekin upp. Þau McVie skildu og hún hélt þá við ljósafrömuð hljómsveitarinnar en Stevie Nicks hafði á þeim tíma skipt hljómsveitarmeðlimnum Lindsey Buckingham út fyrir Mick Fleetwood. Eftir því sem framhjáhaldsillskan á milli hljómsveitarmeðlima jókst, þeim mun betri urðu lögin og þau áttu sína helstu smelli milli 1977 og 1987, m.a. þrjú sem Christine McVie söng aðalröddina í en það eru „Little Lies“ (með góðri innkomu frá Nicks), „Everywhere“ og „You Make Loving Fun“ sem var fyrsti hittarinn þar sem Christine var í aðalhlutverki og var víst samið til ljósamannsins en til að koma í veg fyrir slagsmál sagði hún John McVie að það væri innblásið af hundinum hennar.
„Everywhere“ er kannski lagið sem McVie átti mest í af öllum. Myndbandið við það lag er mjög eftirminnilegt og snýst um ástir konu í rauðum kjól og stigamanns á hesti, kannski ekki laust við áhrif frá Kate Bush en McVie hefði e.t.v. getað orðið hún ef hún hefði fæðst 15 árum síðar. Í myndbandinu um Litlu lygarnar situr hins vegar McVie við píanó með mikinn ljósan makka og hattinn sinn en eitt af því sem var áberandi við Fleetwood Mac var að konur báru þar karlmannlega hatta ekki síður en karlarnir – sem var kannski táknrænt fyrir völdin sem þær tóku sér, meðal fyrstu poppkvenna.