Heimspeki fyrir börn
Ef svo ólíklega vildi til að einhver hefði síðar hug á að skrifa ævisögu mína og vildi vita hverjir áhrifavaldarnir væru þá yrði ég sennilega að byrja á Andrésblöðunum sem eru ein elsta lestrarminning mín en þau voru raunar á dönsku og kannski fremur skoðuð en lesin. Ég át raunar sum af þeim en er ekki talið að bókmenntaneysla sé góð? Fyrir sex ára aldur kynntist ég líka Tinna, einnig á dönsku og pabbi var að lesa Tinnabók fyrir okkur einn dag þegar ég fékk skyndilega gubbupest og ældi yfir allt herbergið úr efri koju. En skömmu síðar kynntist ég Smáfólkinu. Þau voru líka á ensku en pabbi las bækurnar fyrir okkur og þýddi jafnharðan. Ég held að Charles M. Schulz hafi verið kominn á bók 43 í röðinni þegar við kynntumst en við söfnuðum þeim í kjölfarið og á ég um 100 bækur hans heima.
Smáfólkssögurnar eru fullar af íróníu og tragíkómík sem gerir þær að álíka samfélagsspegli 20. aldar og Jane Austen eða Balzac eru fyrir 19. öldina. Helsta einkennið er að fullorðnir sjást aldrei og börnin í sögunni eldast frekar hægt en þau eru mjög skýrar og marghliða persónur og hvert öðru betra. Ég man að mamma hélt sérstaklega upp á Sally Brown sem skrifaði óborganlegar ritgerðir og flutti fyrirlestra í skólanum sem aldrei hittu beinlínis í mark og eins gleraugnagláminn Marcie sem að ofan sést lenda í ástarævintýri við dreng í sumarbúðum sem kallar hana „lambaköku“ en hún er með brotna sjálfsmynd og neitar að trúa á ást hans. Ég man ekki eftir íslenskri ástarsögu sem mér finnst jafn sorgleg.
Sumarið 1978 fengum við að fara í Háskólabíó og sjá kvikmyndina Kalli kemst í hann krappann sem var sjálfstæð saga ekki úr bókunum en um persónurnar sem fóru í sumarbúðir og hittu þar þrjá ódáma sem gerðu þeim lífið leitt ásamt afar illskeyttum ketti. Ég man að í kjölfarið var ég heillaður af þessum vondu strákum sem kannski er einfaldlega mitt eðli. Almennt má þó segja að tilraunir til að gera sjónvarp eða kvikmyndir upp úr verkum Schulz eru frekar misheppnaðar, afþreyingariðnaðurinn nær einfaldlega ekki utan um þetta sérstaka sambland af einfaldri kómík og einfaldri tragík sem hann hefur manna best vald á. En myndin náði samt sannarlega til mín eins og sjá má á teikningu sem fylgdi lesendabréfi okkar bræðra til Þjóðviljans þá um haustið og geymir túlkun okkar á atburðum myndarinnar (mennirnir aftast eru þó hrein viðbót og gætu verið úr Tinnabók).
Kannski hefðum við átt að senda Schulz aðdáunarbréf ásamt þessari mynd en líklega hefur slíkum pósti rignt yfir hann þannig að sennilega var ágætt að manni hugkvæmdist það aldrei og lengi enn var frægð mín bundin við lesendur Þjóðviljans.