Íslensk þjóðmenning

Þar sem blogg mega vera sjálfhverf og þessi síða er ekkert nema eins manns sjóferðaskrif langar mig til að segja meira um bækur sem ég hef haldið upp á gegnum tíðina. Ein jólin var efst á óskalistanum fjögurra binda verk sem hét Íslensk þjóðmenning og var gefið út af Hafsteini Guðmundssyni í Þjóðsögu. Allir sem hafa minnsta vit á íslenskri prentsögu vita að hann var snillingur og meðal afreka hans er hönnun Lærdómsrita Bókmenntafélagsins. Hann var einnig einn af þremur frumkvöðlum á bak við Árbókina sem var eftirlætisbók okkar bræðra þegar við vorum 8 til 11 ára. Fyrir nokkrum árum náði ég að kaupa þær allar af því að ég er sentimental og í krabbamerkinu og elska allt sem tengist bernsku minni og 8. áratugnum. Þannig að þegar ég hitti Hafstein Guðmundsson sjálfan 17 eða 18 ára var ég sannarlega með stjörnur í augum en hann átti frumkvæði að því þar sem hann og kona hans höfðu haldið með okkur bræðrum í spurningakeppni framhaldsskóla sem naut þá vinsælda og áhorfs sem ekkert nema áramótaskaupið nær nú til dags (nú langar mig til að segja „en er nú flestum gleymd“ en óttast þó að svo sé ekki).

Eins og annað prentverk Hafsteins var Íslensk þjóðmenning mjög glæsileg að sjá og vitaskuld afar gagnleg fyrir áhugamenn og síðar nýnema í íslensku. Ég minnist þess að hafa strokið þessum bókum þegar ég fékk þær í hendur og fundist ég maður að meiri að eiga slíkan dýrgrip. Illu heilli urðu bindin aldrei nema fjögur (ég óttast að útgáfan hafi hreinlega farið á hausinn) en áttu að verða 9-10 og voru númeruð eftir því. Sennilega voru aðdáendurnir ekki nógu margir og Hafsteinn sjálfur farinn að eldast verulega.

Alls voru textahöfundar bókanna fjögurra 23 og ríflega helmingur er nú látinn en flesta átti ég eftir að hitta síðan í Árnagarði og kynnast sumum mjög vel. Óhætt er að kalla þetta landslið fræðimanna á þessu sviði en það segir kannski sína sögu um hve margt hefur breyst á seinustu 35 árum að hver einasti af þessum höfundum var karlkyns og man ég ekki eftir að hafa neitt velt því fyrir mér þá og finnst ólíklegt að margir aðrir hafi gert það. Það var ekki fyrr en ég hóf þátttöku í stjórnmálum að mér varð eðlislægt að taka eftir slíku og fannst því vandræðalegt aldarfjórðungi síðar þegar skipaðar voru doktorsnefndir í minni deild með 3-4 karlmönnum án þess að neinn segði neitt.

Hafstein sjálfan má sjá fyrir miðju á myndinni fyrir ofan. Hann var lágvaxinn, hvíthærður, með gleraugu og þverslaufu en allt voru þetta einkenni á mönnum sem mér fannst mikið til koma í bernsku. Með sínu fjölbreytta og fallega bókmennta- og útgáfustarfi hafði hann mikil og þörf áhrif á menntun mína og eflaust margra annarra.

Previous
Previous

Innvols augnabliksins

Next
Next

Heimspeki fyrir börn