Innvols augnabliksins
23. febrúar 1981 hófst valdarán í hinu viðkvæma lýðveldi Spáni sem rann út í sandinn nóttina eftir þegar Juan Carlos Spánarkonungur fordæmdi það eftir nokkurt hik. Valdaránsmenn höfðu reiknað með stuðningi konungs og áttu enga möguleika án hans en hann var sá sem hafði staðið fyrir þróun Spánar í átt til lýðræðis eftir andlát einræðisherrans Francisco Franco. En valdaránið hófst þegar ofurstinn Antonio Tejero Molina (sem enn lifir) ruddist inn í þinghúsið (cortes) þegar yfirvofandi var kosning nýs forsætisráðherra og skaut úr byssu sinni þannig að þingheimur allur kastaði sér á gólfið fyrir utan þrjá menn sem neituðu að gera það. Er hið misheppnaða valdarán við hann kennt og kallað Tejerazo. Enn fremur sendi herstjórinn Jaime Milans del Bosch skriðdreka á götur Valencia en aðrir herstjórar höfðust ekki að og tóku ekki þátt í valdaráninu sem var fyrsti veikleiki þess og í kjölfarið þurfti aðeins selbita frá kóngi sem allra augu beindust nú að.
Um þetta allt hefur Javier Cercas skrifað góða bók sem nefnist „Anatomía de un instante“ sem ég las í ár eða í fyrra mér til mikillar ánægju og uppfræðingar – og einhverjir færu kannski að bulla eitthvað um líffærafræði núna en anatómía þýðir annað og meira en það, kannski formgerð eða inntak augnabliksins sem um ræðir sem er þegar allur þingheimur kastaði sér á gólfið nema þessir þrír sem eru aðalpersónur bókarinnar. Meðal þeirra sem lögðust flatir var Calvo Sotelo sem var síðan kosinn forsætisráðherra en ekki Adolfo Suárez sem var að láta af því starfi eftir tæp fimm ár. Hann var vinur kóngsins og minni háttar hjól í Francóismanum og einmitt þess vegna tilvalinn að færa Spán í átt til lýðræðis á fimm árum. Það gekk hins vegar brösulega og á þessum tímapunkti var hann búinn að vera í pólitík, búinn að segja af sér og var bugaður maður. Kenning Cercas er að einmitt þess vegna hafi hann ekki kastað sér á gólfið heldur setið rólegur í forsætisráðherrasætinu. Öfugt við Calvo Sotelo og hina leiðtoga flokks hans átti hann ekkert eftir og það eina sem hann gat gert var að sitja kyrr á þessari ögurstundu.
Hinir sem ekki köstuðu sér voru báðir gamlir menn. Annar var aðstoðarforsætisráðherrann og yfirmaður varnarmála landsins, Manuel Gutiérrez Mellado sem var 68 ára. Hann átti að baki 40 ára þjónustu í her Francos þegar kóngurinn og Suárez fengu hann til að standa við bak hins unga forsætisráðherra og það var hlutverk gamla mannsins að lýðræðisvæða spænska herinn sem var sannarlega ekki auðvelt eftir 40 ár með Franco. Þar vann hann þarft starf en ekki alltaf við mikla lýðhylli og í dag er hans fyrst og fremst minnst fyrir frammistöðu sína þennan örlagaríka dag. Hann kastaði sér ekki heldur á gólfið en öfugt við Suárez sat hann ekki kyrr heldur stóð beinlínis upp og bauð ofurstunum birginn enda hærra settur í hernum en þeir. Uppreisnarmenn höfðu gleymt að stöðva sjónvarpsútsendinguna þannig að spænskur almenningur sá þennan aldraða granna litla mann standa gegn vopnuðum hermönnum sem reyndu að fá hann niður á gólfið en mistókst. Cercas telur að stigveldishugsun Gutiérrez hafi átt mestan þátt í þessari hetjulegu framgöngu. Í hernum gefa undirmenn yfirmönnum ekki skipanir og hann ætlaði því ekki að lúta fyrir ofursta. Líkt og Suárez hvarf Gutiérrez síðan úr pólitík en þessi eini dagur varð hans frægðarstund.
Sá þriðji sem kastaði sér ekki á gólfið sat lengst uppi í sal og það var kommúnistaleiðtoginn Santiago Carrillo sem var gamall hundur úr borgarastríðinu 1936 til 1939, síðar útlagi í Frakklandi og Sovétríkjunum og aðalritari spænskra kommúnista í útlegð frá 1960 en kom heim 1976 og lék lykilhlutverk í hinum miklu umbreytingum Suárez. Sáttavilji hans og evrópukommúnismi gerðu þær eiginlega mögulegar en við það dró samt úr vinsældum hans og hann var á lokametrunum þegar Tejero ofursti ruddist inn í þinghúsið, sat samt rólegur og tók áhættuna á að vera skotinn og lýsti sig síðan konungssinna þegar Juan Carlos tók afstöðu gegn plottinu. Carrillo var settur af sem aðalritari ári síðar og varð áhrifalaus en lifði fram á 98. ár sitt.
Cercas skrifar ekki aðeins um þessa þrjá heiðursmenn heldur líka kónginn og hans þátt í valdaráninu. Vissulega kvað hann það niður en meðal plottara var náinn samverkamaður hans, Alfonso Armada. Vissi konungur meira en hann lét uppi? Hvað sem því leið tók hann að lokum rétta ákvörðun og Spánn lifði af sem lýðræðisríki.