Fantasía fyrir allan aldur

Nú nálgast jólin og þar með lýkur hinu séríslenska jólabókaflóði með öllu sínu skrumi. Þessi vefsíða heldur áfram en ég vil samt minna aðeins á Risann, annars væri ég ekki sá kappsmaður sem í 8. bekk lauk við allt heftið af kvæðum sem átti að læra utanbókar á tvöföldum hraða aðeins vegna þess að í stofunni hékk uppi listi þar sem það kom fram hverjir höfðu lesið mest. Eins og dyggustu lesendur vita er Risinn önnur bókin í fjögurra binda flokki sem nefnist Álfheimar. Bækurnar eru hver í sínum lit og spegla á einhvern hátt höfuðskepnurnar: vatn, jörð, loft og eldinn. Risinn er jarðarbókin og þó að allir foreldrar hafi blendnar tilfinningar gagnvart afkvæmum er ég enn allsáttur við þetta. Upphafið er óvænt, söguþráðurinn ófyrirsegjanlegur og sögulokin óhefðbundin á margan hátt. Auðvitað er hún full af klisjum úr öðrum fantasíum en þær eru ekki endurteknar heldur snúið upp á þær.

Þegar maður skrifar afþreyingarbækur er markmiðið að lesendur fyllist áhuga og séu ekki þreyttir svo mikið að þeir komist ekki í gegnum bókina. Á hinn bóginn þurfa alvöru bókmenntir að hafa inntak og streng til lesandans. Í Álfheimaflokknum liggur strengurinn í gegnum aðalsögupersónurnar sem eru alvöru fólk sem stundum finnur til smæðar sinnar, getur átt til afbrýðissemi og öfundssýki, óöryggi, hrifningu en líka styrk og umfram allt miskunnsemi sem er sú dyggð sem skiptir mestu máli í Risanum. Aðalpersónan eignast vopn í bókinni en Álfheimar eru ekki samfélag þar sem ofbeldið stjórnar öllu og hennar þroski felst í öðru. Hún kynnist sjálfri sér en hún og lesendur kynnast líka því dularfulla og stundum óraunverulega draumasamfélagi sem henni og vinum hennar er falið að ríkja yfir. Flokkurinn í heild sinni fjallar kannski mest um það og þá hugmyndafræði sem gegnsýrir álfasögur.

Meira vill maður ekki segja í bili. Vonandi mun snjallara fólk en höfundur síðar sjá aðra og merkilegri fleti á sögunni.

Previous
Previous

Flárus fjandíbus

Next
Next

Innvols augnabliksins