Flárus fjandíbus

Þó að samfélagið okkar sé sannarlega raunverulegt og fullt af alls konar fólki af ýmsu tagi finnst manni stundum að samfélagið sem er kynnt í fjölmiðlum sé eins konar gerviheimur þar sem langflest okkar sjást lítið eða ekkert en upp rísa reglulega kvartsárar og stóryrtar „menningarhetjur“ sem endalaust eru sagðar fréttir af, án þess kannski að mikið sé að frétta. Ekki síst ef þeim tekst að vera stöðugt í illdeilum, búa til mikið havarí, hafa ofsafengnar skoðanir á öllu og leika fórnarlamb sýknt og heilagt. Það er hollt að muna og nota sem lækningu við fréttalestri að heimurinn í fréttunum er gerviheimur sem hefur að vísu tengsl við raunheiminn en lýsir honum þá engan veginn. Þetta vissi auðvitað Goscinny höfundur Ástríks sem var snjall samfélagsrýnir og kenndi okkur hinum að vera það líka með minniheimi (mikrokosmos) sínum í Gallíu, þorpinu þar sem allir voru á sínum stað en samfélagið gat þó auðveldlega fuðrað upp þegar komið var við kaunin á þorpurunum.

Ein eftirlætisbókin mín hét Flugumaðurinn og fjallaði um tilraun Sesars til að hleypa upp samfélaginu í Gaulverjabæ með aðstoð flugumanns sem hét Flárus Fjandíbus í íslenskri þýðingu Þorbjarnar Magnússonar. Flárus Fjandíbus var heldur meiri rógtunga en Mörður Valgarðsson á sínum tíma og hafði einstakt lag á að hleypa upp öllum samkundum og samfélögum. Aðferð hans snerist um að höfða til viðkvæmni, afbrýðissemi og særðs stolts náungans og reyndist óbrigðul. Hann tók ekki til máls nema að allt fuðraði upp.

Ég biðst afsökunar á enskunni að ofan (í íslensku þýðingunni er notað orðið grunnhyggni sem festist rækilega í minninu á mér átta ára) en hér má sjá dæmi um hvernig Flárus nær jafnvel að koma við kaunin á Sesari sjálfum en fórnarlömb hans voru iðulega farin að tala með grænum lit þegar hann hafði stundað iðju sína og sérfræðingur var hann í að útdeila gjöfum og heiðri á þann hátt að hlaut að espa alla upp. Í lokin var flugumaðurinn síðan fluttur úr landi með skipi en þar auðvitað hófust illdeilur um leið og hann kom á skipið. Þarna lærði maður þá hollu lexíu að ef það logar stöðugt allt í ófriði og illdeilum í kringum eina manneskju, þá gæti verið að það sé engin tilviljun!

Previous
Previous

Minning um fossótta

Next
Next

Fantasía fyrir allan aldur