Minning um fossótta

Frá því að ég man eftir mér hef ég verið heillaður af Níagarafossum og fólki sem reyndi að fara niður þá í tunnu. Kannski hafði nýsjálenski þátturinn „Gullgrafarnir“ (Hunter’s Gold) þessi áhrif en hann var á dagskrá sjónvarpsins þegar ég var átta ára. Þar kemur fyrir „töframaður“ einn sem reynist þó vera svikahrappur og eitt atriði hans snýst um að honum sé varpað í stórfljót í tunnu. Hann er þó með falskan botn í tunnunni og hyggst laumast afsíðis og birtast við tunnuna. En naumvitur aðstoðarmaður nær ekki að opna botninn nógu vel þannig að hrappurinn fer í raun í fljótið í tunnunni og stórslasast. Önnur saga sem ég man eftir svipaðs efnis var í Det Bedste og fjallaði um hinn átta ára Roger Woodward sem fór niður fossana árið 1960 en lifði af og slasaðist ekki einu sinni að ráði. Frá þessu var raunar sagt í Morgunblaðinu 5. ágúst 1960 og þar er að finna þessa óborganlegu setningu: „Enginn annar hefur farið niður fossinn og bjargast, að undanskildum þrem heimskingjum sem fóru niður fossinn í tunnum og gúmmíkúlu.“ Þar hafið þið það, galgopar!

Hér að ofan má sjá björgun Rogers sem reyndist næstum ómeiddur en fylgdarmaður hans kramdist til bana en systur Rogers var bjargað úr bátnum áður en hann fór niður fossinn. Þótti þetta að vonum mesta kraftaverk og svo áhrifamikill lestur að ég man lesturinn enn 40 árum síðar (minnti raunar að Roger héti Harry). Roger auðvitað gat ekkert gert að þessu slysi en fyrsta manneskjan sem fór niður fossana í tunnu af ásettu ráði og lifði af var raunar 63 ára gömul kennslukona Annie Edson Taylor og var það í fjáröflunarskyni. Hún hafði gefið traustvekjandi presti alla fjármuni sína og stóð uppi févana. Raunar auðgaðist hún ekki á tiltækinu því að tunnunni var stolið af henni skömmu eftir afrekið. Hún var sérhönnuð, í henni bæði eik og járn og dýna til að auðvelda henni að lifa af. Auk heldur sendi hún kött niður fossinn á undan sér og kisi lifði af líka enda eiga kettir níu líf sem kunnugt er.

Sennilega var Taylor í meira lagi skrítin en það breytir ekki því að henni tókst það sem fjölmargir karlmönnum á ýmsum aldri hafði áður mistekist. En aðeins örfáir höfðu leikið þetta eftir henni og lifað af þegar Roger Woodward fór niður fossinn í björgunarvestinu einu. Kannski hefði aðeins barn lifað þá raun af – a.m.k. var François Truffaut með kenningu um það í bíómyndinni Vasapeningar. Roger ku vera enn á lífi og hefur oft rætt við blöðin um þetta kraftaverk en varar alla eindregið við að reyna sig við fossinn.

Previous
Previous

Styttan af Stikilsberja-Finni

Next
Next

Flárus fjandíbus