Styttan af Stikilsberja-Finni
Núna þegar jólin nálgast fer þessi síða í hálfsmánaðarfrí og hefur raunar verið í léttum dúr þessa vikuna. Jólapistillinn eða jólakort mitt til ykkar fjallar um höggmyndir Bandaríkjamannsins Charles Ray (f. 1953) sem vinnur mikið með „das unheimliche“ og hafa mörg verk hans verið æði umdeild. Það allra umdeildasta heitir Huck and Jim (2014) og er innblásið af sögunni um Stikilsberja-Finn sem ferðaðist eins og kunnugt er ásamt strokuþrælnum Jim niður Mississippifljót.
Höggmyndin sýnir þá félaga saman, báða nakta, Finn bograndi en Jim uppréttan og teygir sig í átt að Finni en snertir þó ekki. Margt við þetta fer mjög í taugarnar á Ameríkunum, t.d. að þeir séu naktir, þó að annar sé fullorðinn en hinn unglingur og af ólíkum kynþáttum sem enn truflar marga þar vestra.
Eins og sjá má er myndverkið þar að auki risavaxið og þeim mun áleitnara. Hin bograndi stelling Finns truflar Ameríkana líka heilmikið þó að gera megi ráð fyrir að hann sé einfaldlega að ná sér í vatn eða fæðu.
Kannski hefur næstumsnerting Jim líka truflandi áhrif. Síðan þrælahaldinu lauk í Bandaríkjunum hefur hvíti kynstofninn lifað í stöðugum ótta við sína fv. þræla eða kannski verðskuldaða refsingu fyrir kúgunina. Ef Jim átti afkomendur eru ófáir þeirra í fangelsi núna, öðrum þræði vegna vænisýki hvíta mannsins.
Sjálfsagt trufla kynfæri undir lögaldri líka margan Ameríkanann þó að stelling Finns geri það að verkum að þau eru minna sýnileg en hins.
Hvað er drengurinn annars að horfa á? Hvers vegna er hann svona rólegur og öruggur við hlið nakta svarta mannsins? Og tekst Charles Ray það sjaldgæfa: að ögra listunnendum? Hvað veit ég um það, ekki er ég myndlistarmaður.
Vefsíðan Bókmenntir og listir óskar sínum frábæru lesendum gleðilegra jóla!