Sendiboðinn Stefán

Á aðventunni les ég alltaf mikið en yfirleitt ekki „jólabækurnar“ því að fyrir mér er lestur ekki hópathöfn og ég hef álíka mikinn áhuga að lesa nýjar bækur í ofboði fyrir jól og því að gefa þeim hinum sömu stjörnur. En á aðventunni þarf líka að taka til og þegar ég kom fyrir nýjum bókum ákvað ég um leið að setja tólf aðrar í hilluna sem er fyrir bækur sem eru hugsanlega á útleið af heimilinu. Þar á meðal voru fjórar ástralskar verðlaunabækur sem Lindin gaf út á 10. áratugnum og hafa af einhverjum ástæðum ílenst á heimili mínu. En nú var tími þeirra kannski kominn. Ég ákvað þó að lesa þær áður en þær færu og þess vegna las ég Magnaðar minjar á aðventunni en bókin er áströlsk, heitir Strange Objects á frummálinu og er eftir Gary Crew, önnur bókin sem hann gaf út og fékk einmitt verðlaun í heimalandinu. Hún er þýdd af Guðna Kolbeinssyni (eða „snarað“ eins og stendur á titilsíðu). Þar á meðal eru nöfnin þýdd sem líklega var ekki góð hugmynd í þessu tilviki.

Íslenski titillinn er svolítið grallaralegur og aðalpersónan er látin heita Stefán Skírnisson en heitir Steven Messenger í Strange Objects. Þá eru hollensk nöfn þýdd sem Vilhjálmur og Janus en mennirnir heita Wouter og Jan á frummálinu. Ég hef líklega ekki lesið bókina í meira en aldarfjórðung og mundi alls ekki eftir að hafa líkað við hana en hún er góð við annan lestur. Þó skilur hún lesandann eftir með fleiri spurningar en svör, þar að auki er hún full af gildisdómum sem lesandinn er ekki endilega sammála en eru auðvitað fyrir munn persóna því að bókin er öll sett upp sem safn gagna um málið og því margradda frásögn ýmissa sögumanna. Mest skrifar hinn dularfulli Steven Messenger (eða Stefán Skírnisson) en því næst hollenski 17. aldar hermaðurinn Wouter Loos í dagbók sem Messenger finnur í helli ásamt mannshönd og dularfullum hring. Loos er raunveruleg persóna sem var blandaður inn í hryllilegan atburð sem fygldi í kjölfar strands skipsins Batavíu árið 1629. Fjöldi manns lifði af strandið en hluti hópsins réðst gegn öðrum hluta og á endanum voru 120 myrtir og pyntaðir. Refsingar ofbeldismannanna voru líka stórkostlegar þegar lögum var komið yfir þá, þeir voru handhöggnir, pyntaðir og hengdir en tveimur var refsað með því að setja þá í land á strönd Ástralíu. Annar var Wouter Loos en hinn hét Jan Pelgrom de Bye Van Bemel, 18 ára gamall. Þeir eru fyrstu evrópsku landnemarnir í Ástralíu, 160 árum fyrir landnám Englendinga, en enginn Evrópumaður sá þá aftur og ekkert er vitað hvernig fór fyrir þeim meðal frumbyggja Ástralíu.

Ég held að mér hafi fundist þessi saga ógeðfelld þegar ég las hana fyrst og átt von á skemmtilegri ævintýrasögu með geðþekkri hetju sem hægt væri að standa með. Steven Messenger er aftur á móti ekki slík hetja heldur þvert á móti unglingur sem á bágt, skynjar sig sem óvinsælan og afskiptan, fær þráhyggju og er kannski ekki áreiðanlegur sögumaður. Um leið fer hann að dreyma einkennilega drauma, sjá tvífara sinn og er hugsanlega andsetinn, m.a. vegna þess að hann hefur tekið til handargagns dularfullan hring sem fylgdi dagbók Loos og mannshöndinni sem fannst. Sögumaður leiðréttir ekki frásögn hans en birtir aðrar frásagnir sem stangast á við hana. Fljótlega fer lesandinn að sjá líkindi með Steven og táningnum Jan Pelgrom sem gekk í lið ofbeldismannanna og morðingjana af Batavíu, grátbað svo um náð og var hlíft, er huglaus og duglaus og reynist dagbókaritaranum Loos erfiður förunautur. Er hann tvífari Stevens? Fylgir hann hringnum dularfulla? Þessum spurningum er ekki svarað en smám saman hlýtur lesandi að fara að efast um drenginn sem virtist í fyrstu vera söguhetjan.

Vonandi hef ég komið því til skila hversu óvenjuleg staða söguhetju er í þessari bók en hið sama gildir um þá frásagnaraðferð að það er enginn sannleikur, aðeins gögn sem vísa hingað og þangað og geyma ekki „lausnina“. Það er raunar kannski lykill að túlkun á sögunni: hún er lykilsaga um eðli sagnfræðinnar. Sagnfræðin er ekki sannleikur heldur gögn sem eru túlkanleg og sjónarhorn sem er hugsanlega ekki treystandi. Eins snúast bæði þessi skáldsaga og saga Ástralíu um landnám Evrópumanna og áhrif þess sem voru kannski engin frelsun landsins frá frumbyggjum eins og landnemum fannst þó lengi. Í þessari sögu mætti líkja þeim við eitur eða bölvun og fulltrúar þess eru tvífararnir Jan Pelgrom og Steven Messenger.

Samt veldur frásagnarhátturinn því að það er erfitt að vera með öllu samúðarlaus og sinnulaus gagnvart táningnum sem er í aðalhlutverki. Fyrir Evrópumann sem les er erfitt að komast að annarri niðurstöðu en að skrímslið sé maður sjálfur.

Previous
Previous

Al Pacino og hyldýpið

Next
Next

Styttan af Stikilsberja-Finni