Al Pacino og hyldýpið

Ég las líka Dante í jólafríinu en finnst ég ekkert sérstaklega vel til þess fallinn að ræða um Guðdómlega gleðileikinn. Rétt fyrir jól sá ég aftur á móti amerísku kvikmyndina Cruising á netinu vegna þess að ég hafði rekist á umfjöllun um hana sem vakti forvitni mína. Myndin er frá 1980 og skartar Al Pacino í hlutverki lögreglumanns sem fer í dulargervi á leðurhommabari til að finna morðóðan mann sem skilur lík eftir eins og hráviði um allt. Eðlilega var ég fullur tortryggni í garð þessarar myndar vegna þess að hún er frá 1980 (í íslensku kvikmyndagagnrýninni um hana frá sama tíma er sagt að hún gerist í „samfélagi kynvillinga“) og hefur ekki gott orð á sér en er þakklátur forvitninni því að hún reyndist eitursnjöll úttekt á hyldýpinu sem Nietzsche talaði um á sínum tíma og Al Pacino er maðurinn sem horfði ofan í hyldýpið: sakleysislegur lögreglumaður sem tekur að sér óþægilegt verk til að fá frama í lögreglunni en breytist að lokum í veiðimann sem morðinginn hefur ástæðu til að óttast ekkert síður en hið gagnstæða og kannski í morðingja því að í lokin finnst nágranni hans myrtur, að því er virðist eftir að morðingjanum var náð. Ef myndin hefði verið um eitthvað annað og viðurkenndara efni hefði Pacino fengið óskarsverðlaun fyrir hlutverkið því að þetta er einn besti leikur sem ég hef séð frá honum og er þá stöngin ansi hátt uppi.

Myndin er iðulega sögð hrá og óhugnanleg en er samt ekki svo slæm fyrir okkur sem viljum ekki horfa á ofbeldi í myndum. Óhugnaðurinn er aðallega innra, morðin eru afgreitt hratt og ekki dvalið við þau. Allar persónur sem birtast eru af holdi og blóði og fjallað um þær nánast af nærgætni sem er í andstöðu við hið hrottalega viðfangsefni. Þó að lögreglan hegði sér á köflum ömurlega er samt hægt að hafa samúð með henni líka, jafnvel lögreglumanni sem hugsanlega hefur framið hluta af morðunum sem um ræðir. Sjálfur glæpamaðurinn reynist sakleysislegur (eða kannski ekki mjög sakleysislegur) háskólastúdent að skrifa lokaritgerð um söngleiki en reynist vera með mjög hrikalegan pabbakomplex.

Persóna Pacinos þróast mikið í myndinni en ekki til hins betra, sekkur fyrst niður í eymd og tóm en síðan í samúð og jafnvel efa um starf sitt (þegar lögreglan hefur pönkast á skíthæl einum sem reynist vera hálfgert grey og alls ekki morðinginn) en að lokum er hann orðinn maður sem ástæða er til að vera hræddur við og þessi umbreyting sést líklega fyrst í nágrannaerjum við dansara nokkurn sem leikinn er af James Remar (sjá að ofan) og ætlar fyrst að vaða yfir hann en kemst svo að því að það er meiri töggur í Pacino en lítur út fyrir. Þetta er upphafið að því að Pacino breytir um aðferð og lokkar út morðingjann, að því er virðist á eigin spýtur. Hann og geðveiki söngleikjaðdáandinn minna í svip á þá sem tókust á á aðalgötunni í vestrunum forðum og þá skynjar áhorfandinn að Cruising fjallar líka um eitraða karlmennsku löngu áður en það umfjöllunarefni komst í tísku.

Á sínum tíma var myndin umdeild bæði vegna þess hvernig löggunni og „kynvillingunum“ var lýst en núna löngu síðar er hið ógurlega „kynvillingasamfélag“ alls ekkert sérstaklega ógurlegt frá bæjardyrum mínum séð og áhorfandinn getur farið í sama ferðalag og persóna Pacinos og tekið það í sátt á þess eigin forsendum. Sjálf myndin er alls ekki aðeins lýsing á menningarkima heldur umfram allt tilvistarlegt ferðalag, frumleg, óvænt, blæbrigðarík, eldist vel með tilliti til fordóma og verðskuldar mun meira lof en hún hefur fengið.

Previous
Previous

Athvarfs er þörf

Next
Next

Sendiboðinn Stefán