Athvarfs er þörf

Sem alkunna er útnefndi T.S. Eliot apríl grimmastan mánaða fyrir einni öld í Eyðilandinu (1922) og var þess vitaskuld minnst um heim allan í fyrra. Sama ár kom út skáldsagan The Enchanted April eftir Elizabeth von Arnim (1866–1941) sem raunar hét Mary Beauchamp þegar hún fæddist og Lady Russell þegar hún gaf út bókina (var mágkona Bertrands) en notaði Elizabeth sem nom de plume og bætti von Arnim við síðar en það var nafn fyrri eiginmanns hennar sem var þýskur greifi. Ég hafði aldrei lesið neitt eftir von Arnim fyrr en um jólin þegar ég fékk téða bók um töfra aprílmánaðar í jólagjöf og las hana mér til mikillar ánægju.

Þetta er einkennilega óvænt bók um miðaldra konu sem er gripin skyndilegri ferðaþrá og telur ókunna konu á að leigja með sér ítalskan kastala í apríl. Þær auglýsa síðan eftir tveimur öðrum og fleiri bætast við að lokum en það eru þessar fjórar ólíku konur og samskipti þeirra sem eru meginumfjöllunarefni bókarinnar. Þær virðast í fyrstu vera týpur en síðan koma þær allar á óvart og bókin líka, aðallega vegna þess að hún leyfir sér að vera laus við allt drama og hin hefðbundnu minni sem setja svip sinn á sögur. Þvert á móti er þetta saga um heillandi ferðalög og Ítalíu en aðallega um mikilvægi þess að eiga sér athvarf til að flýja ástlaust hjónaband, framhjáhald, vonbiðla eða elligremju. Sagan er þó alls ekki væmin heldur full af kaldhæðinni fjarlægð frá konunum sem þó er ekki hæðst illgirnislega að og ekki heldur eiginmönnum þeirra en þó frekar þeim. Nú aðhyllist ég ekki hina ævisögulegu rannsóknaraðferð en fyrra hjónaband Elísabetar var ekki mjög hamingjusamt og sú reynsla hefur sín áhrif í þessari bók sem óhætt er að kalla femíníska jafnvel miðað við 21.aldar strauma og stefnur.

Bókin var samin í kastalanum hér að ofan sem er í Portofino. Hún var gerð að leikriti skömmu eftir að hún kom út og var kvikmynduð árið 1991. Ég ákvað að horfa á myndina og hún er þægilega trygg skáldsögunni. Á sínum tíma vakti mesta athygli frammistaða Joan Plowright í hlutverkju svartklæddu og regluföstu ekkjunnar frú Fisher sem virðist hafa þekkt alla fræga karlmenn frá ofanverðri 19. öld og hefur hina mestu fyrirlitningu á mærð hinna kvennanna en jafnvel hún mildast að lokum fyrir töfra aprílsins. Svipbrigðaleikur Plowright útvegaði henni einu óskarsverðlaunatilnefningu sína sem er til marks um góðan smekk meðlima akademíunnar í það sinn.

Previous
Previous

Nurse Diesel

Next
Next

Al Pacino og hyldýpið