Nurse Diesel

„We’re dealing with sick people here, you understand? Dangerously sick people!“ Á nýarsnóttina 1985 horfðum við fjölskyldan saman á bíómyndina High Anxiety sem hlaut titilinn Handagangur í öskjunni í íslenska sjónvarpinu. Í bíómyndinni er sagt frá Dr. Thorndyke sem hefur störf á nýju sjúkrahúsi en brátt kemur í ljós að þar er ekki allt sem sýnist. Myndin er eins og margar myndir Mel Brooks tilbrigði við eldri kvikmyndir, í þessu tilviki myndir snillingsins Hitchcocks. Hann leikur sjálfur Dr. Thorndyke, Madeline Kahn leikur kvenhetjuna Victoriu Brisbane og óvætturin Nurse Diesel er leikin af Cloris Leachman.

Skömmu áður en Brooks gerði High Anxiety hafði kvikmyndin Gaukshreiðrið slegið í gegn og stemmingin í samfélaginu var sannarlega ekki jafn mikið með hjúkrunarfræðingum og nú er. Nurse Diesel er hin skuggalegasta frá upphafi, hvæsir allar replikur sínar gegnum annað munnvikið, er með yfirskegg og grettu og það þarf góðan vilja hjá Dr. Thorndyke að gruna ekkert – sem hann gerir þó ekki. Inn í þetta blandast persóna hennar frábæru leikkonu Cloris Leachman sem lék frau Blücher í Unga Frankenstein en í hvert sinn sem nafn hennar var nefnt hneggjuðu hestar hræðslulega án þess að á því hafi verið gefin nokkur skýring.

Fyrir utan setninguna hér efst í greininni sem er óaðskiljanleg frá því hvernig Cloris Leachman flytur hana á hún fleiri góðar í myndinni, meðal annars „Dinner is served promptly at eight in the private dining room – Those who are tardy do not get fruit cup“ og það gildir raunar almennt um myndir Mel Brooks að þær hefðu fallið með öðrum leikurum og sérstaklega leikkonum (einkum þeim Cloris og Madeline) því að þeim tekst að blása sérstöku lífi í stereótýpurnar sem þær fara með. Ég veit ekki hvort allt sem Mel Brooks hefur gert eldist vel en a.m.k. þáttur þessara tveggja snjöllu leikkvenna og þá ekki síst Nurse Diesel. Ég horfði nýlega á viðtal við Cloris Leachman sem var tekið eftir að myndin kom út og hún reyndist þá glæsileg kona og ekkert lík herfunni Diesel. Maður getur rétt ímyndað sér hvílíka útrás hún hefur fengið í hlutverkinu.

Previous
Previous

Lise, in memoriam

Next
Next

Athvarfs er þörf