Lise, in memoriam
Eins og ég hygg að ég hafi áður nefnt á ég mér enga eftirlætishöfunda þar sem ég er atvinnumaður í faginu og stöðugt að rekast á góðar bókmenntir. Höfundar sem ég ólst upp við á heimilinu og las snemma hafa samt auðvitað sérstöðu í mínum huga, ekki síst þeir sem skrifuðu fyrstu „fullorðinsbækurnar“ sem ég las og einn slíkur er Lise Nørgaard sem andaðist á nýársdag 105 ára gömul. Í Danmörku er hún orðin þjóðhetja fyrir Matador en ég þekkti hana vel áður en ég sá þann þátt því að hún var ritstjóri Hjemmet sem mamma keypti (sennilega út af henni) og var mjög umrædd í dönsku vikublöðunum sem við fengum heim. Meðal fyrstu bóka fyrir fullorðna sem ég reyndi að lesa á erlendum tungumálum voru Med mor bag rattet og Volmer eftir hana. Þessar bækur sækja margt í líf hennar sjálfrar, eins og raunar Matador, þannig að margt var þegar kunnuglegt þegar ég sá þáttinn.
Eiginleikar Lise Nørgaard sem birtust svo greinilega í Matador voru líka fyrir hendi í þessum bókum. Hún skrifar feykilega skemmtilega, minnir iðulega á Guðrúnu Helgadóttur upp á sitt besta. Þar að auki er hún mjög kaldhæðin og mikill feministi. Med mor bag rattet fjallar um þegar konur ryðjast inn á verksvið karlanna með því að keyra sjálfar og lýsir kynslóðabili milli danskra kvenna sem voru fæddar í kringum 1890 og þeirra sem voru á aldri við Lise sjálfa og neituðu að láta kúgast lengur. Volmer er hins vegar saga um stéttir og lýsir vandræðaunglingi sem allir könnuðust við þegar ég var barn (fyrir daga greiningarorðræðunnar þegar enn voru til óþekkir krakkar) sem að lokum verður stór í viðskiptalífinu en að lokum hrynur spilaborgin. Fyrir utan sjálfan Volmer eru í öndvegi þrjú systkini sem minna ekki lítið á Lise og systkini hennar tvö, Gerdu og Kai. Foreldrarnir í bókinni (og raunar líka í Med mor bag rattet) eru hins vegar augljóslega Varnæs-hjónin úr Matador. Bestu verk Lise eru sem sagt eins konar „autofiction“ sem reynast oft ná betur utan um ævi mannsins en eiginlegar ævisögur – þær skrifaði Lise síðar og voru ekki nándar nærri jafn eftirminnilegar því að með skáldskapnum öðlast höfundarnir nauðsynlegt frelsi. Hið sama á reyndar við um „autofiction“ bækur Nancy Mitford sem ég fékk líka nýlega tilefni til að ræða innan skamms á þessari síðu.
Ég hugsa að ég eigi eftir að fara enn betur í þetta „autofiction“ þema innan skamms því að ég er höfundur sjálfur og hef kynnst vandanum sem sprettur upp við að deila reynslu sinni annars vegar sem skáldskap og hins vegar sem „sannleik“. Þetta hefur vakið enn meiri forvitni mína af því að nýlega hef ég einmitt hitt fólk sem vill bara lesa „sannar sögur“ og vill vita hvað gerðist og hvað ekki. Ég get skilið þetta fólk því að þessi ósk er líka til í sjálfum mér og léleg „autofiction“ kallar hana fram (kannski skrifa ég líka grein fljótlega um dæmi þess að skáldaða gerðin sé mun síðri en heimildasagan). Á hinn bóginn held ég að skáldskapur nái iðulega að miðla tilfinningasannleik betur en höfundur ræður við þegar hann þarf að halda sig við heimildir. Kannski kemur síðar í ljós hvort reynist mér sjálfum betur — en aftur að Lise Nørgaard sem var menningarhetja í Danmörku bæði fyrir og eftir Matador, iðulega kölluð „rappenskralde“ sem er eitt af þessum dásamlegu orðum í því fagra tungumáli sem gleður í hvert sinn sem það heyrist. Lise var sem sagt ekki blíð og góð og það veitti henni styrk sem höfund að langa alls ekkert til þess og kannski ekki síst vegna þess að hún ólst upp á þeim tíma sem stelpum var kennt að vera blíðar og góðar og þær þurftu síðan að frelsa sig undan þeirri áþján.
Eins og ég hef áður skrifað um („Grantham lávarður er mikið krútt,“ Smugan 4. mars 2013) einkennist Matador ekki af krúttleika og nostalgíu og þar er ekki borin á borð lygi um fortíðina eins og t.d. í Downton Abbey. Þvert á móti er samfélagsrýni Lise Nørgaard iðulega flugbeitt og hárnákvæm (fyrir utan atriðin úr seinna heimsstyrjöldinni þar sem andspyrnuhreyfingin í Korsbæk er — fjarri því sem dæmigert var — leidd af félögum í Radikale venstre sem Lise studdi sjálf) og hún hikar ekki við að fara illa með persónur sínar, án þess þó að fyrirlíta þær heldur er auðvelt að setja sig í spor hvers og eins. Sérstaklega þykir manni vænt um Maude Varnæs og Elisabeth Friis sem sækja greinilega margt til móður og móðursystur Lise sjálfrar en hið sama gildir um allar persónur sögunnar, jafnvel mógulinn Mads Skjern sem hinn notalegi Jørgen Buckhøj leikur. Í fyrstu virðist hann vera hetja þáttarins en að lokum verður hann hálfgert skrímsli. Að lokum gerir eiginkonan uppreisn gegn honum og breytir öllu – eða hvað? Lise er allt of grimm til að afhenda áhorfendum slíkar gervilausnir og við sitjum eftir með óvissuna um hvernig fer fyrir þeim öllum.
Um persónur Matador mætti skrifa marga pistla (og kannski verða þeir skrifaðir ef þessi síða lifir áfram) en eins og allir sem þekkja bókmenntir og listir vita getur verið fátt um bitastæðar eldri konur í listaverkum. Matador hefur hins vegar hina kúguðu Misse Møhge sem svo auðveldlega hefði getað orðið skrípamynd í meðferð einhvers annars, en Lise Nørgaard og leikkonunni Karin Nellemose tekst í sameiningu að hefja hana upp fyrir það og meðal áleitnustu atriða í þáttunum eru þegar Maude Varnæs sem annars hefur þróast mikið í þáttunum (danska sjónvarpið flutti daginn eftir andlát Lise þáttinn þar sem hún tekur hvað stærsta stökkið) þarf að hlusta á gömlu konuna játa á sig morð. Að minnsta kosti þessum áhorfanda leið alveg eins og henni á þeirri stundu.