Á tæpasta vaði
Hinn íslenski titill bandarísku kvikmyndarinnar Die Hard hefur ekki fest við hana og ég sá myndina ekki í bíó á sínum tíma því að þá var ég snobbað ungmenni. Fór hins vegar að sjá framhaldsmyndina sem sannfærði mig ekki um mikilvægi þess að sjá þá fyrri. Þar hafði ég rangt fyrir mér – öllum er hollt að viðurkenna mistök – því að Die Hard er raunar ein besta spennumynd sögunnar og verðskuldar ekki þær ömurlegu framhaldsmyndir sem fylgdu. Rétt er að geta þess áður en hávær mótmæli skella á að þriðja myndin í flokknum er alls ekki slæm en á hinn bóginn mun ótrúverðugri en fyrsta myndin og það besta við hana er hrein endurtekning frá fyrstu myndinni. Já, það er frábær leikari í myndinni en það dugar ekki til. Ég mun skýra í þessari grein hvað er svona gott við Die Hard sem vantar í framhaldsmyndirnar. Það fyrsta er vitaskuld að persónan John McClane er ekki hetja í upphafi myndarinnar heldur er hann þvingaður í það hlutverk vegna aðstæðna. Eins finnur hann þar upp á línunni „Yippee Ki Yay, motherfucker“ sem hnitmiðað svar við háðsglósum en línan er heldur þreyttari í hinum myndunum (þó að ég sé aðdáandi ‘Allo ‘allo og endurtekins húmors þannig séð).
Það sem þó fyrst og fremst gerir fyrstu myndina mun betri en hinar er þessi persóna sem hér sést, lögreglumaðurinn Al Powell sem er ekki minni hetja en McClane, þó að frásagnarfræðilega sé hann í gervi hjálparmanns. McClane byrjar myndina vissulega sem venjulegur náungi en er fljótlega hættur að vera það. Al Powell er hins vegar sá sem áhorfandi á auðvelt með að tengjast, bæði vegna vaxtarlagsins, þreytunnar og því hve frábitinn hann er ofbeldi. Rétt eins og Al Powell verður að tengingu McClane við umheiminn þegar hann hefur valsað þreytulega inn og út úr byggingunni og fær skyndilega hrapandi lík ofan á bílinn sinn heldur hann áfram að vera þessi mikilvæga tenging, líkt og sjálfur áhorfandinn hefur hann samúð með McClane, öfugt við lögreglustjórann sem er hinn hefðbundni vondi kerfiskarl og leikinn af Mr Vernon úr The Breakfast Club til að undirstrika það. Án Al Powell væri Die Hard sennilega jafn kjánaleg og flestar bandarískar hasarmyndir en hann er mjög vel nýttur í myndinni og eiginlegt hjarta hennar.
Die Hard er líklega sú kvikmynd sem gerði Alan Rickman jafn heittelskaðan af öllum heiminum og hann var löngu áður á mínu heimili eftir að hann lék hinn slímuga klerk Obadiah Slope í Barchester Towers (allir sannir Alan Rickman aðdáendur VERÐA að sjá þá þætti). Persónan Hans Gruber er þannig séð einföld, hann er spakvitur og kænn náungi sem vill peninga og það er í sjálfu sér ekkert flókið við það. Hins vegar leikur hann hryðjuverkamann til að koma andstæðingunum úr jafnvægi og fá þá til að efast um sjálfsbjörgunarviðleitni hans sem er alltaf snjall leikur. Á myndinni að ofan er hann ásamt Theo sem hinn nýlega andaði Clarence Gilyard leikur. Flestir fylgismenn Grubers eru sóttir beint í nasistafóbíu Hollywoodmynda en Theo er af öðru sauðahúsi og hann er eini (hugsanlega einn af tveimur) vondi gaurinn sem lifir af myndina.
Annars er Die Hard ekki jafn blóðug og framhaldsmyndirnar (jú, númer 3 er líka skárri en hinar að þessu leyti), Bruce Willis er ekki laminn til óbóta alveg jafn oft og mig minnir að hann stökkvi aðeins einu sinni gegnum glugga þannig að myndin dansar vissulega á línunni hvað varðar „willing suspension of disbelief“ en hún sleppur, aðallega vegna þess að drjúgur hluti hennar fer í feluleik og hnyttin tilsvör fremur en bardagaatriði (sem vissulega eru líka ófá). Handritið leyfir líka persónuna Argyle (hér að ofan) sem hefur ekkert sérstaklega mikilvægt hlutverk í myndinni annað en að gera hana aðeins skemmtilegri. Núna er ekki rætt um annað í Hollywood en ‘representation“ (sannarlega að gefnu tilefni en stundum til leiðinda) en höfundum Die Hard tókst að koma þessum þremur góðu, gjörólíku og óklisjukenndum persónum Argyle, Theo og Powell inn í myndina án þess að segja neitt og myndin væri sannarlega mun ómerkilegri án þeirra.