Mannætugrísir Scarry

Líklega hugsa fæstir um Fyrstu orðabókina mína eftir Richard Scarry sem hryllingsbók uns það rennur upp fyrir þeim að svínin í bókinni borða beikon. Það mætti ræða lengi um antrópómorfísk dýr í barnabókum, s.s. mýs sem halda hunda sem gæludýr, sem fulltrúa mannkynsins eins og ég benti reyndar á í greininni „Mikki mús er ekki mús“ (2013). Undir þá skilgreiningu falla vitaskuld „dýrin“ hjá Richard Scarry og þetta skilja hinir bernsku lesendur mætavel. Jafnvel smæstu börn sem bækurnar eru ætlaðar vita betur en að halda að það sé góð hugmynd að fara í læknisheimsókn til ljóns þannig að auðvitað velta þau ekki hinum hroðalegu beikonétandi svínum neitt frekar fyrir sér. Vonandi dettur ekki heldur einhverjum kennaranum eða bókaverðinum í hug (maður veit aldrei) að slaufa Richard Scarry út af þessu því að bækurnar eru líflegar og frábærar eins og við vissum strax um miðjan 8. áratuginn sem kynntumst þeim þá. Meðal annars þess vegna eru þær enn vinsælar hjá sínum markhópi.

En hvað er svona gott við Richard Scarry? Fyrir okkur sem ólust upp á 8. áratugnum og höfum samanburðinn er auðvelt að sjá það enda var á þeim tíma mikið framboð af ströngu, boðandi og frekar dauflegu barnaefni. Á móti er skemmtilegur níhilismi í verkum Scarry sem þó eru gott dæmi um markvissa félagsmótun því að megináherslan í sögunum er á hvernig allir í samfélaginu eru sívinnandi og gera sitt gagn fyrir heildina. Bækurnar eru líka fullir þátttakendur í efnishyggju eftirstríðsáranna því að mikið er gert úr hlutum og mat. Sem alkunna er snýst ein þeirra alfarið um bíla – og að finna gullsmiðinn eins og allir foreldrar vita sem hafa gætt þess vandlega að leyfa 3-4 ára barni að finna hann stundum fyrst.

Í þeirri bók birtust m.a. flutningamennirnir Varkár, Mjúkhentur og Aðgætinn og hún er því gott dæmi um að íslenskar þýðingar (ekki síst á 8. áratugnum) geta verið betri en frumtextinn, þeir heita á frummálinu Tender, Loving og Care sem er að vísu örlítið hnyttið en ekki nándar nærri jafn skemmtilegt og íslensku nöfnin. Glundroði í þýðingum bóka Scarrys gat raunar verið vandamál fyrir íslenskan lesendahóp sagnanna. Þegar við vorum búin að kynnast Ormari einfætta var flókið að þurfa að lesa um hann undir öðrum nöfnum. Eins minnir mig að hetja mín Lási lögga hafi hlotið nýtt nafn í sumum bókum – en löggan var raunar kvenkyns í Bílum, flugvélum og öllum heimsins furðulegustu farartækjum og tók Scarry þannig þátt í að boða þá byltingarkenndu hugmynd 8. áratugarins – ásamt Hreiðari Stefánssyni – að það væru engin karla- og kvennastörf til.

Auðvitað eru bækurnar afsprengi síns tíma og örugglega börnum hollt að kynnast líka vegansvínum á ungum aldri en það skaðar þau eflaust ekki heldur að kynnast aðeins samfélaginu sem ég ólst upp við þar sem enn voru til kjötkaupmenn (meðal annars gyltan sem selur beikon) og farsímar þekkjast ekki. Þess vegna finnst a.m.k. mér ánægjulegt að sjá að þessi höfundur einna minna elstu bókmenntaminninga (hann er fæddur 1919 og dó 1994 og var raunar bandarískur en ekki breskur eins og ég hef alltaf haldið!) hittir enn í mark hjá krökkum, og gerir þau sem betur fer samt ekki að mannætum.

Previous
Previous

Fölir skúrkar og fasismi

Next
Next

Á tæpasta vaði