Fölir skúrkar og fasismi

Philip Kerr (1956–2018) er einn af þessum höfundum sem ég hef heyrt um en (að ég hélt) aldrei lesið þannig að ég var glaður að fá eina bók hans í jólagjöf, Föli skúrkurinn sem er önnur bók í svokölluðum Berlin Noir þríleik. Mér líkaði bókin vel meðan ég las en er gagnrýnni á hana eftir, aðallega vegna þess að hún er full af karlrembu og hómófóbíu sem ég er ekki 100% viss um að sé aðeins úr tíðarandanum en bækurnar gerast í Þýskalandi á valdatíma nasista og aðalsöguhetjan Bernie Gunther. Kannski líka vegna þess að Kerr er frekar hóflaus í lýsingum sínum og hleður í bókina frekar öfgakenndum myndlíkingum og kaldhæðni, svolítið eins og maður sem notar sleggju til að festa nagla á vegg.

Bókin var þó góð í að „halda mér“ og ég lauk við allar 400 blaðsíðurnar eða hvað hún var. Ég hef áður reynt að lesa Kerr og gefast upp en síðan uppgötvaði ég um daginn að Philip Kerr skrifar líka barnabækur undir nafninu P. B. Kerr og ég hef lesið eina af þeim. Hann er greinilega dugnaðarmaður, hóf feril sinn árið 1989 og á 30 árum náði hann að skrifa 42 bækur: spennusagnaflokkinn um Gunther, aðrar skáldsögur fyrir fullorðna, barnabækur og jafnvel handbækur eins og The Penguin Book of Lies sem mig minnir að ég hafi líka lesið. Augljóslega er hann ritfær maður en ég veit samt ekki hvort ég mun lesa meira af honum. Þó að ég sé ekki einn þeirra sem geri kröfu til að allir höfundar séu sammála mér — aðallega vegna þess að ég lærði snemma að nánast enginn er sammála mér og ég sé yfirleitt hlutina öfugt við alla aðra — er eitthvað truflandi við hvernig hann skrifar.

Kannski er hann of karlkyns. Persónulega líkar mér best við höfunda sem skrifa þannig að kyn höfundar skiptir ekki öllu máli — fátt mislíkar mér meira en að vera kallaður karlkynshöfundur þó að ég sitji uppi með mitt líffræðilega kyn — en þegar kemur að þeim sem eru augljóslega annars kynsins kann ég betur við kvenkynshöfunda. Auðvitað er löng hefð og einkum í spennusögum fyrir þessum „harðsoðnu bókum“ sem karlar hæla gjarnan mikið og finnst meira alvöru en aðrar. Það varð James Bond til bjargar að vera snemma yfirtekinn af kvikmyndafólki sem skildi að hann er grín og fór dásamlega með hann þannig áratugum saman. Seinustu ár hefur meira verið reynt að kreista alvöru úr Bond og ég get ekki sagt að mér finnist það góð hugmynd.

Niðurstaðan með Kerr er kannski sú að ég viðurkenni hann með semingi sem bókmenntir, öfugt við von Arnim sem ég las um daginn og viðurkenni með gleði á sama hátt. Margar spennusögur eru ekki einu sinni það þannig að ég get mælt með Kerr fyrir fólk sem hefur gaman af sleggjuhúmor og óírónískri karlmennsku. Er til í að endurmeta þetta við frekari lestur.

Previous
Previous

Agötuaðlaganir jólanna 2022

Next
Next

Mannætugrísir Scarry