Lestrarjól
Mér fyndist auðmýkjandi fyrir margra hluta sakir að telja bækurnar sem ég las í fyrra og sérstaklega þær íslensku frá seinustu hálfu öld þar sem ég les mest lítið og fyrir utan bækur sem mér fannst léttvægar hef ég eflaust rætt þær flestar hér á síðunni sem er ágæt heimild um mína menningarneyslu þessi misserin. Á jólunum tókst mér þó að bjarga sjálfsvirðingunni smávegis með því að lesa fimm bækur á sex dögum og alls um 4000 blaðsíður á jóladögunum þrettán og sýna þar með að enn sé líf í ryðkláfnum. Þar var ég studdur af mínum nánustu sem gáfu mér ekki páfugl í perutré í jólagjöf heldur bækur sem mig langaði til að lesa. Hvers vegna langar mann til að lesa tilteknar bækur? Ein ástæða er að þær fjalla um heillandi efni en önnur að maður þekkir höfundinn. Það gilti t.d. um Lev Grossman (f. 1969) sem ég átti fyrir þrjár fantasíubækur eftir. Þegar ég rakst á bók eftir hann í Bóksölu stúdenta sem fjallaði um riddara Artúrs konungs vissi ég að það væri viðráðanlegt að lesa bókina frá upphafi til enda og Grossman myndi sennilega hafa eitthvað að segja mér sem höfðaði til mín. Efnið hjálpaði líka til og bókin The Bright Sword (2024) var enda lesin á nokkrum dögum en mun hafa verið áratug í smíðum. Grossman mun hafa lært bókmenntir í Harvard og kemur úr listamannafjölskyldu frá Nýja-Englandi. Hann mun hafa verið alinn upp í trúleysi þó að nafnið geri að verkum að honum er stöðugt boðið á bókmenntahátíðir gyðinga.
Ég get ekki alveg lýst því hvað gerir að verkum að texti Grossman höfðar til mín. Líklega er það vegna þess að persónur í sögum hans eru alvöru fólk sem mann langar til að kynnast og það á sannarlega við um unga riddarann Collum sem er alinn upp við kröpp kjör og hefur endurskapað sig með lygina að vopni en einnig hina reyndu Artúrsriddara sem hann hittir á leið sinni um ríki Artúrs (Grossman hatar greinilega Lancelot næstum jafn mikið og Bernard Cornwell; hvað er það með vatnariddarann sem pirrar skapandi 21. aldar menn svona mikið?). Ríkið er í lægð eftir fall konungs og brotthvarf til Avalon og í sögunni er glímt við goðsagnirnar um Artúr, áhrifin sem þær hafa á fólk og hina ólíku sýn sem hægt er að hafa á þennan merka konung. Bók Grossmans er full af útúrdúrum og fléttum eins og sjálfar Artúrssögur miðalda. Þar eru álfar og risar og alls konar galdur. Artúr er nánast eins og sjálfur Kristur í þessari sögu, horfin persóna sem gnæfir yfir þá sem áður þjónuðu honum. En er hægt að finna verðugan arftaka? Þetta er spurning sem margir karismatískir leiðtogar hafa skilið eftir sig þegar þeir hverfa af vettvangi því að jafnvel í nútímanum geta sterkar manneskjur skipt meira máli en stofnanir og málstaðir eins og dæmin sanna.
Bók Grossmans er næstum 700 síður en vinninginn átti samt Anthony Horowitz (f. 1955) sem ég las nærfellt 2000 síður þessi tilteknu jól, alls fimm bækur þar sem hann sjálfur er persóna og glímir við flókin sakamál ásamt sérvitra lögreglumanninum Hawthorne. Ég las fyrstu bókina fyrir nokkru en bætti þremur við jóladagana þrjá og hef lesið tvær í viðbót síðan með hjálp regnskógasíðunnar því að mig langar að vita meira um þá tvo og mín reynsla er að Horowitz skrifar bækur sem maður er tilbúinn að lesa aftur og þar með eiga. Bækurnar í þessari ritröð finnst mér misgóðar (sú þriðja einna síst) en eins og ég hef áður sagt hefur Horowitz gáfu til skrifta, er gegnsósa í menningu og vísunum, hefur unun að orðunum og kann að gera mann forvitinn um persónurnar sem fjarri því öllum rithöfundum er lagið. Hann er aðdáandi Conans Doyle og hefur samið sögur um Sherlock Holmes sem ég mun líka hafa lesið. Bestur er Horowitz þó þegar hann gerist fullkomlega póstmódernískur og leikur sér með formið. Þar fyrir utan er viðkvæm og flókin samfélagsstaða höfundarins honum hugleikin. Horowitz hittir sjaldan í sögunum fólk sem hefur lesið bækur hans en marga sem hafa yndi af því að lýsa yfir að þeir hafi engan áhuga á þeim. Bækurnar eru þannig góð en vissulega afar kaldhæðnisleg heimild um viðhorf nútímans til bókmennta og það er umtalsverður broddur í gríninu.
Ég var nokkra daga með Grossman, tæpan sólarhring með hverja bók Horowitz en aðeins 90 mínútur fóru í að lesa nýþýdda bók eftir Jógvan Ísaksen (f. 1950) sem ég hef góðar minningar um frá dvöl minni á Árnastofnun í Kaupmannahöfn haustið 1998. Jógvan var þá færeyskur lektor við stofnunina og kom raunar ekki oft í vinnuna því að hann hefur jafnan verið afar önnum kafinn, hefur og að jafnaði mörg járn í eldinum og er sannur endurreisnarmaður. Bókin sem ég las, Adventus Domini, er hressileg en ekki beinlínis við mitt skap því að þar koma kristnar riddarareglur og fornir skattar við sögu líkt og í bókum Dan Brown og aðalpersónan stútar allmörgum andstæðingum í bókinni svolítið í stíl Jacks Reachers. Ekki alveg minn tebolli en Færeyjablæti mitt þó nægt til að ég las bókina alla í einum rykk og er aðeins betur heima í færeyskum bókmenntum en áður. Ég hafði auðvitað áður séð Trom og lesið aðra bók eftir Jógvan á íslensku en næst þarf ég að reyna að lesa þennan ágæta á frummálinu.
Þetta urðu alls um 4000 blaðsíður þessa ágætu þrettán jóladaga 2024-2025 (þar af átti Horowitz um 1900 en Hollinghurst líka slatta) og það var mér nauðsynlegt til að sannfæra mig um að ég væri ekki alveg hættur að geta lesið. Bækurnar voru flestar góðar og sumar skemmtilegar sem hjálpaði mikið; um sumar hef ég hef þegar fjallað í sérstökum greinum en aðrar bíða átekta.