Nútímaleg miðaldrakrísa
Ira Sachs er lítt þekktur og sennilega vanmetinn leikstjóri sem hefur gert nokkrar mjög eftirminnilegar og sorglegar myndir, t.d. Little Men (2016) sem kom skemmtilega á óvart og fjallaði um árekstur fasteignaverðs og ástar (fasteignaverðið vann). Passages er ein af þessum sorglegu myndum; aðalpersóna hennar Tomas er leikstjóri, kannski 37 ára, sem hefur verið lengi í föstu sambandi en ákveður í hálfgerðu bríaríi að halda framhjá manni sínum með kennaranum Agathe. Tomas kann að tjá sig og telur sig mjög rökréttan en kannski er auðveldara að túlka hann sem narsissista sem eyðileggur líf allra vegna þess að hann skeytir aðeins um eigin hag.
Það er ekki létt að fylgjast með svona gölluðum manni en þýski leikarinn Franz Rogowski nær þrátt fyrir boxaraútlit sitt að gera hann á einhvern hátt sannfærandi og sjarmerandi þó að ekki héldi ég beinlínis með honum. Tomas er á sinn hátt einlægur og segir sannleikann, að vísu ekki fyrr en honum hentar. Hann ráðskast stöðugt með eiginmanninn Martin og ástkonuna Agathe sem bæði hafna honum að lokum og þá vorkennir maður honum þó að hann geti vitaskuld engum um kennt nema sjálfum sér. Maður veltir fyrir sér hvort Tomas sé að einhverju leyti sjálfsmynd listamannsins því að hegðun hans er vel þekkt hjá listamönnum, m.a. nokkrum sem ég hef þekkt.
Tomas ætlast til að vera fyrirgefið vegna þess að fólk á að elska hann jafn heitt og hann gerir sjálfur og líkt og aðrir narsissistar hefur hann sennilega oftast náð því fram en í lok myndarinnar eru hin bæði hætt að dansa eftir hans höfði og þá er Tomas vesæll og aumkunarverður, hefur náð árangri í listinni en klúðrað öllum sínum helstu samböndum með því að heimta stöðugt meira og meira af öðrum og meðhöndla kannski allan heiminn eins og verk sem hann eigi að leikstýra. Þetta er ekkert sérstaklega upplífgandi mynd og persónurnar ekki jafn sympatískar og í Little Men en þau koma samt öll fyrir eins og alvöru fólk en ekki klisjur og þess vegna nær maður að tengja jafnvel við mannfýluna. Ekki er ég Tomas en ég þekki hann og hef ákveðna samúð með honum í lokin.
Þess má geta að myndin varð illa fyrir barðinu á ritskoðun í Bandaríkjunum enda er í henni ein frekar opinská kynlífssena með Rogowski og hinum ágæta þvengmjóa og brothætta leikara Ben Whishaw (Q í nokkrum James Bond myndum) þar sem rassaríðingar koma við sögu. Sachs telur að þetta sýni að þrátt fyrir yfirlýsta víðsýni séu Bandaríkin enn land fordóma og myndin hefði ekki verið ritskoðuð ef þetta atriði hefði ekki verið með tveimur karlmönnum og er það eflaust rétt hjá honum. Það er oft ansi grunnt á þröngsýninni hjá Íslendingum líka þrátt fyrir góða mætingu í gleðigöngur.