Veggjakrot Væringja

Í september var ég í fjölmennustu borg Evrópu, Istanbul, og það er rétt hjá ykkur, helsti vandinn við að sækja heim þá góðu borg er að maður fær afar hvimleiðan smell kvartettsins Four Lads frá 1953 á heilann. They Might Be Giants gerðu hraðari gerð af þessum eyrnaormi um 1990. Nat Simon og Jimmy Kennedy munu hafa samið þetta lag fyrir kanadíska kvartettinn sem var áður frægastur fyrir að vera bakraddir fyrir veslings gamla Johnnie Ray (þennan sem Dexys Midnight Runners vísuðu í sínum kunnasta hittara). Annað er þó eftirminnilegra þegar maður hefur beinlínis verið þarna, t.d. næturlíf á þriðjudögum sem er á við það sem gerist um helgar í flestum öðrum borgum. Eins er sölutækni heimamanna afar ólík því sem gerist í okkar heimshluta nema helst hjá fornbókasölum og sem betur fer var ég rækilega undirbúinn af einum slíkum í flókinni glímu við tyrkneskan teppasala.

Fyrir utan yndislegt hótel sem er nú orðið frægt á Netflix og var áður þekkt af því að vera paðreimur Agöthu Christie, Ernest Hemingway, Gretu Garbo og fleiri stórmenna þá var hátindur ferðarinnar að sækja heim Ægisif sem nefnd er í Hauksbók og fleiri íslenskum miðaldaheimildum (t.d. Dámusta sögu) þar sem borgin heitir jafnan Mikligarður. Nýlega hefur kirkju þessari verið breytt í mosku og ferðamenn mega ekki sækja heim nema hluta hennar en það er sá hluti sem áhugaverðastur er, m.a. fyrir veggjakrot Væringja nokkurs er Hálfdan nefndist og leiddist greinilega einu sinni mikið í messu. Ég var í fylgd höfundar merkasta fræðiritsins sem skrifað hefur verið um Væringja þannig að óneitanlega var gaman að sjá ummerki Hálfdans greysins. Sjálfur skrifaði ég einu sinni árið 1979 á tréstól í baðherberginu heima í von um svipaða eilífð (eruð þið annars að vista þetta úrvalsefni, Landsbókasafn?) en það mun nú löngu máð af og ekki veit ég hvað varð af tréstólnum. En líkt og Hálfdan heitinn áttaði ég mig greinilega á miskunnarlausum framgangi tímans og langaði að skilja eftir mig einhver varanleg ummerki.

Fyrir utan Hálfdan má finna mörg stórmenni Miklagarðs á mynd í kirkjunni, m.a. sjálfan stofnanda borgarinnar Konstantín mikla og Jústíníanus en þeir voru norrænum mönnum líka vel kunnir á miðöldum. Sérstaklega gaman var að sjá Zóe hina ríku sem Haraldur harðráði heillaði um 1040 en féll síðan í ónáð meðal annars með grófum ummælum um „magaskegg“ (kynhár) hennar. Zóe og eiginmaður hennar Konstantínos Mónomakos eru hvort til sinnar hliðar Maríu meyjar sem heldur auðvitað á Jesúbarninu. En ekkert sem ég segi um Ægisif getur komist í námunda við þá sérstöku andakt sem maður fyllist þar andspænis sögunni og hinu stórkostlega Rómaveldi en eins Tyrkjaveldinu sem leysti það af hólmi við Bosporussund.

Ég er sjálfur orðinn býsna vanur sögustöðum og langar lítið sem ekkert sérstaklega að sjá fleiri lönd eða borgir. Tilfinninguna sem greip mig í Ægisif finn ég sjaldan. Kannski skiptir hér máli að ég vann í æsku við að gefa út hið mikla sagnarit Morkinskinnu en þessa dagana er elsta handrit þess, GKS 1009 fol., í heimsókn á Íslandi en þar birtast Zóe hin ríka og tveir síðari eiginmenn hennar. Forsaga hennar er ekki sögð í íslenskum heimildum en Zóe var sjálf keisaradóttir en hóf ýmsa menn upp sem keisara ásamt sér þegar hún varð leið á fyrri mönnum sínum. Hugsanlega er hún fyrirmynd Gunnhildar konungamóður eins og henni er lýst í Njálu. Í öllu falli var hún kona sem lét sér fátt fyrir brjósti brenna. Konur fá annars ekki lengur að koma í Ægisif nema huldar skikkjum.

Previous
Previous

Nútímaleg miðaldrakrísa

Next
Next

Lesley Manville leysir málið