Lesley Manville leysir málið
Ég verð æ meiri aðdáandi hins enska Anthony Horowitz sem er hálfgert allragagn í heimi sakamála- og spennusagna, skrifar sjónvarpsþáttahandrit ekki síður en bækur og er kannski frægastur fyrir ungmennabækur sínar um Alex Rider (en ég veit ekkert um þær); líkt og P.G. Wodehouse og Agatha Christie hefur Horowitz gáfuna og hefur sennilega meiri tilhöfðun til góðra lesenda en ýmsir uppblásnir „fagurbókmenntahöfundar“ og eilífðaráskrifendur listamannalauna hérlendis. Þau rit Horowitz sem ég er í bestu sambandi við er ritröðin sem fjallar um forlagsritstjórann Susan Ryeland, látna rithöfundinn Alan Conway og sögupersónu hans Atticus Pünd sem er aðfluttur snillingur, ekki með öllu óskyldur Hercule Poirot. Tvær bækur eru í ritröðinni, Magpie Murders og Moonflower Murders, en von á þeirri þriðju sem æntanlega hefst á M líka. Báðar eru tvískiptar; hálf bók er skáldsaga um Atticus eftir Conway (en auðvitað eftir Horowitz líka) en ramminn er frá sjónarhorni Susan og gerist í nútímanum. Ég hef lesið báðar tvisvar og mundi í báðum tilvikum rammasöguna vel í seinna skiptið og fannst hún enda áhugaverð en náði minna sambandi við Conway-söguna og Atticus. Viðurkenni samt að hugmyndin að birta í sögu heila gervisögu eftir eigin sögupersónu er skemmtileg (eða „hnýsileg“ eins og allir sögðu snemma á 10. áratugnum en virðist horfið núna) og gerir sitt gagn fyrir rammasöguna.
Nú hafa verið gerðir sjónvarpsþættir eftir báðum sögum sem Horowitz skrifar sjálfur og hefur lánast vel enda er í aðalhlutverki hin frábæra leikkona Lesley Manville sem lyftir öllu sem hún er með í og þótt hún sé ekkert lík þeirri Susan sem ég hafði gert mér í hugarlund hefur hún samt gert hana að sinni. Fáar greinar mínar á þessum miðli hafa náð viðlíka vinsældum og sú um sjónvarpsþættina Happy Valley (Forsæludal?) sem lesendur mínir (sem eru greindarfólk) höfðu augljóslega hrifist af ekkert síður en ég, en þó að þættirnir um Susan séu algerlega á hinum ás ensku glæpaþáttahefðarinnar má greina í þeim sama alvarlega en lipra listfengið fyrir utan þétta miðjuna sem hin sterka kvenpersóna myndar, líkt og í bókinni. Auk þess eru aðrar persónur líka trúverðugar og áhugaverðar, ekki síst hinn bældi Conway og sambýlismaður hans James sem áður seldi sig en líka þeir grunuðu í málinu og jafnvel persónur í sögum Conway sjálfs sem eru þó öllu einvíðari.
Moonflower Murders sem sænska sjónvarpið sýndi á haustdögum nýtur þess að snúast um hótel þannig að eiginlega er hálfgert frí að horfa (og lesa) og einnig er söguþráðurinn í Brúðkaupi Fígarós nýttur á haganlegan hátt. Í báðum sögum ritraðarinnar veitir saga Conways um Atticus Pünd allmargar vísbendingar um hinn glæpinn sem ég missi raunar alltaf af en í Moonflower Murders gerir áhugi einnar persónu á stjörnuspeki það að verkum að hún gerir það ekki sem verður henni síðan að aldurtila. Fyrir utan stórgott hringekjukynningarstefið er Moonflower Murders mjög trú hinni mun lengri og flóknari skáldsögu, eðlilega því að Horowitz gerir handritið sjálfur. Allar einfaldanir á fléttu og persónum eru því tryggar sögunni og auk heldur skilur Horowitz sjónvarpsformið fjarska vel enda þrautreyndur að skrifa fyrir sjónvarp (skrifaði m.a. nokkra bestu Poirot-þættina fyrir Suchet og eitthvað af Barnaby líka) og veit að slík aðlögun þarf að sýna það helsta en aldrei allt. Eðlilega sker hann Pündsöguna mun meira en Susansöguna en þó ekkert til skaða.
Ég verð að þessu sinni að játa á mig nokkra samúð með morðingjanum sem er samt samviskulaus og veiklunduð hóra og jafnvel fyrsta fórnarlambinu sem er þó drottnunarsinnaður sadisti — kannski líka morðingjunum í Pünd-sögunni en hún er samt of gervileg til að höfða til tilfinninganna. Ég hygg að sú samúð sé raunar sótt í mannskilning Horowitz sjálfs sem líkt og Agatha sjálf skilur vel að manneskjan er fjarska ófullkomin og siðferðislegt oflæti á ekki við. Djörf skilaboð á öld hins siðferðislega oflætis en hugsanlega það sem gerir Horowitz höfði hærri ýmsum verðlaunahöfundi þótt hann sé augljós og viðurkenndur dreifhuga afþreyingarhöfundur.