Streymisveitan Emily

Um daginn hvarflaði að mér að Emily Dickinson (1830-1886) hefði verið streymisveita síns tíma en ég man ekki lengur rökin sem þar lágu á bak við og skil ekki einu sinni hvað ég var að hugsa en tími samt ekki að fórna titlinum; ef til vill tengdist þetta því hvernig hún vann ljóð sín aftur og aftur í nótissubækur sínar miklar að vöxtum. Þessi sérkennilega skáldkona var víst aldrei við karlmann kennd, vildi heldur skrifast á við fólk en hitta það og bjó mestalla ævina í bernskuheimili sínu í Amherst í Massachusetts. Ljóðin samdi hún flestöll á unga aldri og skrifaði síðan upp í bækur og endursamdi en lét að mestu af skáldskap um 35 ára aldur, þá orðin verulega skrítin, gekk víst alltaf um í hvítu (eina myndin sem til er af henni er tekin löngu fyrir þann tíma) og yfirgaf varla herbergi sitt. Kannski var hún samt ekkert skrítin í raun; persónulega finnst mér svokallað skrítið fólk iðulega eðlilegra en þið hin; ég tala nú ekki um það brenglaða fólk sem útvarpssöguvæddir fjölmiðlar Íslands eru greinilega allir sem einn að reyna að höfða til. Emily var gersamlega óþekkt sem skáld meðan hún lifði en systir hennar Lavinia fann ljóðin að henni látinni og þau komu fyrst út árið 1890 en sum raunar ekki fyrr en árið 1955 í sex binda heildarútgáfu Johnsons sem þykir mikið afreksverk.

Annars þykist ég ekki vita mikið um Emily enn sem komið er; ég er rétt byrjaður á henni að annarra uppástungu og hún er fjölbreytt skáld, afar djúp og margt á huldu um líf hennar og merkingu ljóðanna. Flest ljóð hennar eru kennd við upphafslínuna eða númeruð og eitt þeirra er „He fumbles at your spirit“ sem er alls ekki flókið á yfirborðinu, Dickinson hefur sérstakt vald á stuttum orðum og einföldum setningum, en þegar betur er gáð er líkingamálið bæði fjölbreytt og agað og einkennilega áhrifamikið og þannig reynist það iðulega vera með ljóð þessarar mögnuðu skáldkonu sem Magnús Sigurðsson hefur verið manna iðnastur að færa þjóðinni. Emily er þar að lýsa eins konar illskilgreinanlegum beyg sem hefur gripið hana en hún reynir að tempra með orðum. Við vitum ekki nákvæmlega hverju hún lýsir (margir hafa giskað á hinn kristna föðurlega Guð en það er túlkun sem lokar ljóðinu fremur að opna það) og kannski borgar sig ekki að reyna að skilja það alveg en a.m.k. ég þykist finna fyrir hugarástandinu. Dickinson rímar iðulega en alltaf átakalaust og skeytir ekki endilega um hvort rímið sé nákvæmt. Líklega nær hún meiri áhrifum með þessu.

Eitt furðulegasta ljóð Emily fjallar um málverk („I would not paint — a picture“) og þar deilir hún eins og sjá má út þankastrikum af miklum móð án þess að þeirra sé alltaf beinlínis þörf en með því breytir ljóðið um merkingu; eiginlega hef ég aldrei vitað ljóðskáld nýta þankastrikin af meiri áfergju og hind en Emily gerir enda segja sumir (en eru kannski að ýkja) að hún hafi nánast fundið upp þankastrikið í skáldskap. Stundum virðist kvæðið ófullgert þess vegna en ég held ekki; Emily var býsna vandvirk og nákvæm. Í ljóðinu lýsir hún stöðu listamannsins á ýmsum sviðum: málaralist, tónlist og rithöfundi, og virðist hafna þeim öllum, er kannski að fjalla um stöðu listunnandans andspænis listamanninum. Í öðru erindinu virðist hún tryllast í myndlíkingum og dregur inn bryggjur, járn, þorp, málma og blöðrur en hin tvö eru aðeins þægilegri. Þó er Dickinson aldrei einföld, t.d. notar hún lýsingarorðið „sumptuous“ við nafnorðið „despair“, tvö orð sem virðast heyra illa saman, og eykur svo við þankastriki sem erfitt er að skilja hvað við eigum að gera við en kannski klýfur hún þessi illa samræmanlegu orð í sundur af ásettu ráði. En þessa merku skáldkonu vantar sem sagt sannarlega ekki stílvopnin í vopnabúrinu. Ljóðinu lýkur á orðunum „Bolts of Melody“ og þar er hún að lýsa skáldskapnum.

Þriðja ljóðið sem ég hef bisað við að skilja er ekki jafn kaotískt á yfirborðinu og virðist lýsa bleiku blómi sem verður Emily tákn núsins (andspænis fornöldinni sem hún dissar í lokalínunni). Það sem vekur athygli við ljóðið er enn og aftur hversu vel skáldkonan orðar þetta allt þótt átakalaust sé í þetta sinn. Hún kallar blómið „bold little beauty“ og segir að það sé „covert in April“ en „candid in May“; allt sjálfsagt og næstum eins og lýsing úr náttúrufræðibók en maður hlýtur að undrast hversu vel er hægt að orða hlutina. Eins er með lokaerindið þar sem hún rímar óvænt „thee“ og „antiquity“ og allt erindið er eins og hlálega einföld staðhæfing um að tilvera blómsins sé til vitnis um endurnýjun náttúrunnar en ótrúlega fallega orðað og lipurt og virkjar lesandann í hugsun. Þessa náðargáfu einfeldninnar hafa aðeins bestu skáld, stundum Jónas og Emily iðulega.

Það verður eflaust fleira skrifað um Emily á þessari síðu síðar í vetur, það hefur glatt mig mjög að kynnast henni lauslega en við það lýkst upp fyrir manni að fleira leynist í kafi. Mér skilst að það hafi nýlega verið gerður sjónvarpsþáttur um skáldið, svokölluð „períóða“, með Hailee Steinfeld sem er ágæt leikkona en ég hika þó mjög við að horfa á hann; óttast að hann muni snúast alfarið um þykkrakjólablæti fremur en ljóðlist. Mér virðist í fljótu bragði að Emily Dickinson þurfi líklega ekki á hjálp Netflix að halda og betra að fara í ljóðin sjálf.

Mig langaði að lokum að bæta við þessari smellnu af Thomas Johnson (1902-1985), bókmenntaprófessor og útgefanda Emily, að lesa ritdóm í blaði á góðri stundu.

Previous
Previous

Lesley Manville leysir málið

Next
Next

Fégirnibaugar