Tvíburasögur
Þar sem ég fékk mér Amazon Prime um daginn hef ég verið að leita þar að góðu efni. Eins og venjulega finn ég allt of mikið, ég verð líklega aldrei í þeirri stöðu að það sé ekkert áhugavert að sjá á streymisveitu — hef því sett fram þá einkakenningu að það sé einkum leiðinlegt fólk sem aldrei finnur neitt áhugavert að horfa á en líklega er best að segja það ekki upphátt. Á Prime datt ég í lukkupottinn með því að finna þar ítalska ungmennaþáttinn Prisma en Ítalíublæti mitt hefur síst minnkað eftir að ég beinlínis steig fæti á ítalska grund. Það sem enn betra var að þátturinn fjallaði um tvíbura sem er ekki beinlínis blæti hjá mér en þó er ég ekki laus við áhuga á því hvernig tvíburar birtast í nútímamenningunni.
Tvíburarnir eru leiknir af sama leikara og gæti ég kallað það menningarnám en er að hugsa um að vera eini maðurinn í heiminum sem er ekki leiðinlega upptekinn af slíku. Vegna þess að hann er ekki beinlínis tvíburi heldur sami maður eru tvíburarnir með ólíka hárgreiðslu, þeir hreyfa sig ólíkt og hafa vitaskuld gerólíka skapgerð. Alvöru tvíburar nenna ekki alltaf að klæða sig ólíkt bara til að þekkjast í sundur en ég tek viljann fyrir verkið. Eins og ævinlega í sögum er mikil táknræna í tvíburunum, öfugt við raunveruleikann þar sem sumir tvíburar eru með öllu lausir við táknrænt gildi. Annar tvíburinn er greinilega í betra sambandi við kvenmanninn í sér en hinn og kaupir sér reglulega kjóla en er þó mun frakkari og hefur orð fyrir þeim á meðan hinn er lokaður og feiminn.
Feimni tvíburinn æfir sund og etur þar kappi við töffara einn og rappara sem er leikinn af Lorenzo Zurzolo (að ofan) sem er greinilega á góðri leið með að verða Ingvar E. Ítalíu og fátt ítalskt efni á Netflix án hans. En ófeimni tvíburinn hefur sett upp Instagramreikning og þykist vera stelpa og er í því gervi í fjarástarsambandi við þennan sama töffara. Ítalir eru greinilega að vinna með kynið og kynferðið þessa dagana og eru auk heldur mjög hugsi yfir samfélagsmiðlatilverunni. Kjólatvibbinn slítur sambandinu vegna samviskubits en í lokin hittast þeir fjarelskendurnir í strætó og tvibbinn gefur töffaranum merki um að hann sé „kærastan“. Við fáum hins vegar ekki að vita hvernig fer því að syrpunni lýkur á þessum svipbrigðum fyrir neðan og ég er fastur á Amazon Prime því að ekki yfirgefur maður aðra tvibba í neyð.