Tengslamyndun drengja

Maður veit aldrei hvort maður á að trúa því þegar íslenskri mynd er hælt mikið í fjölmiðlum þannig að ég nálgaðist kvikmyndina Berdreymi (2022) með opnum huga. Það var margt mjög gott við Hjartastein, fyrri mynd leikstjórans en annað sem ég var efins um. Þessi er betri og sterkari. Vissulega fetar hún ansi þekktar brautir í efnisvali en hún gerir það ólíkt betur en fyrri íslenskar myndir um sama efni, með minni tilgerð og minni óþörfu melódrama.

Í myndinni tekur hópur ofbeldisfullra unglinga dreng sem aðrir hafa níðst á undir sinn verndarvæng og bjargar honum þó að enginn af þeim virðist haldinn bjargvættakomplexinum hvimleiða sem veður uppi á samfélagsmiðlum. Þetta virðist þó lengi vel vera bjarnargreiði þar sem félagskapur þeirra er ekki endilega góður og manni þykir lengi vel líklegt að þeir leiði skjólstæðing sinn til glötunar en leikstjórinn stenst þá freistingu.

Í vandræðaunglingagenginu er einn drengur sem sér sýnir og þó að það hafi ekki augljóst hlutverk í sögunni vekur það forvitni og vegur gegn þeim klisjum sem annars voka yfir henni. Smám saman þróast sú persóna í að bera uppi myndina og að henni lokinni er það hann sem er manni hugstæður og frammistaða leikarans sem ég hef aldrei séð áður í neinu (Birgir Dagur Bjarkason) er eftirminnileg. Fullorðnu leikarararnir hafa minna að gera en Ólafur Darri fer vel með hlutverk tröllsins.

Í heimskulegri fjölmiðlaumfjöllun er stundum talað um „drengina okkar“ sem séu að flosna upp úr skóla og beita ofbeldi – eins og helmingur mannskyns sé allur eins eða við strákarnir sem lærðum einhvern veginn að lesa og höfum aldrei lamið neinn teljumst varla með. Berdreymi er vitrænt og predikunarlaust innlegg í þá umræðu en á að gerast 1999 og sennilega er það rétt að ástandið hafi verið síst betra þá.

Previous
Previous

Geimverur og hórur

Next
Next

Tvíburasögur