Geimverur og hórur
Nýlega las ég bókina Mysterious Skin eftir Scott Heim sem ég rakst á í Bóksölu stúdenta, spennandi bók og læsileg þó að efnið sé hart. Þetta var fyrsta skáldsaga Heim af þremur sem hann hefur gefið út á 30 ára höfundarferli og gerist í Kansas þar sem hann er fæddur og uppalinn. Skáldsagan er snjöll og þegar ég var að lesa hana laukst upp fyrir mér að það hefur verið gerð bíómynd eftir henni sem ég sá í Danmörku fyrir hartnær 20 árum og var það afar sterk bíóreynsla því að ég fór alltaf einn í bíó í Danmörku og hafði ekki hugmynd um hvað myndin væri en þar að auki var umfjöllunarefnið mun óvenjulegra og meira sláandi fyrir 20 árum. Senurnar í myndinni voru líka áhrifamiklar og allar sóttar í bókina.
Skáldsagan fjallar um tvö Kansas-drengi sem eru ólíkir að upplagi en deila saman reynslu um eitt kvöld eftir leik í yngra flokki í hafnabolta eitt sumarið. Annar drengurinn missir skammtímaminnið og vaknar heima hjá sér með blóðnasir. Minningar hans eru óljósar en smám saman þróar hann með sér þá kenningu að honum hafi verið rænt af geimverum. Þetta er á 9. áratugnum og geimverur enn í tísku í Bandaríkjunum. Geimveruáhuginn gerir hann að skrítinni skrúfu sem á fáa vini, leiðir hann líka í einkennilegan félagskap.
Að lokum finnur drengurinn eina vitnið um þetta kvöld sem er hinn drengurinn. Sá hefur unnið sér enn peninga sem hóra frá unga aldri en þó að hann njóti starfsins í fyrstu rennur smám saman upp fyrir honum að þetta er hættulegur bransi. Í myndinni eru ansi hrottalegar senur sem ég mundi vel þegar að þeim kom í bókinni. En á bak við hegðun hans í nútíðinni er bernsk saga um forvitinn og öðruvísi dreng sem var vanræktur af móður sinni en varð eitt sumar að uppáhaldi hafnaboltaþjálfarans sem vildi fara í „leiki“ með honum og hið örlagaríka kvöld veittu þeir hinum drengnum far heim af því að það fór að rigna og leiknum var aflýst.
Scott Heim hefur ekki skrifað bók sem hitti svona í mark síðan hann var þrítugur en hann hitti þarna á efni sem sannarlega fangar bandaríska þjóðarsál: hættulegar geimverur og vinalegan hafnaboltaþjálfara. Það sem er kannski best er hversu lítt klisjukennd umfjöllunin er og hversu djúpt hann kafar í sálarlíf ungu mannanna sem koma svo gjörólíkir úr sameiginlegri reynslu sinni og að lokum fær sá sem er kannski minna veikur þrátt fyrir allt það hlutverk að hjálpa honum að losna úr prísund minnisleysisins og báðir geta kannski á sinn hátt sagt skilið við þjálfarann.