Fæddur frjáls

Síðan ég ákvað að ég væri bókmenntaspíra fyrir rétt um 35 árum hafa mörg stórvirki heimsbókmenntanna komið út í íslenskri þýðingu (Gargantúa, Gilgameskviða, Satýríkon, Ummyndanir, Gleðileikurinn guðdómlegi, Tídægra, Kantaraborgarsögur) og maður vonar að enn séu til bókmenntaspírur á síðtáningsaldri sem kaupi þessar bækur og finni fyrir hinu háleita við að lesa þær. Allar svonar bækur minna mig á bókasafnið í MS, eitthvert hornið í bókasafninu í Þingholtsstræti eða gamla lestrarsalinn í Háskólanum og aðra staði þar sem ég uppgötvaði klassíkina sjálfur á öldinni sem leið.

Ég er ekki nógu góður í frönsku til að lesa þessa bók á frummálinu en Játningar Ágústínusar las ég á sínum tíma og hlakka því til að bæta Rousseau við þekkingu mína á sígildum játningabókmenntum og spjalla síðan um bókina við helsta gáfufólk Reykjavíkur. Ef mér dettur eitthvað skynsamlegt í hug mun ég deila því hér.

En þó að ég hafi enn ekki lesið Rousseau hef ég sannarlega lesið mörg verk Einars Olgeirssonar, helsta aðdáanda mannsins á Íslandi, þar á meðal heilu árgangana af Rétti og stutta ritgerð hans um Rousseau sem kom út í ritröðinni Brautryðjendasögur (á mínum bernskuárum hétu sambærilegar bækur Afburðamenn og örlagavaldar og voru lesnar upp til agna á Sólheimasafninu). Einar Olgeirsson var auðvitað frægur á sínum tíma fyrir að vera aðdáandi annarra stórmenna sögunnar en Rousseau var æskuástin hans og kannski sú sannasta, það sem Danir kölluðu „gammel flamme“.

Previous
Previous

Aðeins um Andvara

Next
Next

Geimverur og hórur