Agatha Christie og drusluskömm

Mig hefur alltaf langað til að skrifa bók um verk Agöthu Christie, þó að ekki væri nema vegna þess að ég þekki þau betur en flestir núlifandi menn og a.m.k. betur en flestir núlifandi Íslendingar þar sem ég hef lesið allar glæpasögur hennar og flestar mörgum sinnum og er uppfullur af hugmyndum sem ég hef aldrei séð á prenti. Þess vegna keypti ég nýja ævisögu Lucy Worsley um daginn og var ánægður með að hún sér Agöthu að mörgu leyti sömu augum og ég. Samt er hún einkum að fjalla um ævi hennar (auðvitað hvarfið 1926 í sérkafla) en ekki verkin þannig að enn er margt ósagt. Worsley er skynsöm og skrif hennar greindarleg sem er ekki of algengt þegar fjallað er um Christie. Hún er ein af þessum sem allir þykjast þekkja en gera ekki.

Aðalástæðan fyrir að ég hef enn ekki látið verða af þessu er því ekki að mig skorti orð heldur skortir mig frekar kjark eða fíflsku. Ekki er hægt að koma til íslenskra útgefanda með bókmenntafræðirit um erlendan höfund og fremur ólíklegt er að enskir útgefendur hafi áhuga á því sem einhver frá Íslandi hafi að segja um þeirra eigin höfund; þannig er stigveldi bókmenntaheimsins. Líklega væri skynsamlegt að senda fyrst grein í erlend bókmenntatímarit en þar þekki ég auðvitað engan þannig að enn hefur ekki orðið úr þessu. Þó skortir mig ekki efni.

Eins og Lucy Worsley fjallar um eru nútímamenn sem minnast á Agöthu Christie endalaust að ræða millistéttar- og nýlenduherrahugarfar hennar sem er þó hvorki sérstakt né áhugavert heldur er það einkenni á flestum bókum Vesturlandamanna á þeim tíma (og kannski enn því að það er aðallega ímyndun fólks í okkar heimshluta sem telur sig frjálslynt að framferði Vesturlandabúa sé hætt að einkennast af rasisma). Hún bendir líka réttilega á að margir sem fjalla um Agöthu Christie haldi að allar bækur hennar gerist á sveitasetri þar sem takmarkaður hópur grunaðra hefst við en það er reyndar fjarri lagi þó að vissulega sé millistéttin oftast í aðalhlutverki. Þriðja ábendingin frá Worsley sem ég hefði líka sett fram í minni bók er að sumar af seinni bókum Christie eru persónudrifnar fremur en atburða og þar má segja að glæpasagnahöfundurinn Agatha Christie sameinist Mary Westmacott en það höfundarnafn notaði hún þegar hana langaði til að skrifa bækur þar sem enginn var myrtur. Sumar bækur hennar samdar á 4. og 5. áratugnum eru þannig eiginlega Mary Westmacott bækur með glæp.

Eitt af því sem Worsley fjallar ekki um í ævisögunni væri hins vegar gott efni í grein eftir mig sem ég merki mér hér með en það er áhugi Agöthu Christie á drusluskömm þar sem viðhorf hennar reynast fullkomlega í takt við tíðarandann 80 árum síðar. Hún skrifaði nefnilega tvær bækur í upphafi seinna stríðs (það getur blekkt að önnur kom ekki út fyrr en löngu síðar) þar sem sögufléttan stendur og fellur með því gildismati að tiltekin kona sé drusla en í báðum tilvikum leysa Hercule Poirot og ungfrú Marple málið með því að benda á að konan sem í hlut á (fórnarlambið í báðum tilvikum) hafi verið illa misskilin og vanmetin. Eins mætti skrifa lengi um hvernig bæði Poirot og Marple þrífast á fordómum samfélagsins gegn útlendingum og eldri konum en hér náði Worsley (og raunar líka Bernthal sem er nýbúinn að senda frá sér ágæta bók um Christie) að vera á undan mér þó að kannski megi segja meira um efnið.

Samt held ég að í minni bók kæmi margt nýtt fram og harma oft að mig skorti bæði kjark og fíflsku til að skrifa hana og senda út í heim.

Previous
Previous

Tvíburasögur

Next
Next

Einum of ákafur prófarkalestur