Einum of ákafur prófarkalestur
Stétt prófarkalesara eru hinir mestu og bestu vinir rithöfunda og verður það ekki tölum talið. Á hinn bóginn getur sambandið á köflum orðið stormasamt. Ég er sjálfur með frjálslyndari mönnum og hlynntur tilbrigðum í máli enda löngu hættur að prófarkalesa. Fyrir utan beinar villur og misskilning veldur fátt titringi í leiðréttingarfingrinum nema einstaka orðalag sem er stundum ekki einu sinni rangt heldur aðeins ofnotað. Þar má nefna þegar fólk segir „master“ í stað meistaraprófs eða kallar Kaupmannahöfn Köben. Þá tókst afa mínum árið 1993 að sannfæra mig um að bara væri barnamál þannig að nemendur mínir þurfa núna að nota aðeins og eingöngu.
Flestir prófarkalesarar mínir eru mun gjarnari á samræmingu texta en ég og þar sem ég er frekar friðsamur og eftirlátur að eðlisfari myndi ég ekki endilega nota útgefin verk mín til að fullyrða um persónuleg máleinkenni því að mörgu er breytt frá því sem ég kýs helst. Flestu tek ég vel en þó veldur mér stundum gramt í geði þegar yfirlesarar vitna í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls og aðra gagnagrunna. Svo lítt stjórnlyndur er ég að tilvísanir til kennivalds pirra mig (enda tel ég mig ekkert síðra kennivald en BÍN) og vil helst heyra rökin með rækilegum dæmum. Meðal annars get ég bent á mörg dæmi um að þágufalls-i sé sleppt úr nöfnum (og föstum orðasamböndum) sem prófarkalesurum líkar yfirleitt ekki vel. Hef ég stundum lofað sjálfum mér að blogga um þetta einhvern daginn og það er nú gert.