Gott eða vont snobb
Ég hef alltaf verið frekar hlynntur snobbi. Sem maður sem hefur eytt allri ævi sinni í að sinna íslenskri tungu og íslenskum menningararf get ég varla verið annað. Auðvitað jafnast snobb ekki á við raunverulega innlifun eða sanna hrifningu en af tvennu illu finnst mér snobb þó skárra en sinnuleysi og deyfð. Þegar reynt var að koma á alræði auðhyggjunnar fyrir nokkrum áratugum þá fylgdi þeim pakka að peningar og gróði ættu að vera eini mælikvarðinn og það væri aðeins snobb að aðhyllast aðra mælikvarða á gæði bókmennta og lista. Enn lifir sú hugmynd en raunar vill svo einkennilega til að sterkust er hún hjá sumum sem segjast andvígir auðhyggjunni.
Mín niðurstaða eftir hræringar í hugarfarinu hefur verið sú að ég sé ekki endilega á móti snobbi, aðeins því þegar snobbað er fyrir vitlausum hlutum eins og mörg dæmi eru um í íslenskum fjölmiðlum. En í sjálfu sér er ágætt að snobba þó að snobb sé eðli í sínu innihaldslítið. Það getur þó verið áfangi á leiðinni til innihalds. Stundum verða menn að lokum það sem menn þóttust lengi vera.