Draumur um skíðaskála
Það hefur verið eitt helsta markmið mitt í lífinu að fá unga fólkið í fjölskyldu minni til að tengja sig við menningu 7. og 8. áratugarins sem mér finnst að mörgu leyti fremri nútímamenningu. Þannig tókst mér að kynna frændur mína fyrir Peter Sellers, m.a. með því að sýna þeim þá kvikmynd um Bleika pardusinn þar sem hraðinn er mestur og oftast dottið í vatn. Ég valdi ekki fyrstu myndina þar sem mig grunaði að hún væri allt of hæg fyrir nútímabörn. Þar að auki er hún full af fullorðinshúmor um ást og kynlíf og eins þarf áhorfandinn helst að standa með skúrkinum sem kannski væri einum of fyrir 7-9 ára.
Myndin er þó framúrstefnuleg að því leyti að í henni miðri er tónlistarmyndband þar sem söngkonan Fran Jeffries syngur lagið „Meglio stasera“ í 3-4 mínútur og persónur myndarinnar eru þar í bakgrunni og taka þátt í flutningnum. Lagið kemur fléttunni ekki við á nokkurn hátt heldur er frekar eins og Blake Edwards hafi uppgötvað of seint að hann vantaði 4 mínútur í myndina. En það er svo mikið stuð í atriðinu sem má sjá hér að síðan hefur mig alltaf langað til að eyða vetrinum í skíðaskála í Ölpunum þar sem sungið er og dansað.