Bruno Latour allur

Þegar ég var í háskóla voru þeir Baktín, Foucault og Derrida helstu kempur hugvísindanna en Bruno Latour bættist ekki við fyrr en síðar. Hann var talinn hugmyndalegur arftaki þeirra Greimas, Bachelard og Garfinkel sem ég hafði lært um í félagsfræði í menntaskóla og bókmenntum í háskóla og hefur líklega verið áhrifamestur í félagsvísindum þó að ég líti á hann sem hugvísindamann.

Bruno Latour var 75 ára þegar hann lést um daginn og hafði unnið í París mestalla ævina. Menntaður var hann í heimspeki og mannfræði en varð svo sérfræðingur í vísindasögu og félagsfræði vísinda. Kenningar hans um að vísindin væru rækilega mótuð af samfélaginu vöktu vitaskuld mikla reiði raunvísindamanna í fyrstu en síðar varð Latour sinn eigin harðasti gagnrýnandi og þó á öðrum forsendum. Hann hafði þungar áhyggjur af því hvernig gagnrýni á nútímann og aukin virðing afstæðishyggju hefðu reynst vatn á myllu samsæriskenningasinna og lýðskrumara.

Áhyggjur hans voru eðlilegar. Ég kannast sjálfur við að þekkja varla sum forn gagnrýnin viðhorf sjálfs mín í sumri öfugsnúinni gerviróttækni nútímans. Það breytir ekki hinu að með efahyggju sinni opnaði Latour ýmsar ryðgaðar dyr sem hafa verið mörgum góðum fræðimanni innblástur og hefur vonandi haft varanlegust áhrif þannig.

Previous
Previous

Draumur um skíðaskála

Next
Next

Eitruð karlmennska fyrri tíma