Eitruð karlmennska fyrri tíma

Um daginn horfði ég á ítölsku Netflix-myndina Kaþólski skólinn og raunar vakti hún slíkan áhuga hjá mér að ég horfði á hana aftur daginn eftir til að skilja hana betur. Myndin er umdeild vegna þess að hún er byggð á 1000 blaðsíðna endurminningaskáldsögu Edoardo Albinati þar sem meðal annars er fjallað um hina hræðilegu atburði sem kallaðir eru „massacro del Circeo“ og gerðust árið 1975 (massacro merkir víst ekki alltaf fjöldamorð á ítölsku heldur hroðalegt ofbeldisverk eins og í þessu tilviki). Í sögunni og myndinni er rakin uppvaxtarsaga ungs manns í kaþólskum skóla og hversdagsraunir hans en henni lýkur á hrottalegri nauðgun og morði tveggja jafnaldra hans sem ræna stúlkum úr fátækara hverfi til að misnota þær. Albinati fléttar þessar gerólíku sögur saman til að fella óvæginn dóm yfir samfélaginu sem hann ólst upp í og vill tengja ofbeldisverkið við.

Við lifum á öld sannra glæpasagna sem skemmtiefnis og er það vissulega umdeilt en auðvitað verður að segja þessar sögur eins og aðrar. Enn umdeildara hefur verið hvernig tilfinningaflækjur og káf unglingspilta er fléttað saman við hræðilegan glæp í kvikmyndinni en þó eðlilegt í ljósi þess að glæpamennirnir voru unglingsstrákar af efri stigum. Við fáum að kynnast þeim í bókinni, tveir strákar af mörgum sem tekur dágóða stund að henda reiður á. Annar er leikinn af einum fallegasta leikara sem ég hef séð og hefur orðið mörgum gagnrýnanda tilefni til að fara með gamalt máltæki um flögð undir fögru skinni. Hann er í upphafi sakaður um einelti og laminn af föður sínum en það er ekki fyrr en í lokin að við sjáum skuggalegri hlið hans. Fram að því vekur hann einkum athygli fyrir að vera þögull og lágmæltur og skiptir varla um tóntegund, en í annað sinn sem horft er á myndina má þó sjá glytta öðru hvoru í vandlega niðurbælda reiði hans. Hinn er frá upphafi ákafari og vanstilltari og hefur hótað mörgum áður en hann stígur skrefið til miskunnarleysis til fulls. Leikaranum tekst vel að tjá opinskáa ánægju hans með eigin grimmd og hve stórhættulegur ofbeldismaður hann sé (og fyrirmyndin sannarlega var) en um leið hálfgert grey. Í sögunni löngu er býsna skýrt að hann hefur kúgað hinn (sem er iðulega kallaður hinn undirokaði í henni) til að fremja morðið með sér en í myndinni er þetta fjarri því jafn skýrt.

Annað sem sést vel í seinna áhorfi er hin félagslega hlið viðburðarins. Æskan er alin upp í skýru stigveldi, kúguð af hinum eldri en lærir að fyrirlíta lágstéttarfólk og konur sérstaklega. Leiðir ríkra og fátækra liggja í myndinni saman fyrir tilviljun áður en ríku strákarnir tveir grípa tækifærið sem þá gefst til að skeyta skapi sínu grimmdarlega á ókunnum fátækum stúlkum sem þeir þekkja ekki neitt og annar dæsir í lokin að honum hafi ekki einu sinni líkað við þær. Þetta atriði er sannarlega ekki fegrað en mesta ofbeldið ekki heldur sýnt og myndin hefur fengið nokkra gagnrýni fyrir að vera of falleg.

Vegna þess að voðaverkið er unnið í lokin fær áhorfandinn enga lausn, það virðist á skjön við sakleysislegu uppvaxtarsöguna í fyrri hluta en þegar betur er gáð eru öll frækornin þar fyrir hendi: ofbeldi, stigveldi, hatur á lítilmagnanum, aðskilnaður kynjanna, hómófóbía og vendilega ræktuð árásargirni sem eldri kynslóðin ber sína ábyrgð á.

Kannski er ein ástæða þess að mér féll við myndina að mínar eigin sögur um glæp sem hafa komið út 2018–2022 eru að sönnu hver annarri ólíkar en eiga það eitt sameiginlegt að eitruð karlmennska kemur ævinlega við sögu. Það er ekki vegna endurtekningarsemi höfundar heldur vegna þess að ég trúi því að glæpir eigi sér ekki síst þessa orsök. Mér finnst Kaþólski skólinn takast vel á við hana og veitir eflaust ekki af á Ítalíu.

Previous
Previous

Bruno Latour allur

Next
Next

Peter Robinson