Peter Robinson

Maðurinn með ljáinn fer víða um sveit ríflega sjötugra rithöfunda þessa dagana. Nýlega lést Peter Robinson sem ég las mikið fyrir 20-25 árum og við mamma bæði. Robinson skrifaði lögreglusögur sem gerðust í Leeds og þær voru haganlega byggðar og læsilegar þó að ég muni þær raunar ekki vel. Aðalpersónan hét Banks og stóð í skilnaði en að öðru leyti virtist hann ágætur starfskraftur og hvorki þunglyndur né drykkfelldur umfram það sem eðlilegt má teljast. Robinson skrifaði 30 sögur um Banks og þær voru allar tilnefndar til einhverra verðlauna.

Á þessum árum var Leeds áberandi í lífi mínu því að ég sótti ein níu miðaldaþing þar frá 1994 til 2008 en það var einmitt tímabilið sem ég las mest af verkum Peter Robinsons, eflaust á annan tug bóka alls. Þess vegna var auðvelt að sjá sögusviðið fyrir sér. Robinson hafði lært það af mistökum Agöthu Christie að hafa lögreglumanninn ekki of gamlan þannig að Banks fékk að eldast ásamt höfundi og lesendum og hækkaði að lokum í tign. Eins tóku samskipti hans við vinnufélagana miklum breytingum í rás ritraðarinnar.

Nú hef ég aldrei verið hrifinn af því að tala um „kósý“ glæpasögur en það voru sögur Robinsons sannarlega ekki, oft fann maður vel fyrir drunga og eymd í þessum fátækari hluta Englands og margar sögupersónur bjuggu við erfið lífskjör.

Leiðir skildu með okkur Banks að lokum og ég lét glæpasögur Robinsons fara þegar ég var farinn að drukkna í bókum, ekki þó tregalaust og ég var glaður þegar þær voru allar horfnar af bókaborðunum í Árnagarði og Robinson hafði þannig eignast nýja lesendur.

Previous
Previous

Eitruð karlmennska fyrri tíma

Next
Next

Á öld lönguvitleysunnar