Á öld lönguvitleysunnar

Sennilega er mesta bandaríska menningarlega meinsemd nútímans sú hugmynd að árangur sjónvarpsefnis felist í því að það sé aldrei tekið af dagskrá og best heppnaða sjónvarpsþáttaröðin sé því sú sem er á dagskrá í 35 ár. Þær séu hins vegar misheppnaðar sem aðeins lifa í eitt ár eða tvö. Á bak við eru auðvitað markaðsrök: augljóslega græðist meira fjármagn í 35 ár en eitt. Verra er hversu mjög þetta mótar menningarumræðu nútímans.

Á þessum tímum þar sem langavitleysan er viðmið er ánægjulegt að hugsa til höfunda sem aðeins sendu frá sér eina bók þó að auðvitað þekkjum við nöfn þeirra vegna þess að sú náði vinsældum. Það átti við um bandarísku skáldkonuna Harper Lee sem var einnar bókar konu fram í háa elli þegar hún gaf út eldri gerð þeirrar bókar og var það líklega misráðið. Ég á báðar bækurnar ólesnar en sá hins vegar nýlega stórgóða kvikmynd frá 1962 eftir To Kill a Mockingbird og uppgötvaði að sagan fjallar í raun alls ekkert um kynþáttaátök nema að takmörkuðu leyti og er aðallega um skrítna Suðurríkjastelpu og sjónarhorn hennar á heiminn. Mæli eindregið með.

Annar höfundur sem sá ekki ástæðu til að senda frá sér skáldsögu á ári var Ira Levin en ég á fjórar bækur hans af sjö og les þær reglulega. Levin var alls ekkert letiblóð og skrifaði líka leikrit en hann þurfti þó ekki að skrifa mikið til að skrifa vel. Bækur hans eru stuttar en haganlega gerðar og hann var í einstöku sambandi við eigin ótta og annarra manna. Þær flokkast til spennusagna en handverkið er á við bestu fagurbókmenntahöfunda.

En síðan eru auðvitað fjölmörg dæmi um Nóbelsverðlaunahöfunda sem eru feykilega afkastamikilir og einn slíkur var Halldór okkar Laxness. Hann var vandvirkur en samt mikilvirkur og hugmyndaríkur bæði hvað varðar inntak, formgerð og stíl. Þó að það séu ákveðin innbyrðis líkindi með sumum verkum hans vekur það aðdáun manns hversu einstök þau eru flest og hvernig hann fetaði stöðugt nýjar brautir, ekki síst í ellinni. Sískrifandi en þó ekkert vélrænt við afköst hans.

Previous
Previous

Peter Robinson

Next
Next

Aðeins um notkun raunveruleikans í skáldskap