Aðeins um notkun raunveruleikans í skáldskap

Mörk raunveruleika og skáldskapar eru áhugavert viðfangsefni og Nóbelsverðlaun Annie Ernaux kalla á umræðu um það þar sem hún er þekkt fyrir endurminningaverk sín. Málið var líka rætt frá siðferðislegu sjónarhorni í Háskólanum í vikunni og aldrei er það of oft gert því að sannarlega eru á því margar siðferðislegar hliðar. Nú blasir auðvitað við að rithöfundar eru stöðugt að vinna með raunveruleikann, eigin ævi, sögulegar persónur og stundum með texta annarra. Fólk á sannarlega ekki eigin ævisögu – hvort sem einhverjum þykir það ljúft eða leitt – og allt þekkt fólk hefur lent í eins konar skrumskælingu á opinberum vettvangi.

Mér þótti skáldsagan House of Hate áhrifamikil þegar ég las hana og vissi ekkert um höfundinn Percy Janes eða ævi hans. Síðar sagði vinur minn sem ólst upp í sama bæ og hann að fjölskyldan í sögunni væri lítt dulbúin fjölskylda Janes og þegar hann sagði mér raunverulegu nöfnin voru þau svo lík gervinöfnunum í sögunum að varla var hægt að tala um gervi.

Aðrar sögur flakka milli skáldskapar og raunveruleika eins og æviminningaverk Ernaux eða hið feiknarlanga ófullgerða skáldverk náungans á myndinni að ofan. Hvar væri skáldskapurinn ef við hefðum ekki slík verk? En höfundar sem nota eigin ævi eða annarra geta auðvitað ekki krafist að þeim sem þeir taka til handargagns falli vel við verkið sem eru gerðir að persónum í því. Hatrið í fjölskyldu Janes minnkaði sjálfsagt lítið við óvægna skáldsögu hans. Sama á við þegar höfundar hafa tekið lifandi fólk sér til handargagns og ekki dulbúið það – oftar en ekki kunna hinir nánustu þeim litlar þakkir fyrir vikið og hvers vegna ættu þeir að kunna það?

Vinur minn benti mér um daginn að ekki bætti úr skák þegar til dæmis væru skrifaðar kynlífslýsingar persóna sem augljóslega voru raunverulegt fólk en engar heimildir væru til um heldur væri þetta kynlíf sprottið upp úr frjóum heila hins geðþekka höfundar. Ég skildi vel hvað hann átti við. Mín fyrsta skáldsaga fjallaði um langafa minn og langömmu sem áttu saman þrettán börn en ekki hefur orð varðveist um ástalíf þeirra og hefði ég ætlað að skrifa kynlíf inn í bókina hefði ég orðið að ímynda mér það allt. Nú vil ég ekki hafna því að allur skáldskapur sé kannski einhvers konar perversíón en ég kærði mig ekki um þessa tilteknu tegund og ég hugsa að öll ættin hafi verið fegin.

Previous
Previous

Á öld lönguvitleysunnar

Next
Next

Annie Ernaux