Sterki maðurinn bognar
Barnsránið mun hafa verið sýnd í íslenskum bíóhúsum árið sem ég fæddist en ég sá hana fyrst núna í apríl enda hefur mér verið komið í skilning um að ég þurfi að horfa á allar helstu kvikmyndir Akira Kurosawa. Myndin heitir Tengoku ku Jigoku sem mun merkja „himnaríki og helvíti“ (góður titill) en er á ensku kölluð High and Low. Hún fjallar um glæp sem grundvallast á andstæðum auðs og valda og reiði hins fátæka í garð þess sem hann telur ríkari en þekkir samt ekki mjög vel. Ríki maðurinn, Kingo Gondo, er leikinn af sjálfum Toshiro Mifune og er harður nagli sem hyggst taka yfir risavaxið skóframleiðslufyrirtæki og máta þar með þrjá gráðuga keppninauta. En þessari ráðagerð hans er ógnað þegar syni hans er rænt og krafist er risavaxins lausnargjalds nema að mannræninginn hefur óvart rænt röngum dreng, syni bílstjórans. En getur ríki maðurinn verið þekktur fyrir að borga ekki fyrir hann líka jafnvel þó að það ógni öllum hinum snjöllu yfirtökuáætlunum hans?
Sagan er byggð á lögreglusögu eftir Evan Hunter (1926-2005) sem skrifaði undir nafninu Ed McBain raunsæjar og fyndnar sögur um 87. lögregluhverfið í New York, alls um 60. Hann var mikill innblástur fyrir Sjöwall og Wahlöö og foreldrar mínir elskuðu McBain næstum jafn mikið og Agöthu Christie og átti tugi bóka hans. Þar voru margir lögreglumenn, m.a. Carella sem átti heyrnarlausa konu, Í japönsku gerðinni er hann lögregluforinginn Tokura sem leikinn er af Tatsuya Nakadai sem var næstum jafn mikilvægur í höfundarverki Kurosawa og Mifune. Úr sögunum um 87. stöðina sækir Kurosawa kímni og virðingu fyrir óinnblásnu en nákvæmu og vönduðu lögreglustarfi þar sem hringurinn um morðingjann er þrengdur smám saman. Miðja myndarinnar snýst um löggurnar og þeirra starf og þær eru margar skemmtilegir og geðþekkir karakterar, ekki síst hinn þétti og sköllótti ‘bos’n’ (hugsanlega hliðstæður Meyer Meyer í bandarísku sögunum).
Upphafsþriðjungur myndarinnar gerist allur í ríkmannlegu húsi Gondo og lýkur með lestarferð þar sem hann afhendir lausnargjaldið. Lokaþriðjungurinn snýst hins vegar um gildru sem lögreglumennirnir leggja fyrir bófann og æsilegan eltingarleik þeirra um klúbba og bari Yokohama. Bófinn sjálfur er æði skuggalegur, hliðstæður Moriarty sjálfum, bráðgreindur læknanemi sem fer illa með samverkamenn sína í glæpnum og virðist knúinn áfram af sjúklegu hatri á Gondo sem hann þekkir þó ekki og misskilur sem ríkan asna — en Gondo er þvert á móti sannur fagmaður af lágum stigum sem hefur unnið fyrir auð sínum. Í lokin horfast þeir í augu og þá er eins og renni upp fyrir skálkinum að rökvísi hans er ábótavant og hann horfist í augu við afleiðingar gjörða sinna.
Þetta er þannig séð venjuleg glæpasaga en meistaralegt handbragð Kurosawa kemur fram í fágætri myndvísi í hverju einasta atriði og eins miklu valdi á frásagnartækni þannig að rúmlega tveggja tíma mynd vindur áfram með engum látum og hamagangi en ágengri spennu sem er sköpuð af mannskilningi og rökréttri framvindu. Margar skemmtilegar aukapersónur birtast sem varpa frekara ljósi á hinar hrikalegu andstæður sem eru forsenda glæpsins. Eins kemur almenningsálitið við sögu og eyðileggur fyrirætlan morðingjans eftir því sem samúðin snýst reglulega og Gondo verður að lokum hetja í augum almennings fyrir að hafa greitt lausnargjald fyrir sér óskyldan dreng.