Ívar hlújárn og aðrar „barnabækur“
Sígildar sögur Iðunnar komu út árin 1963–1974 og urðu alls 20. Þetta voru einkum erlendar 19. aldar skáldsögur eftir höfunda á borð við Walter Scott, Alexandre Dumas, Robert Louis Stevenson, Carit Etlar, Frederick Marryat, James Fenimore Cooper, Harriet Beecher Stowe, Anthony Hope, Arthur Conan Doyle og Jules Verne. Á Íslandi voru þær seldar sem barnabækur en höfðu allar upphaflega verið gefnar út sem skáldsögur fyrir alla aldurshópa. Skilgreiningin á barnabók var þá einfaldlega að bókin væri spennandi, ævintýraleg og með söguþræði en alls ekki að hún væri samin fyrir börn. Raunar vantaði ekki fullorðinsefni eða fullorðinsmálfar í sumar þeirra en engum þótti óeðlilegt að börn væru látin tileinka sér það og ein slík var Ívar hlújárn sem ég las sem barn og fannst æsispennandi en auðvitað færir hún lesendum sínum líka mikilvægan boðskap um ósætti kynþátta og fordóma.
Í janúar 1985 sameinaðist síðan öll fjölskyldan við Ríkisútvarpið að horfa á nýja sjónvarpsgerð eftir sögunni sem þótti stórgóð enda var siðvenja að fylgja sögum nokkuð rækilega í aðlögunum frá þeim árum (1970-1990) með þeim afleiðingum að kvikmyndir og sjónvarp hafa sjaldan verið betri. Þá komst ég af því að Ívar hét í raun Wilfred of Ivanhoe og hinn ógurlegi Reginvaldur uxaskalli hét Reginald Front-de-Boeuf. Í minni fjölskyldu þótti skúrkurinn Brjánn mun betri persóna en Ívar hlújárn sjálfur (sem dæmdist vera mélkisulegur) enda var sá fyrrnefndi leikinn af sjálfum Sam Neill sem seinna varð einn af frægustu Hollywoodleikurum í Júragarðinum og fleiri stórmyndum. Eins þótti gyðingastúlkan Rebekka mun laglegri en hin saxneska Rowena og faðir hennar var leikinn af sjálfum James Mason með forláta hött (sjá að neðan). Ég horfði einmitt á þessa mynd um daginn og hún er engu síðri 40 árum síðar. Þess má geta að Reginvaldur uxaskalli er John Rhys-Davies, Gimli í Hringadróttinssögu og Sallah í Indiana Jones myndunum. Hann þekktum við hins vegar upp úr 1980 sem Jaka (e. Armchair) úr sjónvarpsþætti um prestinn Septimus Treloar sem leysti dularfull mál. Illa fór að sjálfsögðu fyrir uxaskallanum í myndinni sem og sögunni (ég man ekkert hvernig fór fyrir Jaka) en segja má að hinir skúrkarnir fái allir ívið betri meðferð.
Walter Scott tróð Hróa hetti (sjá að ofan við til vinstri) í söguna ásamt Ríkarði ljónshjarta og Jóhanni landlausa. Ég man að pabba heitnum fannst besta persónan hinn ættgöfugi Aðalsteinn, afkomandi hinna saxnesku konunga, sem reynist einkum áhugasamur um að kýla vömbina. Hann er leikinn fremur súrrealískt af Michael Gothard sem sló líka í gegn sem skúrkur í Bond-myndum. Ég man að allri fjölskyldunni sem og stórfjölskyldunni fannst myndin æsispennandi og einn helsti sjónvarpsviðburður ársins en af einhverjum ástæðum teljast slíkar sögur ekki lengur til bókmennta, kannski vegna þess að búið er að kljúfa litteratúrinn í spennusögur og „alvöru bækur“ og saga eins og þessi sem búið er að lýsa barnabók átti auðvitað engan möguleika að komast í seinni flokkinn þó að hún hafi á sínum tíma verið ein af fyrstu ensku skáldsögunum. Kannski var það ógæfa Jóns Thoroddsen að það er ekki búið að lýsa Pilt og stúlku barnabók líka því að þá væri bókin hugsanlega metin minna en þó lesin meira. Raunar voru kaflar úr henni í lestrarbókum þegar ég var barn og eins úr Fjallkirkjunni en það er útúrdúr.
Mér virðist að Þorsteinn Gíslason ritstjóri Lögréttu hafi fyrstur þýtt þessa skáldsögu Walters Scott á íslensku og væntanlega er það því hann sem ákvað að íslenska nafnið Ivanhoe sem Ívar hlújárn. Íslenskir ritstjórar lögðu mikið til bókmennta fyrir 100-130 árum, þar á meðal Þorsteinn og hinn stórmerkilegi Jón Ólafsson ritstjóri og skáld (1850–1916) sem bókmenntafræðingar þurfa að sinna miklu betur. Hlújárnið sem verkfæri virðist fyrst nefnt því nafni á 19. öld og aldrei efaðist maður á sínum tíma um réttmæti þess að Ívar bæri nafn þess þó að mér sé það eiginlega lítt skiljanlegt núna. Ég man síðan að Sally í Smáfólkinu kallaði þessa hetju eitt sinn Ivanhohoho í skólaritgerð sem er líka útúrdúr en þeir teljast leyfilegir á frjálslegri netsíðu.