Kona í lit

Góðvinur minn er aðdáandi Alasdair Gray (1934–2019) og hefur fyrir löngu vakið athygli mína á þessum sérstæða skarpa skoska höfundi sem þótti skrifa í töfraraunsæjum anda með flugbeittri greind og kannski er það þess vegna sem avant garde kvikmyndin eftir skáldsögu hans Poor Things er bæði í svarthvítu og (engum smá fríkuðum) litum, ein sú áhrifamesta sem ég man eftir með þessu sérkenni síðan ég sá Galdrakarlinn í Oz. Vissulega er þetta tilgerðarlegt en hugsanlega góð tilgerð, hugtak sem einn af bókmenntakennurum mínum kynnti mig einu sinni fyrir. Að minnsta kosti hefur Poor Things notið mikillar hylli verðlaunanefnda jafnvel umfram fyrri myndir Yorgos Lanthimos og í annað sinn hefur aðalleikonan í einni af mynd hans fengið óskarsverðlaun, í þetta sinn hin dökkbrýnda Emma Stone sem sannarlega er orðin ein af stærstu leikkonum samtímans með þessari kvikmynd. Mér finnst það meðmæli með einum leikstjóra í hinum ógurlega karlaheimi kvikmyndanna að leikkonur njóti sín í myndum hans en Poor Things fjallar um efni sem hlýtur að vera umdeilt meðal femínista, er Frankenstein-saga um afskræmdan vísindamann sem hefur skapað bernska konu sem heitir Bella Baxter úr óhamingjusamri ungri konu og heila barnsins hennar. Mig minnir að þetta hafi verið eitthvað aðeins flóknara í skáldsögunni sem ég þekki aðeins af afspurn en er afar löng eins og skáldsögur Gray voru jafnan.

Eftir nokkra umhugsun hef ég blendnar tilfinningar gagnvart myndinni, finnst hún hvorki jafn persónuleg og Humarinn eða jafn góð karakterstúdía og Etirlætið. Myndin er sláandi súrrealísk í útliti og tónlistin ýtir við manni og ögrar fremur en gleður en allt er þetta sviðsett á 19. öld. Rakin er þroskasaga hinnar barnalegu Bellu frá því hún sleppur frá vísindamanninum en er þó heljarmikil raunasaga þar sem Bella kann ekki að hegða sér en síðan verður hún leiksoppur margra illskeyttra karlmanna eftir að hún uppgötvar unað sjálfsfróunarinnar og kynlífsins. Drjúgur hluti myndarinnar er Bella að fróa að sér eða hrista bobbingana sem kannski er tegund nútímafemínisma. Mikil fáránleikafyndni einkennir myndina og þetta 19. aldar fólk er stöðugt með grófyrði, einkum f-orðið, á vörum en mér finnst Poor Things þó talsvert þunglamalegri en um leið losaralegri en Eftirlætið sem hún minnir þó talsvert á og efnið um misnotuðu kynóðu konuna höfðar ekki mjög til mín jafnvel undir femínískum formerkjum, þ.e. þeim að karlarnir sem girnast Bellu eiga fullt í fangi með að ráða við hana. Ég hef þó á tilfinninguna að bókmenntafræðingar eigi að hafa húmor fyrir þessari grótesku og víruðu mynd og kannski ekki síst vegna þess að andstæðurnar í henni eru fremur hversdagslegar og stundum næstum banalar og merkingin virðist frekar augljós, sennilega talsvert augljósari en í skáldsögunni. Það er auðvelt að standa með konunni sérstæðu sem er að uppgötva eigin unað, stéttaskiptingu, heimspeki og fleira, og hugsar eins og kona frá 21. öld, einkum þegar aðalandstæðingurinn er hið hræðilega kúgandi karlveldi holdgert í ýmsum afkáralegu fulltrúum.

Ég var hugsi yfir einkennilegri ákvörðun Bellu að feta í fótspor hrottans sem safnaði henni saman og raunar yfir vísindablæti myndarinnar almennt og hugsanlega er spurning um hversu illur gjörningur vísindamannsins var en ég hef á tilfinningunni að í bókinni hafi lesendum verið gefið meira tækifæri til að mynda sér eigin skoðanir og taka þátt í sköpun merkingarinnar. Ekki verður þó af Poor Things tekið að myndin er kraftmikil og sérstaklega leikur Emmu Stone. Um miðbik myndarinnar fer Bella að vinna á pútnahúsi í París sem mér þótti fyrst hræðileg klisja en mörg atriðin þar eru samt þau óvæntustu og áhrifamestu í myndinni og leikkonan Kathryn Hunter kemur á óvart í litlu hlutverki. Raunar er leikurinn í myndinni almennt góður þó að Mark Ruffalo hafi ekki heillað mig sem dólgurinn Wedderburn (ég veit að hann hefur heillað marga aðra) og ekki heldur skrípamyndabófinn sem Bella tekst á við undir lokin. Boðskapur sem hefur hugsanlega verið áhugaverður þegar bókin var samin er núna stundum eins og einhver pervers woke-fantasía.

Það sem aðallega situr eftir hjá mér er löngun til að kynnast betur höfundinum Alasdair Gray, súrrealískum stíl hans, 19. aldar blæti og pælingum um vísindi og íhaldssemi; það er svo margt líkt með Poor Things og ýmsum nýrri skáldsögum sem ég hélt að væru frumlegar að það blasir við að hann hefur haft mikil áhrif á ýmsa. Þó að myndin Poor Things hafi kannski ekki heillað mig jafn mikið og sumar aðrar sem ég hef séð í ár og ég gruni hana sterklega um að hafa aðeins Hollywoodvætt margræðan og flókinn boðskap skáldsögunnar er ekki útilokað að hún vinni á í tímans rás og sannarlega er þetta eftirminnileg og sláandi kvikmynd.

Previous
Previous

Sterki maðurinn bognar

Next
Next

Torræð ljóð og tignar konur