Torræð ljóð og tignar konur
Árið sem Joyce sendi frá sér Odysseif og Eliot Eyðilandið sat Rainer Maria Rilke sveittur í Sviss við að ljúka Duino-harmljóðunum sínum og í febrúar 1922 kom yfir hann fítonskraftur og hann lauk ekki aðeins harmljóðunum sem hann hafði verið að paufast með í áratug heldur setti einnig saman 55 sonnettur sem hann tileinkaði sjálfum Orfeusi. Þetta þarf þó ekki að koma á óvart því að skáld eru líkt og afreksíþróttamenn háð dagsforminu. Dag einn koma þjálfunin, þekkingin, þrautirnar og snilligáfan saman á gullnu augnabliki og fæða af sér listaverkið. Dolly Parton samdi sem kunnugt er tvö sín þekktustu lög sama daginn og það blasir við að eitthvað hefur legið í loftinu í Evrópu árið 1922. Ég las sonnettur Rilke núna í mars og síðan Duino-harmljóðin ásamt nokkrum gáfuðum og skemmtilegum höfundum og auðvitað veit ég ekki neitt og kann varla þýsku nema til hversdagsbrúks en finnst mér þó skilja Rilke betur en áður.
Harmljóðin fyrrnefndu voru samin handa velgjörðarkonu hans Marie von Thurn und Taxis-Hohenlohe (1855–1934) en önnur bréfvinkona hans var greifynjan Margot Sizzo-Noris-Crouy (1891-1977) sem hann ræddi við um sonnetturnar kenndar við Orfeus og kemur þar m.a. fram að 16. sonnettan er ort handa hundi sem hefði ekki hvarflað að mér hefði ég ekki lesið athugasemdir þýðanda aftast. Annars er Rilke fremur myrkur og heimspekilegur, stundum er næstum eins og maður sé að lesa Hávamál og ekki víst að ljóðin hljómuðu vel á öðrum tungumálum en þýsku sem hefur mikinn heimspekilegan slagkraft. Sérstaklega á þetta við um níunda harmljóðið sem er eins og bók eftir Heidegger en annars milda ljóðmyndirnar örlítið heimspekina.
Ég er almennt hrifnari af sonnettunum og eins harmljóðunum ef línurnar eru ekki of langar sem kunna að vera áhrif frá því að hafa alist upp við að njóta íslenskrar ljóðlistar. Þó að sonnetturnar eigi að snúast um Orfeus er sú goðsagnahetja ekki áberandi en þó augljós innblástur. Meðal þess sem Rilke yrkir um aftur og aftur eru samband manns og dýrs, náttúruna og hávaða sem hann virðist hafa verið mjög upptekinn af. Hann er að yrkja á 20. öld og þess vegna geta flugvélar eða loftnet birst í ljóðunum. Í áttundu sonnettu sem er einna kraftmest í upplestri má sjá dæmi um öll þessi áhugamál. Rilke hefur þar leikinn á orðstír og lofgjörð en fljótlega tekur sonnettan goðsögulegan snúning og brátt eru það þrárnar og gleðin sem kvæðin snýst um og þetta „alte Schlimme“ sem við sitjum uppi með. Mannsröddin birtist í lokin og það er í þessu nykraða myndmáli sem styrkur Rilkes liggur. Stundum hljómar hann vissulega eins og rímaður Heidegger en myndirnar fá iðulega að tala þó að einhver heimspeki og goðsagnaspeki séu á bak við.
Í annarri sonnettu lýsir Rilke reikulu mannkyni og afstöðu þess til tímans. Flýtirinn er óvinur mannkyns og eins flugið og hraðinn. Jafnvel fyrir hundrað árum höfðu skáldin áhuga á hraða og spennu og þau eru fleiri umfjöllunarefni sem virðast furðu nútímaleg, kannski vegna þess hversu fáar nýjar spennandi hugmyndir hafa komið fram síðan. Í annarri sonnetu ræðir hann þessar ósegjanlegu summur, „unsäglichen Summen“ og talar um að aflétta talningunni sem minnir svolítið á það sem Sigurður Nordal skrifaði um „samlagningu“ á svipuðum tíma. Eins og mörg ljóð Rilkes þarf helst að lesa þessa upphátt og enska þýðingin er því miður mun tilgerðarlegri og hefur engan veginn sömu snerpu. Eitt tungumál er alls ekki nóg.
Manni verður ljóst af því að lesa Rilke þó að ekki sé nema skamma stund að hann er heilt sérsvið og auðvitað blasir það sérstaklega við okkur sem erum fræðimenn á öðrum sviðum. Þess vegna get ég auðvitað fátt sagt um ljóð hans af viti þegar ég er varla byrjaður að lesa þau af viti, annað en að ég er feginn að hafa opnað þessa gátt. Iðulega skilur maður að María greifynja hafi skrifað skáldinu og heimtað skýringar á ýmsum ljóðunum. Ljóðheimur Rilkes er auðugur og stundum torskilinn en þó iðulega létt yfir sonnettunum miðað við t.d. Duino-harmljóðin kynngimögnuðu en stundum torræðu. Þar er torræð samfella fram að loka harmljóðinu þar sem hann er stöddur í heimi harmsöngvanna.
Áttunda harmljóðið tileinkaði Rilke austurríska skáldinu og heimspekingnum Rudolf Kassner og það þótti mér einna ljóðrænast og fjærst ræðustemmingunni. Kassner var þekktur fyrir að hafa þýtt William Blake á þýsku og hann átti einlæga aðdáendur, var t.d. tilnefndur þrettán sinnum til bókmenntaverðlauna Nóbels, en þó er hann lítt þekktur nú á dögum á meðan Rilke þykir sígildur.