Að þora að vera fúli karlinn
Þó að mann langi til að sjá í gegnum jafn vel metið og vinsælt skáld og Philip Larkin hefur sú ekki orðið niðurstaðan úr lestri mínum á ljóðum hans nálægt síðustu áramótum. Þvert á móti virðist Larkin vera þúsundþjalasmiður sem iðulega er ólíkur sjálfum sér innan síns fagurfræðilega ramma sem ég ræddi aðeins um daginn. Larkin var eins og áður sagði aðdáandi Hardy en munurinn er sá að Hardy stendur jafnan utan við umfjöllunarefnið og auk þess veldur reglubundið rímið því að erfitt er að taka hann of hátíðlega á meðan Larkin beitir rími af mikilli hind en þó sparlega eins og hann sé að fræða áheyrendur um að hann kunni þetta allt en kjósi að láta listina ráða forminu en ekki öfugt. Tökum þessa lýsingu á þeirri einföldu athöfn að vakna í „Midwinter Waking“.
Larkin vildi lýsa reynslu og að ljóðin sæktu kynngimagn sitt í hana. Við höfum öll vaknað og kannski ekki verið alveg viss um hvort við séum manneskja eða broddgöltur eins og hann lýsir í upphafi ljóðsins. Larkin nær áhrifum sínum ekki heldur með táknrænu myndmáli heldur með óvæntri orðanotkun eins og þegar hann segir að svefninn muni hleypa okkur úr skelinni [„unshell us“). Þetta er afar skiljanleg líking en þó fágæt. Annað einkenni Larkins var að hleypa hinu hversdagslega og jafnvel grófa inn í ljóð sín eins og í „High Window“ þar sem hann hleypir áður bönnuðum orðum inn í ljóðlistina, ekki ósvipað og Dagur gerði á Íslandi. Bæði að hann kallar ungmennin „kids“, notar grófyrðið „fucking“ og bætir svo hettunni við; þetta er ekki mjög rómantískt og ljóðmælandinn kemur fyrir sem gamall geðstirður dráttarklár.
En það er einmitt í þessu mjög lágkúrulega ljóði sem hið háleita skýtur upp kollinum eins og stundum gerist hjá Larkin þegar sjónum er síðan beint að háum glugga sem hleypir ljósinu inn. „Sun-comprehending glass“ er fallega orðað og tilvísunin til loftsins sem sýnir ekkert og er hvergi og er þó endalaust vekur eins konar von um að maðurinn megi sigrast á náttúrunni og komist handan sinna líkamlegu takmarkanna. Og allt þetta endalausa bláa loft hófst með krökkum að ríða!
En ljóðbygging Larkins getur líka verið frá ljósinu í myrkrið eins og í ljóðinu „Friday Night At The Royal Station Hotel“ þar sem lýst er tóminu sem ríkir á skyndilega yfirgefnum en annars fjölförnum stöðum. Sumum félögum mínum fannst ofgnótt í myndmálinu hér, náðu ekki að tengja við „loneliness of knives and glass“ en skólausu og oflýstu gangarnir og teppalagður kvöldmatarsalurinn vekja kennd sem allir kannast við. Yfirgefið hótel er sjálfsagt eyðilegra en flest nema helst málþing á lokadegi þegar allir eru ferðbúnir og keppast við að verða ekki síðastur burt og þurfa að lifa auðnina.
Það er víða hægt að leita fanga hjá Larkin en sérstaka ánægju vekur ljóðið „Born Yesterday“ sem ort var til dóttur vinar hans Kingsley Amis sem hann óskar að verði leiðinleg [„dull“) enda séu það ekki slæm örlög. Hann óskar litlu stelpunni að vera venjuleg og hafa hæfileika í meðallagi. Þetta er ekki hefðbundin eða rómantísk hylling til stúlku í ljóði en Larkin er skáld nýrra tíma og óhræddur við að sýna það.
Larkin er írónískur en þó ekki, hann fetar þröngt einstígi milli hins háleita og hins hversdagslega, notar gjarnan stutt orð, mildar líkingamálið með hversdagslegum setningum sem ættu heima í samtölum og jafnvel stundum í popptextum. Hann horfir til himins en tekur líka fram að hann hafi verið á leiðinni að pissa þegar hið háleita helltist yfir hann og hugsar til skiptis um tunglsljós og sjálfsvorkunn.