Vesturför Winslets

Ég var í einkennilegri sorg þessi jól þó að enginn hafi dáið nema flokkurinn sem ég studdi í 25 ár, en líklega var þetta aðallega sorg miðaldra mannsins sem senn er ótvírætt gamall, hefur lifað meira en helft þess tíma sem honum er skammtaður og sennilega allmiklu meira. Þess vegna horfði ég á margar jólamyndir og meðal annars Jólafríið (The Holiday) með Kate Winslet og Cameron Diaz; hún er vitaskuld væmin eins og jólamynd á að vera en samt greindarleg, raunar sennilega ein greindarlegasta jólamyndin ásamt Die Hard og Jólaævintýri Prúðuleikaranna. Meðal annars leikur hinn eldforni leikari Eli Wallach aldursstaman handritshöfund í Hollywood. Sjálfur var Wallach einmitt ekki Hollywoodgaur heldur þvert á móti New York gaur og menntaður af Lee Strasberg þannig að hann er alls ekki að leika sjálfan sig en þó örugglega manngerð sem hann hefur þekkt vel.

Bíómyndin nýtur þess að hafa afar aðlaðandi og góða leikarafernu í aðalhlutverkum: Kate Winslet, Jack Black, Jude Law og Cameron Diaz. Þau standa sig öll vel og fléttan er bæði einföld en gefur þeim samt tækifæri til að sýna hvað í þeim býr. Flétturnar eru skondnar frekar en fyndnar og konurnar eru fremri körlunum; það er annar taktur á þessari mynd en hinni göslaralegu Love Actually. Kate Winslet er augljóslega mun fremri leikkona en Cameron sem er samt mjög fín miðað við bandarískar leikkonur af þessari kynslóð. En Winslet er einfaldlega eitthvað annað og meira og hennar verður eflaust minnst svipað og Maggie Smith þegar hún geispar golunni eftir marga áratugi, sennilega löngu á eftir mér. Hún er líka konan sem myndar tvenns konar tengsl í þessari sögu, bæði við Wallach og Black.

Eiginlega finnst mér fuckboi-inn sem Rufus Sewell leikur samt besta persóna myndarinnar því að það er svo skiljanlegt að það sé erfitt að jafna sig á honum sem er sjaldgæft í kvikmyndum sem hneigjast til að greina milli góðs og ills af ákefð og illu elskhugarnir svo leiðinlegir að áhorfandinn hlýtur að spyrja eins og Ómar: „Af hverju trúlofaðistu honum?“ (ég læt íslenskar þáttaraðir hér ónefndar). Fyrir utan leikaravalið er ekkert frábært við myndina en henni hefur samt tekist að verða sígild og er enn á dagskrá allra norrænna sjónvarpsstöðva öll jól síðan og þess vegna sá ég hana núna rétt fyrir jól, greip eitt tækifæri af fjölmörgum. Henni lýkur á öllum fjórum að dansa í þrönga enska húsinu ásamt litlu stelpunum sem Jude er látinn eiga og kannski er það laumulegi boðskapurinn: að þröngir enskir kofar séu þrátt fyrir allt betri en risavaxnar og tæknilega fullkomnari Hollywoodhallir.

Previous
Previous

Ofreiði afinn

Next
Next

Að þora að vera fúli karlinn