Aldin út er sprungið

Hinn vestræni maður nútímans kann að vera fyrsta mannveran í sögunni sem telur sig hafa val um eigið eðli og um leiðir til betrunar. Eftir að valkostir við samfélagskerfi auðhyggjunnar virtust horfnir jóx sjálfsmyndarpólitík ásmegin og áherslan á virka sköpun sjálfsins. En líkt og með önnur forréttindi fylgir kvöl hverri völ. Ræður manneskjan við það verkefni að eiga peninga og valkosti? Ekki virðist það niðurstaða Succession sem ég er nýbúinn að sjá – en hvað finnst hinum snjalla Mike White um trúarbrögð, sjálfsmyndir og betrunarþörf nútímamannsins? Eins og margir sem þekkja mig og lesa þessa síðu vita varð ég aðdáandi þáttanna um Hvíta lótusblómið fyrir tveimur árum þegar ég sá þá fyrst og aldrei kom annað til greina en að horfa á þriðju þáttaröðina þetta vor. Þar kemur til fagurfræðileg aðdáun á White sem er sannur arftaki raunsæishöfunda 19. aldar sem aldrei lá á og tóku sinn tíma að kynna persónur rækilega til að vekja endalausan áhuga lesenda á örlögum þeirra — og kannski líka rómantískra skálda því að White er umhugað um tákn (sbr. myndina af systkinunum þremur að neðan hvert með eitt skilningarvit hulið) og í þessari syrpu um „transcendenz“-hugtakið (sem er illþýðanlegt). En líka trú á honum sem lunknum samfélagsgreinanda; hann er núna sá sem fær mig til að horfa á sjónvarp af sömu athygli og ég veiti Njálu. Líka vegna þess að hann og lið hans ætlast beinlínis til þess. Þættirnir eru fullir af lítt sýnilegum en mikilvægum smáatriðum og vegna þess að White er á 19. aldar hraða höfum við tíma og næði til að velta þeim fyrir okkur (sem gleður suma áhorfendur en ekki þá eirðarlausu).

Þættirnir um lótusblómið einkennast ekki af óvæntum snúningum enda er það ekki tilgangurinn. Leiðin liggur ekki fram og til hliðar eins og hjá riddara í skák heldur á bólakaf niður. Spennan í þáttunum felst í næstum óumflýjanlegri og viðbúinni framrás atburða sem er búið að veifa góða stund framan í okkur, líkt og maður sé að missa fótanna í ísbrekku og renna hægt en örugglega ofan í vökina fyrir neðan. Ég kann vel að meta hinn kanadískmenntaða Cristobal Tapia de Veer og sveiflukennt kynningarlagið varð smám saman nýjasta uppáhaldslagið mitt. Nýja þáttaröðin gerist í því mikla ferðamannalandi Thailandi, hinsta athvarfi sköllótta hvíta eldri karlmannsins á flótta undan eigin smæð (svokallaðir „losers back home“) og við fáum að sjá ýmsar tegundir ferðamanna, allt frá áströlskum ekkjum í tilboðsferð til fjölda ríkra en óásjálegra karla, Vesturlandabúanna sem fá að lifa drauminn um að vera alheimsyfirstétt með mun yngri konum sem þeir hafa á einhvern hátt keypt (sumar á að giska 26 ára og sirka 45 kíló). Syrpan er ívið dekkri en þær fyrri og húmor ekki notaður jafn mikið til að milda hinn myrka boðskap þó að Suðurríkjahreimur Parker Posey sé eitt það fyndnasta í sjónvarpi ársins 2025 og þátturinn er talsvert launfyndinn, batnar við annað áhorf.

Þetta tiltekna White Lotus hótel hefur tekið betrunar- og heilnæmisiðnaðinn föstum tökum með forna Ellý Vilhjálms heimamanna í broddi fylkingar. Ýmsar spurningar vakna um viðleitni nútímamannsins til að finna sjálfan sig, breyta sér og skilgreina sig. Loksins höngum við ekki lengur á horriminni og hvað gerum við þá? Hvíta lótusblómið í heild sinni snýst aðallega um Bandaríkjamenn, tákngervinga hins innihaldslausa auðs og afgerandi siðferðisdóma. Fólk sem lifir betra lífi en kóngar og keisarar fyrri alda eins og ein persónan segir. Geta þeir orðið beinni í baki eða jafnvel bætt sig andlega með aðstoð austurasískra meðferðarúrræða? Sem fyrr koma þrír gestahópar til fjarlægs hótels: þrjár fornvinkonur sem hafa farið hver sína leið og reynast dómharðar hver í annarrar garð og fjölskylda sem reynist hafa fleira við að glíma en lokaritgerð og val á háskóla, auk pars þar sem karlinn er mun eldri en konan, er sá dóni að reykja eins og strompur og virðist í fyrstu talsvert neikvæður miðað við að hann er mættur í dýrt frí með kornungri kærustu sem reynist honum talsvert jarðtengdari þó að hún aðhyllist dýrahringinn og ósköpin öll af svipaðri speki. Fer flókið valdatafl fram í hverjum hóp sem þátturinn veitir okkur hægt og rólega innsýn í. Auk heldur birtist Belinda úr fyrstu syrpu aftur og rekst óvænt á Greg sem nú heitir Gary, manninn sem spillti fyrir henni fjárstuðningi forríku leitandi konunnar (og reyndi síðan að láta myrða hana í syrpu 2). Hún stendur að lokum frammi fyrir erfiðu vali og vona þá áhorfendur innilega að hún velji sjálfa sig.

Nýja hótelið er umlukið gróðri sem skapar meiri innilokunarkennd en í fyrri syrpunum. Gestirnir reynast líka innilokaðir á margvíslegan hátt í eigin sjálfsmati, ímyndarsköpun og erfiðum samböndum við sína nánustu. Þættirnir eru að jafnaði einn dagur en þó þarf stundum tvo þætti til að ljúka deginum. Sem fyrr er margt ósagt og erfitt að draga ályktanir um neitt fyrr en í lokin. Í upphafi eru mest áberandi fjölskyldufaðirinn sem virðist vera að missa auðkýfingslíf sitt úr höndunum og á leið í fangelsi fyrir að hafa tekið þátt í peningaþvætti og á hinn bóginn sá fúllyndi með ungu kærustuna, augljóslega með kolsvarta fortíð á herðum og í illum leiðangri sem varðar eiganda hótelsins. Þá nota vinkonurnar þrjár hvert tækifæri til að baktala þá sem yfirgefur hópinn hverju sinni. Ein drekkur um of, önnur er í misheppnuðu hjónabandi með ungum fola og sú þriðja er orðin Trump-kjósandi (allar helstu syndir nútímans). Eins eru fullorðnu systkinin þrjú (Saxon, Piper og Lochlan sem eru stórkostleg nöfn) í áköfu valdatafli þar sem þau eldri tvö togast á líkt og yin og yang um sakleysislega litlabróðurinn sem vill gera öllum til hæfis. Eldri sonurinn Saxon (leikinn af Patrick Schwarzenegger sem í móðurætt er Kennedy og það hefur sennilega þematískt mikilvægi) beitir kynlífstali til að máta systkini sín og stjórna en hinn að því er virtist auðsveipi og næstum ósýnilegi allravinur Lochlan rænir því frumkvæði af honum um miðbik þáttarins og var kannski við stjórnvölinn allan tímann án þess að neinn nema hann vissi það enda kunnáttumaður í sjónhverfingum. Drjúgur hluti áhorfenda mun aldrei líta sakleysislega litlubræður sömu augum.

Í Lótusblómið skortir ekki fallíska orku en undir öfugum formerkjum en alla jafna því að hér hefur Mike White ákveðið að vinna gegn iðulega hugsunarlausu en þó kerfisbundnu góni á kvenlíkamann í sjónvarpi með öfugri reglu þannig að nánast hver einasti karlkyns aðalleikari kemur nakinn fram en konurnar síður. Eins eru opinskáar hómóerótískar senur í öllum syrpum vegna þess að hans lögmál gilda; það er heilmikill imbalans að leiðrétta hér í báðum tilvikum. Þetta reynist mörgum bandarískum áhorfanda erfitt — enda hafa þeir breitt út það bernska viðhorf að morð, ofbeldi og eiturlyfjaneysla séu skemmtun góð en allt kynlífstengt fremur hræðilegt — eins og sá er þetta ritar fann út við að lauma sér í aðdáendasíðu þáttarins á bók féssins en Lótusblómið nær nú til æ fleiri og líka þeirra sem skilja kannski ekki hvers konar saga er á ferð. The White Lotus er drama en ekki ráðgáta þó að talsverð spenna felist í þeirri ógæfu sem vomar yfir viðkvæmum og meingölluðum persónunum sem okkur er ekki sama um. Kannski er þessi syrpa sú besta vegna þess að hér bætist betrunarþörfin og trúin við kynlífið og peningana og stéttaskiptingu alheimshagkerfisins sem ferðalög draga fram. Þemun úr fyrri þáttum hverfa þó alls ekki heldur blandast við nýja þemað sem vekur spurningar um hvort þetta sé ekki allt nátengt, ástarþörfin, valdaþörfin og sjálfsmyndin.

Ásamt upphafsatriðinu sem gerist á lokadaginn (eins í öllum syrpunum) er tónlistin (sum endurtekin úr fyrri syrpum) lævíslega notuð til að fá okkur til að vera full eftirvæntingar nokkurn veginn stanslaust. Þátturinn er lunkinn, í einum þætti eiga systkini hljóðlaust samtal við matarborðið sem segir okkur samt allt um samband þeirra og gremju. Í öðrum merkir misjöfn þekking persóna á því sem er í vændum að í raun renna tvö samtöl saman í eitt. Allt sem ættmóðirin Victoria Ratliff (Parker Posey) segir er svo einkennilega á skjön að maður veltir fyrir sér hvað henni finnst í raun. Framan í okkur er veifað ýmsum Tjekov-byssum, frá pong pong ávexti yfir í raunverulegar byssur. Hin markvissa stígandi er notuð til að láta okkur skilja hvað er undir hjá hverjum og einum áður en svakalegu atriðin hefjast en ekkert skortir á þau. Spurningin um sifjaspell vaknar í fimmta og sjötta þætti, seinasta tabú nútímans. Hún er áhugaverð fyrir mig sem einu sinni átti nágranna sem voru mæðgin en höfðu átt barn saman. Í þessu tilviki er það eldri bróðirinn sem hefur hingað til drottnað yfir systkinum sínum með óviðeigandi kynlífstali sem verður óvænt fórnarlamb eigin áróðurs og er að vonum sleginn út af laginu eftir að hann fær öðruvísi „happy ending“ en hann grínaðist með áður; hrun hans „Kennedy-bro“-sjálfsmyndar er eitt það áhugaverðasta við syrpuna en líka spurningin um hvað sifjaspell séu og hvaða afleiðingar það hafi að rjúfa bannið. Sjónum er líka áfram beint að sambandi Ameríku og annarra heimshluta. Margir hinna fátækari eru falir í þessum heimi en er hægt að kaupa allt? Eða millifæra með Paypal eða Zelle?

Fyrri tvær syrpurnar hámhorfði ég á eins og flest efni nútímans en nú horfði ég á þátt á viku eins og forðum daga og ræddi þá við aðra í millitíðinni. Þó að ég sé orðinn forhertur hámhorfandi fannst mér þetta gefandi og maður verður margs vísari, líka um aðra áhorfendur. Eftir þau samtöl finnst mér að það hafi ekki síst verið andvana draumar persónanna sem voru undir í þetta sinn: um að verða búddisti eða söngvari eða lífvörður eða finna bara einhverja sjálfsmynd, slá aftur í gegn á gamals aldri, fara í bisness, ná fram síðbúnu réttlæti og svo auðvitað er leitin að ást aldrei fjarri en ekki mikið pláss fyrir hana í heimi hraða og spennu. Erum við kannski bara apar (þeir eru áberandi í þættinum en spurningunni var raunar varpað fram í fyrri syrpu) án draumanna? En draumarnir snúast ekki síst um manninn sem félagsveru. Hvers virði eru forn vinasambönd og hvað gera drengir sem þrá athygli eldri systkina sinna? Drjúgur hluti gestanna reynist í mikilli vörn sem kemur jafnvel fram í líkamsstöðunni. Við hljótum að velta ítrekað fyrir okkur sekt og sakleysi þegar kemur að gjörðum þeirra. Miðaldrakvennatríóið í þessari syrpu er eitt það besta við hana og hvernig samband þeirra virðist ætla að leysast upp eftir því sem gamlar ýfingar koma upp á yfirborðið, þær verða yfirkomnar af þörf fyrir uppgjör hver við aðra en ég setti þó snemma fram þann spádóm að þær yrðu áfram vinir vegna þess að ég er gamall og veit hvernig langvarandi sambönd virka. Í þessari átakasögu leika rússneskar afætur sitt hlutverk, líkt og í Anora er austur-evrópska stórveldið aftur orðin óvinarímynd en kannski aðeins flóknari en áður.

Kannski glyttir í hjarta þáttarins í ræðu aukapersónu í miðri syrpu, gömlum vini hins hefndarþyrsta en ráðalausa Ricks (sem maður byrjar á að þola ekki en réttir sig aðeins við eftir sem sögunni vindur fram) sem hann hittir í Bangkok. Sá virðist eiga sér dökka fortíð og er leikinn af sjálfum Sam Rockwell (leikarinn sennilega að fylgja konu sinni sem leikur í þættinum og hárgreiðslan minnir næstum óþægilega á formann Sjálfstæðisflokksins). Þeir sitja á hótelbar og vinurinn fer að ræða glímu sína við eigin kynlífsfíkn við forviða Rick og meðal annars eigin löngun til að verða asísk stúlka. Þetta er langt samtal og að lokum eintal um skilgreiningarþörf og sjálfsmynd þessa dularfulla Vesturlandabúa í Bangkok og úr takti við hraðar skiptingar þáttarins en líklega áhrifameira þess vegna. Það merkilega við þá óvæntu ræðu sem fjallar á sinn hátt um „transcendenz“ er kannski ekki hún sjálf heldur að karlmaður segir öðrum manni svo viðkvæma hluti og þar með skapast trúnaður sem er ekki síður innilegur en þegar litli bróðirinn kyssir stórabróður sinn skömmu síðar og lætur ekki staðar numið þar í viðleitni sinni í að verða sporgöngumaður systkina sinna, þess andlega og þess kjötlega. Leitin að „transcendenz“ er stundum samofin við leitina að ást og inn í það blandast vonin um að siðferði, peningar og völd geti á einhvern hátt komið fólki á hið eftirsótta æðra stig.

Ofbeldi (og afneitun þess) skiptir líka talsverðu máli í þættinum (og í blóðþyrstum viðtökum hans). Eina persónuna dreymir um að verða lífvörður en á kannski ekkert erindi í það starf, öfugt við hina skuggalegu lífverði hóteleigandans eða kátu rússnesku smáglæpamennina. Í syrpunni er sjónum líka beint að trúarbrögðunum (búddismanum og kristinni trú) sem snúast að sínu leyti um umbreytingu þar sem hinn sanni kjarni mannsins er það sem leitað er. Ein persóna hefur verið kórdrengur og sungið hinn fræga sálm „Es ist ein Ros entsprungen“ sem líklega er frá 15. öld og við tengjum núna við jólin (sjálfur Matthías samdi íslensku gerðina). Sá sálmur fjallar um endurholdgun hins guðlega í manninum Jesú sem hefur sannarlega vægi fyrir manninn sem sjálfur er skapaður í Guðs mynd samkvæmt Biblíunni og er notaður á áhrifamikinn hátt tvisvar í syrpunni. Er Guðs mynd líka nálæg í bróðurást Lochlans, afneitun Gaitok á ofbeldi eða draumi Franks um að finna asísku stúlkuna innra með sér? Hversu langt göngum við til að verða elskuð eða flýja sársaukann sem þó er ekki hægt að flýja?

Líkt og í 200 ára gömlum rómantískum skáldskap snýst aðalspurningin um „transcendenz“; á mannveran möguleika á að hefja sig upp yfir takmarkanir síns auma lífs? Eftir hverju sækist fólk sem gengur í klaustur? Sem fer í kirkju á sunnudegi? Sem tekur þátt í kór? Sem reynir að borða ekki kjöt eða drekka ekki vín? Sem hefur næga peninga til alls eða nægan „charisma“ til að stjórna öðru fólki? Sem menntar sig í bókmenntum og listum og fær mikla útrás fyrir alls kyns tilfinningar með því að kynnast vel skrifuðum persónum og örlögum þeirra á lúxushóteli í eina viku? Allt eru þetta tilraunir til að ljá lífinu merkingu fremur en að láta sér nægja að deyfa sársaukann með lórazepam (einni mikilvægustu persónu þessarar syrpu Lótusblómsins) og áfengi, en hver reynir að finna eigin flóttaleið frá angistinni í þriðju syrpu sögunnar um Hvíta lótusblómið sem reynir að skemmta áhorfendum en segja þeim líka sitthvað áhugavert um sjálfa sig. Hún vekur stundum upp fleiri spurningar en svör en það er helsti kostur hennar — við fáum ekki „lausn“ á öllum þessum flækjum í lokin en nokkrar persónur fundu að lokum það sem þær leituðu eða lærðu eitthvað um sig sjálfar (býsna góður árangur á vikuferðalagi) og a.m.k. ein sá Guð fremur óvænt.

Previous
Previous

Gys og grímur

Next
Next

Til hamingju með daginn, Tom!