Krónos át börnin sín
Þegar hinn aldurhnigni Lér konungur efndi til spurningakeppni milli dætra sinna um hver ynni honum mest fór það hræðilega illa. Eins er með ástlaus og þurfandi börn hins ellimóða þyrlu- og þotufljúgandi auðkýfings Logan Roy, lykilpersónu Succession, verðlaunasjónvarpsþáttar hins breska Jesse Armstrong sem kynnti mig fyrir „nýja húmornum“ í Peep Show fyrir 15-20 árum eða svo. Strax í fyrstu tveimur þáttunum kemur í ljós að Armstrong er drepfyndinn sem aldrei fyrr og húmorinn liggur bæði í persónusköpuninni og stundum ólíkindalegum samræðunum. Hæst hló ég samt þegar elsti sonur Roy upplýsir að hann hafi neyðst til að fljúga heim í áætlunarflugi vegna þess að allar einkaþotur voru uppteknar og Logan blöskrar aldrei þessu vant og biður soninn afsökunar sem hann ella er jafn ófáanlegur til að gera og Hrafnkell Freysgoði forðum (já, Succession er endurgerð Hrafnkels sögu).
Handritið er helsta ástæðan til að horfa á alla 39 þættina, það er einstaklega lipurt og eftirminnilegar samræður og setningar í hverjum þætti (Kieran Culkin og Nicholas Braun fara með 90% af þeim bestu) þannig að jafnvel þó að margt í þættinum sé heldur óskemmtilegt, t.d. hinn endalausi hanaslagur um peninga, völd og áhrif yfir engu sem máli skiptir, þá er þetta samt fagurfræðilega sambærilegt við að horfa á Ingmar Stenmark í stórsvigi í skíðabrekkunni forðum. Þó að það dragi mann að þættinum í byrjun hversu kátlegur og sniðuglega saminn hann er, fer fljótlega að koma upp úr kafinu hversu sorgleg fjölskyldan í sjónmáli er þrátt fyrir öll sín auðæfi og forréttindi sem færa þeim einstök lífsgæði (eins og ein persónan segir: „It's like being a superhero, only better“) og einkum eftir að eyðandi átökunum um völdin vindur fram. Sérstaklega hrjáður er fíkillinn Kendall sem átti að vera erfingi Logans en fær óvænt ekki að taka við arfi sínum í fyrsta þætti og gerir síðar margítrekaða en jafnan misheppnaða uppreisn gegn föðurnum líkt og margir prinsar fyrri alda. Ekki fækkar þeim böggum sem hann þarf að bera eftir því sem sögunni vindur fram.
Sjálfur reynist Logan Roy vera kaldlyndur harðstjóri (eins og sonur hans segir eitt sinn opinberlega: „a malignant presence, a bully, and a liar“) sem hefur pönkast alla ævi á eigin afkvæmum sem hann etur endalaust saman og eru meira og minna skemmd, ekki síst synirnir. Peep Show var á sinn hátt lunkin rannsókn á 21. aldar karlmennsku og það er þessi þáttur líka. Karlarnir í Roy-fjölskyldunni eru hræðilega illa farnir og jafnvel lífshættulegir fyrir alla sem nálægt þeim eru, ekki síst synirnir Connor, Kendall og Roman Roy sem hafa glímt við alls konar vanda með hin og þessi mislögleg fíkniefni að vopni og glíma enn, á milli þess sem þessir tveir yngri máta sig við alheimsforstjórastólinn og sá elsti sem þó hefur aldrei unnið neitt mátar sig við annan enn merkari sess — hvað gæti verið vandasamara en að vera borinn til auðs og valda? Nýju mennirnir í fjölskyldunni eru svo hrærigrautur af ragmennsku, sjálfsvorkunn, tortryggni og fleðulátum, ekki síst væntanlegur tengdasonur Logans, mömmudrengurinn Tom sem er eins ólíkur Mr Darcy og hugsast getur þó að Matthew Macfadyen hafi vissulega leikið báða á sannfærandi hátt. Dóttirin Shiv virðist í fyrstu hafa komið aðeins betur út en þegar Logan fer að leika sér að henni líka fara brotalamirnar að koma æ betur í ljós.
Þetta er nefnilega frekar brútal sjónarspil þrátt fyrir ómælda kímni og einhvern veginn fer maður að vorkenna þeim mest sem fyrst virtust hvað verstir. Kvikmyndatakan í þáttunum er með listrænum blæ og nútímaleg, kvikmyndavélin iðulega á ferð og flugi þannig að hrái fréttamyndastíllinn nær að læðast inn og er það viðeigandi í þáttum um fréttaeigendur. Hin áleitna þematónlist í þáttunum eftir Nicholas Britell sem líka semur tónlistina við spútnikþáttinn Andor (Britell er ekki breskur þrátt fyrir nafnið) vekur með manni sterka kennd um að eitthvað hræðilegt muni gerast; hún lifir góðu lífi í kollinum löngu eftir þáttinn. Gömlu myndirnar af Roy-börnunum á ungum aldri sem fylgja henni í kynningunni ljá þessari óheillasögu nánast tragíska vídd líkt og aðeins gamlar myndir af börnum fá áorkað. Ekki dregur úr því þótt handritið sé fullt af kostulegum samtölum og setningum; þetta er samt saga um fólk sem er við það að drukkna í óhamingju og berst fyrir lífi sínu eða jafnvel sálarheill. Þau eru sídrekkandi, síbölvandi og andstyggileg hvert við annað milli þess sem þau mynda tímabundin bandalög oftast til að klekkja á öðrum í fjölskyldunni. Fyrir utan standa hinn getulausi Connor og Ewan, hinn móralski, óánægði en á endanum hræsnisfulli bróðir Logans. Þar fyrir utan er dásamlegt sett af nokkurn veginn eðlilegum óblóðskyldum aukapersónum eins og hinni sínálægu Gerri sem er skynsöm eins og vinur minn smaladrengurinn í Hrafnkels sögu og á köflum fulltrúi sannleikans líkt og Hallbera í Urðarseli (svo að ég falli í þá freistni að vitna í sjálfan mig) og þær fá okkur til að týnast ekki alveg í geðveiki aðalpersónanna.
Fyndni þáttarins er bæði í orðum og líkamstjáningu og er á engan hallað þó að þess sé getið að Kieran Culkin rísi þar hæst, hann sem fyrir fáeinum árum var fyrst og fremst þekktur sem litlibróðir fallinnar barnastjörnu þó að við sem sáum Igby Goes Down fyrir 20 árum höfum auðvitað lengi vitað hvað hann getur. Síðan var Kieran hálf ósýnilegur lengi áður en hann tók að sér hinn niðurbrotna en mælska gúmmítöffara Roman Roy sem er stöðugt með heimatilbúna orðskviði, grín og grófyrði á vörum og leikur þennan þversagnakennda pabbadreng af svo brothættum krafti að ég er sannarlega að fara að horfa á óskarsverðlaunamyndina hans. Allur hans metnaður springur ítrekað í loft upp í flugtaki, líkt og gervihnötturinn sem hann eyddi miklum tíma og vinnu í að koma á flug.
Roman á greinilega afar erfitt með líkamlega nánd og kynlíf þó að hann ræði stöðugt um sjálfsfróun og er orðinn ívið sterílli en Hrútur í Njálu nema helst þegar honum er úthúðað harkalega (einkum af Gerri). Smám saman kemur hálfvegis (en aldrei fullkomlega) upp úr kafinu linnulaust einelti föðurins og annarra í garð Romans í bernsku (m.a. um leik sem gekk út á að loka hann inni í búri) sem hann er þó ófús til að horfast í augu við og kennir sjálfum sér um enda er glaðhlakkalegt sjálfstraust hans gervi sem ekki dugar í nálægð föðurskrímslisins (sem eitt sinn slær hann en Roman lætur eins og það hafi ekki gerst) og hann lyppast ítrekað niður eins og barinn hundur andspænis Logan þegar mest á reynir (sbr. orð hans: „I don't know. I fuckin' love money, but I'm really scared of you“), jafnvel þegar gamli maðurinn er látinn. Kieran Culkin var fæddur til að leika þetta hlutverk, heppinn að vera á góðum aldri þegar heimurinn hefur virkilega uppgötvað brothætta manninn.
Ég hef lengi verið aðdáandi hins álkulega Nicholas Braun og það gladdi mig að sjá hann í hlutverki jaðarmannsins Gregs Hirsch sem er hálfgerður sjónbeinir (fókalisator, hefði Genette sagt) í þessari ormagryfju. Persóna Gregs nýtur þess hversu hávaxinn Braun er og meistari hinna kauðslegu hreyfinga — í þriðju syrpu játar hann á sig mikinn ótta við fangelsi vegna þess að „I just feel because of my physical length, I could be a target for all kinds of misadventures“. Greg tekur ævinlega undir allt sem aðrir segja og er ófeiminn að smjaðra hömlulaust og purkunarlaust fyrir valdinu en er líka iðulega skemmtilega opinskár um eigin líðan og meistaralega síhræddur á svipinn, m.a. þegar hann talar við sjálfan sig til að róa sig niður (t.d. þegar hann umlar „This one goes away, and this one saves the day“ í lykilatriði fyrstu syrpu) og hefði verið freistandi að gera hann að fulltrúa okkar þessara venjulegu í þessum heimi.
En strax í upphafi fyrsta þáttar nær Greg uppdópaður að gubba út um augu hundsins Doderick sem er eins konar Mikkamúsfígúra í Disneylandgörðum fjölskyldunnar og þegar hann hittir Logan fyrst tekst honum að koma orðunum „suboptimal“ og „perspicacious“ inn í samtalið án þess að blikna (minnir að því leyti á Moiru í Schitt’s Creek); mörg gullkornin á hann síðar enda fulltrúi hinnar norrænu átakafælni og virðist iðulega afar ótilbúinn til að tjá sig skiljanlega eins og sést þegar hann er kallaður fyrir þingnefnd og fer að blaðra dásamlega. Greg verður að „prügelknabe“ (þið flettið þessa bara upp) fyrir Dickensfígúrúna Tom sem fyrir utan að vera arftaki Pecksniffs og Uriah Heep tekur líka að sér að vera lífsstílskennarinn hans (og ógnar honum endurtekið með setningunni „You can't make a Tomlette without breaking some Greggs“) en við vitum sennilega allan tímann að Greg er meira undir sig en þetta; honum tekst líka á einstakan hátt að sameina það frá upphafi til enda að vera í senn óvenju hreinn og beinn en líka óvenju undirförull svikari.
Strax í fyrsta þætti eru svik meginefni þáttarins, loforð sem eru svikin („á gengust eiðar, orð og særi“) og í kjölfarið fleiri blekkingarleikir, meinsæri, svikræði, vélræði og tilræði sem kalla á að hjón skilji, bræður og systur berjist og ödipusarkomplexar fái útrás. Önnur þemu eru styrkur, drápseðli og spilling sem nær ekki aðeins til viðskiptalífsins heldur beinlínis hjartans og sálarinnar eins og fram kemur strax í lok fyrstu syrpu þegar a,m.k. tveir bræður yfirgefa brúðkaup systur sinnar með mannslíf eða limlestingar á samviskunni, ekki vegna illsku heldur gáleysis og skeytingarleysis um allt nema eigin vímu og pabbakomplex. Þetta er vissulega svart en hversu mörg eru ekki dæmin um slíkt fólk sem kemst til áhrifa? Það versta er að almenningur hefur síðan engar forsendur til að vega neitt og meta enda söguhetjurnar í þessu tilviki beinlínis fólkið sem stjórnar fréttunum. Skil ekki hvernig nokkur getur vitnað óírónískt í frétt sem hefur séð þennan þátt.
Ekki þarf mikið menningarlæsi (eða þekkingu á Fitzroy-ættunum) til að bera kennsl á ættarnafnið Roy og heiti þáttarins tekur enda af öll tvímæli um að hér er konungasaga á ferð og ólíkt því sem gerist í Krúnunni er þessi konungsætt ekki aðeins upp á punt heldur valdamikil í nútíma þar sem völd snúast ekki síst um að ráða fjölmiðlum og sögunum sem þeir mata fólk á. Þannig að lestur Morkinskinnu og Sverris sögu er góður undirbúningur fyrir þáttinn. Aðdáendur grísk-rómversku menningarinnar fá líka nóg fyrir sinn snúð með reglulegum vísunum í díadokana (auðvitað), Neró, Trójuhestinn og fleira. Að sögn ætlaði Armstrong upphaflega að gera heimildarmynd um dólginn Rupert Murdoch og hugsanlega er það ástralsk-bandaríska fyrirbæri eins konar fyrirmynd en um það hugsar maður sem betur fer ekkert — þó að líkt og hann segist Logan vera sá sem „veit hvað fólk vill heyra“. Mér finnst liggja beinast við að hugsa um hann í tengslum við fornar goðsagnir um barnaétandi foreldra sem ég hef líka skrifað um.
Í mörgum þáttum er fjölskyldan öll samankomin á einum stað af einhverju tilefni, hvort sem það er fyrirtækjaskýjakljúfurinn, meðferðarstöð, búgarður, hótel, eða lystisnekkja og tilefnið brúðkaup, afmæli, minningarathöfn, Doha-fundur eða þakkargjörðarhátíð og við fylgjumst þá með endalausum mini-einvígjum milli þeirra sem draga fram eðliseiginleika hvers og eins. Þetta skapar ívið meiri einingu en í hefðbundnum margpersónaþáttum þar sem mörgum sögum fer oftast fram í einu; hér er yfirleitt ein meginsaga í gangi. Það er líka fyrsta flokks stígandi í þættinum og lokaþættir hverrar syrpu eru æsispennandi með óvæntum snúningum eins og í gallhörðustu spennusögum sem skilja áhorfandann eftir hálfdofinn yfir ósköpunum, líka vegna þess að Armstrong og meðhöfundar hans kunna þá list að láta okkur hafa samúð með afar gölluðum persónum sínum, ekki síst þegar þær eru hvað ömurlegastar.
Ætti ég að kalla Logan Roy Mefistófeles eða Machiavelli? Niðurstaða þáttarins er því miður sú að patríarkinn sé hvorttveggja, meistari í því að kúga, blekkja, gaslýsa, deila og drottna og þar af leiðandi maður sem slær í gegn verðskuldað að öðru leyti en siðferðislega, líkt og Hrafnkell Freysgoði og Dzúkasvíli heitinn. Börnin hans eru aftur á móti gagnslaus vegna allrar þessarar kúgunar, ekkert þeirra kann neitt fyrir sér í undirferli eða svikráðum þó að þau langi vissulega til þess og þau eru dæmd til að tapa fyrir honum aftur og aftur vegna þess að þau einfaldlega vantar veraldarklókindin; vissulega hafa þau þjáðst og reynt ýmislegt en eru þó álíka takmörkuð og fugl í búri [„You are not serious people“ segir Logan við þau að lokum og ég get ekki verið ósammála því). Þannig að við sem höfum reynslu af því að vinna með vanhæfu fólki stöndum okkur stundum að því að halda pínulítið með Logan einfaldlega vegna getuleysis krakkanna. Þetta eru alls ekki góð tíðindi fyrir erfðakonungdæmi en miðaldasagnfræðingar voru s.s. löngu búnir að segja okkur þetta.
Þó að kóngurinn Logan virðist vera að skilja við strax í þætti 2 og sé stundum eftir það við dauðans dyr deyr hann ekki fyrr en í 33. þætti og þá eiga börn hans (einkum Roman) afar erfitt með að taka þeim tíðindum á yfirvegaðan hátt þó að þau hafi meira og minna verið hætt að tala við hann. Líkt og í öðrum konungsríkjum er valdabaráttan hafin áður en líkið er komið á spítala og samstaða alsystkinanna Shiv, Roman og Kendall er vitaskuld skammlíf. Þau eru óneitanlega svolítið eins og barnabörnin sem skrifa heila minningargrein um pönnukökur ömmu sinnar, hafa aldrei beinlínis hugsað um karlinn óháð sér og dauði hans snýst því eðlilega um þau. Að sjálfsögðu þurfa þau síðan líka að takast (engan veginn fumlaust) á við alla hirðina (með Gerri, Frank, Tom og Karl í broddi fylkingar) og vitaskuld líka hákarlana fyrir utan fyrirtækið (einkum Alexander Skarsgård í hlutverki afar sannferðugs norræns peningahyggjumanns) og flest það fólk er þeim auðvitað talsvert snjallara þannig að þetta getur aðeins farið á einn veg og ekki nepókrökkunum í hag. Sá allra klárasti og jafnframt ófeilnasti í listinni að lifa af stendur síðan auðvitað uppi sem kóngur í lokin.