Skáld garðahlynsins
Ég hafði aldrei heyrt Charlotte Mew getið þegar stórskáldið vinkona mín stakk upp á að við læsum hana nokkur saman. Sumir gætu haldið að ljóðlist 19. og 20. aldar taki ekki róttækum breytingum og almenn samstaða ríki um bestu ljóðin en hið rétta er að bókmenntasmekkurinn er í stöðugri þróun og skáldin sem eru talin best núna voru mörg lítils metin á eigin líftíma. Charlotte Mew er þannig tiltölulega nýlega komin í umræðuna og einn gagnrýnandi hefur látið svo um mælt að hún sé sjaldgæft skáld sem beitir engum brellum og sé í nánari sambandi við ljóðlistina en flestir. Þetta hljómar vel en rétt er að kynna Charlotte stuttlega. Hún var fædd í Lundúnum árið 1869, ein sjö systkina en fimm þeirra dóu eða urðu illa geðsjúk. Þessi áföll þykja setja svip sinn á ljóðlist Mew. Hún hóf snemma að birta í tímaritum en birti sína fyrstu ljóðabók árið 1916. Sú var aðeins prentuð í 500 eintökum og seldist upp á fjölmörgum árum en vakti athygli skálda, m.a. sjálfs Hardy sem kallaði Mew eitt fremsta skáld Englands. Mew var aldrei við karlmann kennd, neitaði að giftast og sennilega elskaði hún ritstjórann Ellu D’Arcy og síðar höfundinn May Sinclair en hvorug endurgalt hrifninguna. Árið 1926 missti hún einu systurina sem eftir var og fór í kjölfarið á hæli þar sem hún framdi sjálfsmorð árið 1928.
Ljóðum Mew var safnað saman í The Rambling Sailor (1929). Tíu þeirra lásum við vinirnir saman, meðal annars „From a Window“ (að neðan) þar sem hún lýsir náttúrunni gegnum gluggann, m.a. garðahlyn — ég held að þetta sé íslenska nafnið á því sem Bretar kallar „sycamore“ en í Bandaríkjunum mun heitið notað um allt annað tré — sem hún er mjög hænd að. Ljóðið er sakleysislegt í fyrstu en ekkert er mjög glaðlegt lengi sem Charlotte Mew fer höndum um, hún er talsvert „krípí“ eins og unga kynslóðin segir (jafnvel þó maður hafi ekki séð myndina af Charlotte hér að ofan). Það eru einhverjar dyr sem hún ætlar að fara um óttalaus og einhver ónefnd manneskja er hlæjandi á veginum. Kannski er þetta dauðaljóð þegar betur er að gáð og eins er með „Not for That City“ sem er líka heillandi, hljómmikið ljóð því að Mew er meira fyrir hljóm en líkingamál. Þar segir hún m.a. „We strain our eyes beyond this dusk to see / What, from the threshold of eternity / We shall step into. No, I think we shun / The splendour of that everlasting glare, /The clamour of that never-ending song.“ Mér finnst orðið „clamour“ ná vel utan um ljóðstíl Mew.
Annað sem Charlotte Mew kemst upp með í ljóðinu „The Farmer’s Bride“ er að ríma saman hús og mús en kannski sleppur hún með það vegna alls smádýramyndmálsins í ljóðinu sem er ort frá sjónarhorni bónda sem hefur eignast unga — hversu unga eiginlega? — konu sem reynist vera hrædd við hann og ást hans og hleypur frá honum þannig að það þarf að elta hana uppi (sjá að neðan) og læsa inni. Ég held að orðið „krípí“ eigi aftur við en á annan hátt en áður. Að lokum er því lýst hvernig mærin sefur á háaloftinu en ekki hjá ljóðmælandanum, bónda sínum, sem virðist ekki skilja þessa álfkonu sína mjög vel, konuna sem óttast karlmenn en vill gjarnan ræða við smádýrin. Mew er þannig fjölhæft skáld, finnst manni eftir að hafa skoðað tíu ljóð. Í „Sea Love“ lýsir hún elskhuga (hugsanlega mánanum) sem hún hefur misst og er nú aðeins eins og vindur í lófa hennar: „An’ him no more to me nor me to him / Than the wind goin’ over my hand.“ Og í „Fin de Fête“ er önnur sérstök mynd: „Do you remember the picture-book thieves / Who left two children sleeping in a wood the long night through, / And how the birds came down and covered them with leaves?“ Mew á til þessar feiknarlöngu línur sem breiða sig út yfir allt, næstum eins og hún sé þessi persóna í söngleik sem talar í stað þess að syngja.
Jafnvel stutt og einföld ljóð hennar virðast þungvæg, næstum eins og heil goðsögn, til dæmis „Domus Caedet Arborem“ sem fjallar um tré sem voru felld en Mew hagnýtir orð eins og „murder“, „crimes“ og „biding their time“ á fremur ógnandi hátt til að draga upp myndir af svörtum og ægilegum trjámyrðandi húsum sem minna á glæpabruggandi anda. Jafnvel ljóð um lítil börn að leika sér að grípa skugga (einhvers stærra?) verða heldur myrk þegar Mew hefur farið höndum um þau: „‘I’ve got one,’ cried sister to brother. / ‘I’ve got two.’ ‘Now I’ve got another.’ / But scudding away on their little bare feet, / They left the shade in the sunny street.“ Þessir skuggar eru alls ekki notalegir eins og í dægurlagi sungnu af Björgvin fyrir börn heldur eins konar váboðar. En aðferðin er samt ekki flókin, aðallega sterk tilfinning fyrir því hvar orðin eigi best heima sem gerir að verkum að manni finnst alltaf þung undiralda í hverju ljóði.
Mig minnir að það hafi alltaf verið snjór eða rigning eða þoka í verkum Brontë-systranna og í eins konar viðræðu við þær er ljóðið „The Call“ sem minnir mig jafnvel á þulur langömmu minnar en báðar gáfu þær Charlotte og Theodóra út fyrstu og einu ljóðabók sína árið 1916, og líkt og langamma er Charlotte Mew gjörn á að yrkja ljóð með hlaupandi stúlkum og ferðum til álfanna eða frá þeim. Eins og hjá Brontë (og Kate Bush sællar minningar) er einhver sem knýr á gluggann í „The Call“, rödd úr myrkrinu, andi sem ýfir hárið og skilur engin för eftir sig nema á sálinni. Kannski náði Charlotte Mew að lýsa hér eigin áhrifum; það er merkilegt hversu vel henni tekst að fanga kjarna þessarar löngu sögu Brontë. Ég hafði aldrei heyrt hennar getið fyrir ári en hún er í farangrinum núna eins og allur góður skáldskapur.