Bergmál frá tilgangslausu stríði

Franska kvikmyndin Villireyr (Les roseaux sauvages) sópaði að sér Cesar-verðlaunum árið 1995 en komst aldrei í íslensk bíóhús, öfugt við marga keppinautana, enda flest gömlu bíóin enn til þá, og ég mun hafa séð hana í sjónvarpinu seint á sunnudagskvöldi vorið 1997. Núna er hún sýnd á Netflix eins og margt gæðaefni frá Evrópu en þeir fáu sem lesa þessa síðu (samt allt helsta menntafólk Íslands) munu hafa tekið eftir því að ég nota þessa margfrægu streymisveitu fyrst og fremst til að horfa á evrópskt og gamalt efni, líkt og ég hafi tekið við af Hinrik Bjarnasyni sem dagskrárstjóri eigin sjónvarps. Meðal þess var í vor þessi kvikmynd sem fjallar um franska táninga árið 1962, þegar Frakkar voru um það bil að gefast upp á Alsírstríðinu eftir mörg ár af óábyrgu stríðshjali sem minnti í fyrstu á evrópska fjölmiðla þessa vors (slíkt eldist sjaldan vel). Sögusviðið er Suður-Frakkland en þaðan er leikstjórinn Techine ættaður. François er millistéttardrengur sem talar aðallega um bókmenntir og listir við bestu vinkonu sína Maïte sem er dóttir frönskukennarans. Í bekknum hans er innflytjendasonurinn og sveitadrengurinn Serge (ættaður frá Ítalíu) en bróðir hans Pierre hefur verið sendur að berjast til Alsír þó að hann reyni að fá frönskukennarann til að hjálpa sér að sleppa við að fara. Í bekknum er líka Alsírbúinn Henri sem er stöðugt að hlusta á útvarpið en hann er OAS-maður, styður nýlendustefnu Frakka og lítur á nýlenduveldið sem velgjörðarmann heimamanna í Alsír.

Inn í þessa flóknu pólitísku stöðu sem sannarlega setti svip sinn á Frakkland ársins 1962 (þegar leikstjórinn sjálfur var 19 ára) blandast kynferðismál. François, Serge og Henri eru allir í sama heimavistarskóla og Serge vingast upphaflega við François til að komast nær Maïte. François er tregur til vináttunnar þar sem hann telur þá of ólíka en Serge er sannfærandi og fljótlega heillast François af frumstæðum kynþokka Serge sem dregur François úr skel sinni. Þó að hann gamni sér með stráknum er Serge hins vegar einkum á höttunum eftir Maïte sem á hinn bóginn var hrifin af François á ívið óplatónskari hátt en hann af henni. Henri er fyrst í stað áhorfandi að öllu þessu drama en það er hann sem á endanum hreppir Maïte a.m.k. einu sinni sem eðlilega gremur Serge í ljósi gjörólíkra viðhorfa þeirra til Alsírstríðsins. Eins og heyra má er leikstjórinn André Techine (f. 1943) óhræddur við flókin og umdeild málefni. Meðal leikara í myndinni eru Élodie Bouchez sem fyrir áratug eða svo lék Vanessu Springora í umdeildri mynd um kynferðisofbeldi höfundarins Matzneff gegn henni. Serge leikur Stephane Rideau í sínu fyrsta hlutverki eftir að Techine uppgötvaði hann í ruðningsleik og ég sá hann nýlega í annarri Netflixmynd kominn í pabbahlutverk („Þannig teygist tíminn“). Henri er leikinn af Fréderic Gorny sem líka hefur verið vinsæll leikari síðan (var m.a. í Greifanum af Monte-Cristo með Depardieu árið 1998), og hinn viðkvæmi og blíði François er leikinn af Gaël Morel sem ólíkt hinum þremur hætti að leika um þrítugt og gerðist leikstjóri og höfundur. Það var ekki síst góðum leik þeirra allra að þakka að myndin sló í gegn. Þetta eru vel skrifuð hlutverk og hinir ungu leikarar sýndu sig þarna og sönnuðu.

Titill myndarinnar vísar til dæmisögu Esóps um eikina og reyrinn sem François fer með um miðja mynd í skólastofunni. Hann hefur þessa sögu auðvitað frá La Fontaine (1621–1695) sem sótti margt frá Esóp gamla. Hannes Finnsson biskup birti þessa sömu sögu á sínum tíma í Kvöldvökunum (1794) undir heitinu „Betra er ad bogna enn bresta“. Persónurnar fjórar eru fulltrúar andstæðna viðhorfa sem eru álíka afgerandi og netbelgingur velmegunarungmenna en þurfa að læra að líkjast reyrnum meira en eikinni til að brotna ekki. Líkt og algengt er í frönskum myndum ræða þær tilfinningar sínar vel og lengi, einkum François en hin líka, ekkert Íslendingasagnafálæti hér. Það merkir þó ekki að þau eigi alltaf auðvelt með að tjá þær eða að treysti beri öllu sem þau segja. Fyrsta alvarlega uppgjörið verður þegar François segir Maïte að Serge hafi tælt hann og hann sé orðinn ástfanginn. Vonbrigði hennar eru mikil en aldrei kemur til greina að þau bregði vináttu sinni og skömmu síðar eru þau farin að dansa við lag Beach Boys. François er um leið farinn að reyna að skilja Henri sem segir honum þó stöðugt að vera ekki aumingi, eins og heimurinn hafi tilnefnt hann til að vera strangur eins og Óttar Guðmundsson. Þetta laðar François bara enn frekar að Henri sem hann hefur þó blendnar tilfinningar til, hrífst kannski frekar að honum á vitsmunalegu plani en Serge á líkamlegu, og segir eitt sinn við hann að stundum finnist hann Henri vera vinur en stundum óvinur, um leið og hann biður Henri að skrifa sér. Í bakgrunninum er frú Alvarez frönskukennari, móðir Maïte, sem þjáist illa af sektarkennd vegna þess að fv. nemandi hennar, bróðir Serge, féll í Alsír. Hún endar á spítala þar sem hinn látni nemandi birtist henni alblóðugur og lemstraður.

Sagan hefst raunar á brúðkaupi Pierre bróður Serge sem er á leið í Alsírstríðið. Síðar fellur hann þar og þá vill François allt gera til að hugga Serge, jafnvel koma þeim Maïte saman. Serge er ekki síst reiður yfir að bróðirinn sé kallaður hetja en er samt meira en til í að eyða tíma með Maïte og hún með honum þó að hún segist ekki hafa neinn áhuga á strákum. Skömmu síðar slasast hinn viðkvæmi François á salerni strákaskólans þegar Henri og Serge eru farnir að slást vegna Alsír og hinn eilífi sáttasemjari er að reyna að skilja þá. Í kjölfarið tekst honum að komast nær Henri og deilir m.a. crêpes með plómusultu — hvað gæti verið franskara? — með þessum andlega útlaga þegar þeir eru báðir að fylgjast með Serge berum að ofan leika ruðning. Hann vill síðar kynna Henri fyrir Maïte sem er kommúnisti, femínisti, ídealisti og materíalisti og fyrirfram á móti OAS-manninum en þau hittast þó að lokum og verða að lokum par a.m.k. skamma stund áður en Henri hverfur á braut. Forfallakennarinn Morelli nær líka til ódæla uppreisnarmannsins Henri eftir að hafa líkt honum við eikina í dæmisögunni. Líkt og persónurnar þróast áhorfandinn til aukinnar samúðar með Henri sem á auðvitað fyrst og fremst bágt.

Þegar François kemur hjólandi að finna Serge er sá síðarnefndi að drekkja kettlingum í poka og François spyr hvort hann geti hjálpað við það (!) en Serge telur hann of viðkvæman fyrir slíka iðju. Hann fréttir síðan að Serge sé nú farinn að sofa hjá ungri ekkju bróður síns. Þeir eiga samt saman ævintýri í Toulouse, nálægustu borg, sem við kynnumst þó aðeins úr frásögn François. Þetta gerir Maïte arga þannig að hún hleypur frá François sem eltir hana en verður móður á hlaupunum (Techine tekur viðkvæmni François alle leið sem er stundum afar fyndið). François er hrjáður af ást sinni til hinna drengjanna en fær litla samúð frá Serge og Henri. Eitt sinn fer hann inn á almenningssalerni strákaskólans og segir „Je suis un pédé“ (ekki er þetta nú fallegt orð) við eigin spegilmynd aftur og aftur og hærra og hærra. Myndin er full af eftirminnilegum ljúfsárum og grátbroslegum senum af þessu tagi sem hafa höfðað mjög til kvikmyndaáhugamanna síðan; fæstar hafa augljósan boðskap en hægt og rólega þróast ungmennin fjögur og verða líkari reyrnum en eikinni.

Meðal grátbroslegri atriða í myndinni er þegar François fer til skókaupmanns sem hann þekkir ekki neitt en er greinilega grunaður um að vera hinsegin og ryður úr sér allri sögunni um ást sína á Serge og klykkir út með „Aðeins þú getur hjálpað mér“ en skelfingu lostinn maðurinn getur það auðvitað ekki og segist ekkert muna eftir unglingsárum sínum. Á meðan eltist Serge við Maïte sem sér Henri aftur og að lokum fara þau öll að synda í tjörn sem Serge þekkir (franska sveitin í myndinni er stórfalleg) af því að látni bróðirinn fór með kærustur sínar þangað. Þar togast François milli Maïte, Henri og Serge, þeir Serge ná að ræða innilega saman þó að þeim sé ekki skapað nema að skilja meðan hinar pólitísku andstæður Maïte og Henri ná saman í grasinu en líklega ekki til frambúðar. Þau sitja að lokum öll uppi með eigin ófullnægðu ástríður og virðast á leið hvert í eigin framtíð. Við fáum ekkert að vita hver hún er eða hvort François og Maïte stóðust prófin sem voru mikilvæg í lífi þeirra. Henri er sýndur skunda áleiðis til að ná lestinni úr bænum en hin þrjú rölta saman í franskri sveit án þess að neitt hafi verið útkljáð um framtíðarsamskipti þeirra.

Previous
Previous

Rómeó kaupir Júlíu

Next
Next

Skáld garðahlynsins