Rómeó kaupir Júlíu
Hvernig ætli hefði farið fyrir Rómeó og Júlíu ef þau hefðu ekki framið sjálfsmorð og þurft að lifa með misráðnu skyndibrúðkaupi sínu? Kvikmyndin Anora er með sína kenningu um það og ég get alveg samþykkt hana. Þetta mun vera besta mynd ársins að mati þeirra sem frægustu verðlaunin veita og kannski var hún það, a.m.k. er hún frískleg og öðruvísi en það átti líka við um Parasite sem vann um árið; fyrri helmingur hennar var einhver besta kvikmynd sem ég hef séð en seinni helmingurinn var því miður eins og íslensk bíómynd. Það fer ekki alveg eins illa fyrir Anora en þó finnst mér hún vera þrjár bíómyndir. Fyrsti þriðjungurinn er skemmtilega óvenjuleg en samt á einhvern hátt hugljúf ástarsaga, númer tvö er bráðskemmtilegur farsi og sá þriðji er alvarlega myndin sem væntanlega hlaut verðlaunin; ég er ekki alveg viss um að ég kaupi hana og sérstaklega ekki bláendann.
Eitt það besta við myndina er rússneski leikarinn Mark Eydelshteyn, ég gæti vel hugsað mér að horfa á heila þáttaröð af honum veipandi og talandi ensku með rússneskum hreim. Hann leikur ríka ungmennið Vanya sem næsta örugglega er einkabarn og fer á strípiklúbb einhvern og kynnist Anoru eða Ani (aðeins skárra stuttnefni á henni en Anakin Skywalker) sem skilur rússnesku. Henni fellur mjög vel við hann sem kúnna — en er það nú sniðugt að giftast kúnnanum? Þau ná vel saman en hún er þó augljóslega eldri og þroskaðri; þó greinilega ekki alveg nógu tortryggin og kannski einum of materíalísk. Upphafið af þessari mynd er svolítið eins og endalokin á An Officer and a Gentleman þar sem Debra Winger náði í mann í búningi og siðlausa stelpan fékk smá uppreisn æru með því að kalla „Way to go, Paula“ en í þessu tilviki er hin öfundsjúka samstarfskona Diamond allt annað en hrifin og spáir alls konar hörmungum.
Eftir að Ivan hefur keypt Anoru í viku fer hann að verða háður henni og giftast þau að lokum í Vegas og Anora virðist halda að þetta sé sönn ást þó að hvatvísi Ivans blasi við öllum með augu í höfðinu. Hann er raunar mjög sjarmerandi, kjörinn fyrsti eiginmaður, myndi ég halda. Í þessum fyrsta hluta er mikið partístand og bonkedíbonk (vinkona mín vill ekki að ég noti sögnina ríða), þau eru sem sagt mikið nakin í rúminu í alls konar stellingum og af því að hann er Rússi er líka mikið reykt og af því að þetta er bandarísk kvikmynd er endalaus fíkniefnaneysla – það er eins og allur kvikmyndaiðnaðurinn þar vestra snúist um að normalísera fíkniefnaneyslu, eins vond hugmynd og hún nú er í raunheiminum.
Anora og Vanya lifa sem sagt Rómeó og Júlíu lífi í höllu hans uns það spyrst út til Rússlands að Vanya sé giftur og það gleðikonu — kannski fékk myndin óskarinn til að Bandaríkjamenn gæti sýnt samúð sína með kynlífsverkafólki eins og það heitir núna; á sínum tíma var ég ekki jafn ákafur hatursmaður vændis og allt annað vinstrafólk og hlaut oft ákúrur fyrir en núna hefur pendúllinn sveiflast langt í hina áttina og ég get ekki fylgt honum þangað heldur. Pabbi og mamma í Rússlandi senda helsta fixerinn sinn Toros á litlu hjónakornin og hann sendir tvo handlangara sína, bróður sinn Garnik og svo Igor sem er sköllóttur „gopnik“, ég lærði þetta orð af myndinni en þetta mun vera eins konar Breiðhyltingur, alinn upp við gengjastríð innan um krúnurakaða og húðflúraða menn. Hefst nú farsahluti myndarinnar og hann er mjög góður. Toros og Garnik eru frábær gríntvennd og slagsmálin sem hljótast af skyndilegri innrás þögganna eru drepfyndin.
Vanya stingur af, vill fá Anoru með sér en hún missir af honum og fyrst í stað líður myndin ekkert fyrir brotthvarf hans vegna þess hversu fyndið fereyki Anora, Toros, Garnik og Igor eru. Eftir ryskingar í höllinni hefja þau dauðaleit sína að Ivan einkum á rússneskumælandi samkomustöðum borgarinnar og á einum barnum nær myndin ákveðnu hámarki í ræðu Toros um deyfð ungu kynslóðarinnar. Tarantino gæti hafa fyllst öfund yfir þessum þætti myndarinnar. Igor sýnir dugnað sinn sem „gopnik“ í ísbúð einni með því að ná kylfu af gúmmítöffara einum og brjóta og bramla. Þessum þætti myndarinnar lýkur með að Vanya finnst mökkölvaður og sennilega á pillum líka og hefur verið dreginn inn í hóruklefa af Diamond, hinni þórðarglöðu samstarfskonu Anoru sem er ein örfárra persóna í myndinni sem maður hefur litla samúð með því að annars flakkar hún á milli Anoru, handlangaranna og Vanya, a.m.k. fyrst í stað.
Anora heldur enn í vonina að Vanya elski sig en hann er varla compos mentis vegna drykkju og drabbs og er til lítils, flótti hans frá ástandinu sem hann hefur búið til með fyrirhyggjuleysi sínu reynist vera algjör. Þau eru dregin fyrir dómara til að ógilda hjónabandið (talsvert er grínað með að ýmsar persónur þekkja ekki muninn á skilnaði og ógildingu) en eftir farsakennt réttarsalsatriði þar sem Toros eins og við öll telur sig geta æpt „objection“ reglulega kemur úr kafinu að Vegas-hjónabönd er ekki hægt að ógilda í New York og nú eru foreldrarnir mættir til Ameríku. Þau eru ekkert sérstaklega geðugt par og Vanya reynist ekki mjög burðugur andspænis þeim, Anoru til sárra vonbrigða á meðan Igor fyllist ógeði á hegðun þessarar vellauðugu fjölskyldu.
Að lokum missir Anora allan áhuga á Ivan og hann á henni, heppin skrifstofukona í Vegas situr uppi með rándýran pels og myndinni lýkur á gopniknum Igor og Anoru saman í höllinni seinustu nóttina. Þau eru lítil hjól í stærra gangverki og fá eðlilega samúð hvort með öðru. Ég hygg að sú sena hafi hrifið meðlimi akademíunnar mest en mér fannst hún hálfgerð vonbrigði og verst skrifaði þáttur myndarinnar. Aftur á móti átta ég mig á að ætlunin var að sýna hvernig stúlka alin upp við að allt í heiminum séu viðskipti misskilur eðlilega samband þeirra Ivans og kann ekkert annað en að hórast. Þetta hefði ég fattað án þess að þessu væru veifað framan í mig í lokin. Þessi gamanmynd er þannig þrungin alvöru og vissulega er hún sorgleg en ég veit samt ekki um almenna gildið.
Núverandi heimsástand hefur kannski áhrifin á viðurkenningarnar þar sem Rússarnir koma ekkert sérstaklega vel út úr myndinni og auðvitað er ekki beinlínis hægt að halda með þeim en samt finnst mér persónulega rússneski hreimurinn halda henni uppi og treysti mér ekki til að taka þátt í þessu kynþáttahatri sumra gegn rússnesku þjóðinni. Í stuttu máli finnst mér Anora alls ekki vera algert húmbúkk eins og sumar óskarsverðlaunamyndir en tíminn mun skera úr um hvort hún reynist vera klassík. Það er aldrei að vita; seinustu tvö árin hef ég komist að því að sumar myndir frá 8. áratugnum hafa elst býsna vel.