Hin dularfulla Marta
Hús dags, hús nætur eftir Olgu Tokarczuk er nýkomin út á íslensku í þýðingu Árna Óskarssonar (sennilega önnur bók Olgu sem hann þýðir) og þar sem leið mín liggur til Slesíu í sumar var ég forvitinn að lesa hana enda er Olga einn heitasti höfundur nútímans. Bókin sem kom út á frummálinu árið 1998 fjallar um hjón sem flytja í smáþorp á þessu fjölskrúðuga svæði sem nú er í Póllandi. Hún minnti mig til skiptis á Valeyrarvalsinn, Betty MacDonald, Marquez og Góða dátann Svejk, aðallega vegna þess að hún er ekki með neina grunnfléttu heldur hverfist fyrst og fremst um stað og það er líka fínt; hin brotakennda skáldsaga er ævagömul hefð, margar eftirlætisbækur mínar hafa enga fléttu og mér finnst eiginlega frekar pirrandi þegar reynt er að setja fléttur inn í bækur sem hafa engu, s.s. sögurnar um Paddington.
Ekki skortir hins vegar viðburði í Hús dags, hús nætur, við fáum sjálfsmorð strax á bls. 14 og hún er morandi í dularfullum og afdrifaríkum atvikum sem sum gætu talist útúrdúrar nema að það er varla neinn þráður að dúra út úr. Bókin er líka uppfull af kynlegum kvistum eins og tíðkast í bókum sem gerast í smáþorpum sem auðvitað fær lesandann velta fyrir sér eðli listaverksins. Er hinn marglofaði Nóbelsverðlaunahafi kannski Jenny Colgan fyrir snobbara? Hvað gerir góða bók góða? Smá dass af yfirnáttúru? Heimspekipælingar sem rjúfa frásögnina reglulega? Nægilegt sjálfstraust til að ofskýra ekki ofan í lesendur? Færri klisjur og fleira óvænt?
Formið er lausbeislað hjá Olgu; í bókinni eru alls konar fróðleiksmolar, spádómar, uppskriftir og helgisögur með tilheyrandi jarteinum. Auður Ólafsdóttir kemur stundum í hugann. Einnig má hér finna umræðu um frásagnarfræði og heimspeki. Hin heilaga Kümmernis er lykilpersóna sögunnar ásamt helgisagnaritaranum Paschalis. Sögumaður hefur áhuga á draumum og þeir reynast góð leið til að komast í samband við aðra í þorpinu Nowa Ruda og heyra sögur þeirra. Hún er líka ófeimin við að túlka þó að stundum gleymi hún sér í lengri innskotslausum sögum.
Þó að flestar persónur haldi sig innan einnar frásagnar birtast sumar aftur og aftur. Aðalpersónan er nágrannakona aðfluttu hjónanna, hin dularfulla Marta sem fátt eitt er vitað um en sem er eins konar aukasögumaður eða meginheimild verksins. Marta sérhæfir sig í að gera hárkollur og velta má fyrir sér táknrænni merkingu þess. Hugsanlega er Marta hálfgerð þjóðsagnagyðja eða jafnvel miðill sem stingur hinum lærða sögumanni í samband við þennan sérstaka stað sem hana dauðlangar að kynnast. Að minnsta kosti er hún góð leið til að segja söguna í sérstökum tón sem einkennist bæði af nánd og fjarlægð. Eins veitir hann tilfinningu fyrir flækjum sögunnar í smásamfélagi í stórum heimi þar sem landamæri eru flókin og síbreytileg.